Stapi lífeyrissjóður býður alla velkomna sem mega velja sér lífeyrissjóð.
Öllum launagreiðendum, sjálfstætt starfandi og öðrum, ber að skila iðgjöldum til síns lífeyrissjóðs. Vefur launagreiðenda hjálpar þér að standa skil og hafa yfirsýn yfir iðgjöldin.
Iðgjaldaskil fara fram með reiknivél á launagreiðandavefnum sem sundurliðar iðgjöld í framlag launþega 4% og framlag launagreiðanda 11,5%, auk þess sem 0,1% greiðast í VIRK – starfsendurhæfingarsjóð. Sjálfstæðir atvinnurekendur greiða bæði framlag launþega og launagreiðanda.
Val er um að greiða iðgjöldin með kröfu í netbanka eða millifæra inn á reikning sjóðsins.
Samkvæmt lögum skal iðgjaldagreiðslutímabil (launatímabil) eigi vera lengra en mánuður og skal gjalddagi vera tíunda næsta mánaðar. Eindagi skal vera síðasti dagur sama mánaðar og iðgjald fellur í gjalddaga. Sem dæmi er gjalddagi júnílauna 10. júlí og eindagi síðasti dagur júlímánaðar. Ef iðgjöld eru ekki greidd fyrir eindaga reiknast á þau vanskilavextir frá gjalddaga til greiðsludags.