Saga sjóðsins

Stofnun

Stjórnir Lífeyrissjóðs Austurlands og Lífeyrissjóðs Norðurlands skrifuðu undir samrunasamning um sameiningu þessara sjóða þann 15. nóvember 2006. Viðræður um sameiningu sjóðanna höfðu þá staðið með hléum í u.þ.b. eitt ár. Á aukaársfundi Lífeyrissjóðs Norðurlands þann 15. desember 2006 voru réttindaákvæði í samþykktum sjóðsins samræmd við réttindaákvæði í samþykktum Lífeyrissjóðs Austurlands. Sameining sjóðanna var samþykkt á ársfundum þeirra, sem haldnir voru í Mývatnssveit þann 9. mars 2007. Þar var ákveðið að hinn sameinaði sjóður skyldi heita Stapi lífeyrissjóður. Fjármálaráðuneytið staðfesti samþykktir hins sameinaða sjóðs þann 18. júní 2007.

Eldri sjóðir

Lífeyrissjóður Austurlands var stofnaður í samræmi við ákvæði kjarasamninga árið 1969 og hóf starfsemi ári síðar. Skrifstofa sjóðsins var frá byrjun í Neskaupstað en starfssvæði sjóðsins náði yfir alla Austfirði.
Lífeyrissjóður Norðurlands tók til starfa 1. janúar 1993 og varð til með sameiningu sex lífeyrissjóða á Norðurlandi. Formlegur stofnfundur sjóðsins var haldinn á Blönduósi 1. desember 1992. Lífeyrissjóðirnir sem sameinuðust í Lífeyrissjóð Norðurlands voru:

  • Lífeyrissjóðurinn Björg, Húsavík
  • Lífeyrissjóðurinn Sameining, Akureyri
  • Lífeyrissjóður trésmiða, Akureyri
  • Lífeyrissjóður Iðju, Akureyri
  • Lífeyrissjóður stéttarfélaga í Skagafirði, Sauðárkróki
  • Lífeyrissjóður verkamanna á Hvammstanga

Auk ofantalinna lífeyrissjóða sameinaðist Blönduósdeild Lífeyrissjóðs verkalýðsfélaga á Norðurlandi vestra sjóðnum, en sá sjóður tók að öðru leyti ekki þátt í sameiningunni. Þann 1. janúar 2001 sameinuðust síðan Lífeyrissjóður verkalýðsfélaga á Norðurlandi vestra, Lífeyrissjóður KEA og Lífeyrissjóður Norðurlands.

Starfsleyfi

Sjóðurinn starfar skv. starfsleyfi sem fjármálaráðherra veitti Stapa lífeyrissjóði samkvæmt 52. grein laga nr. 129/1997. Jafnframt hefur fjármálaráðherra veitt sjóðnum heimild til að taka við viðbótarlífeyrissparnaði í samræmi við ákvæði I og II kafla sömu laga. Stapi lífeyrissjóður varð til á grunni Lífeyrissjóðs Norðurlands með sameiningu við Lífeyrissjóð Austurlands og hefur sömu kennitölu og lífeyrissjóðsnúmer og Lífeyrissjóður Norðurlands hafði.

Aðildarfélög

Aðildarfélög sjóðsins geta verið stéttarfélög, starfsmannafélög og samtök launagreiðenda. Aðildarfélaganna er getið í samþykktum sjóðsins.