Lánareglur

1. Gildissvið og lánsréttur

1.1. Reglur þessar gilda um sjóðfélagalán Stapa lífeyrissjóðs (Hér eftir vísað til sem „Stapi“ eða „sjóðurinn“).
1.2. Stapi veitir einstaklingum sem eiga lánsrétt fasteignaveðlán á grundvelli laga um fasteignalán til neytenda.
1.3. Til að eiga lánsrétt þarf umsækjandi að hafa greitt iðgjöld í Stapa lífeyrissjóð, annað hvort samtryggingardeild eða séreignardeild.
1.4. Þeir sjóðfélagar, sem sjálfir eiga að standa skil á iðgjöldum sínum til sjóðsins koma því aðeins til greina við úthlutun lána, að þeir séu skuldlausir við sjóðinn, þegar umsókn berst skrifstofu sjóðsins.
1.5. Sjóðfélagalán eru verðtryggð og með veði í fasteign í eigu lántaka

2. Lánsupphæðir og lánskjör

2.1. Lágmarksfjárhæð láns er 1.000.000 kr.
2.2. Hámarksfjárhæð lána til einstaklings, hjóna eða sambúðarmaka er kr. 75.000.000 samanlagt. Hámarksfjárhæð takmarkast einnig af veðrými, sbr. gr. 3.2. og mati á lánshæfi og greiðslugetu umsækjanda, sbr. gr. 4.1. – 4.3.
2.3. Lánstími sjóðfélagalána er 5 til 40 ár.
2.4. Unnt er að velja á milli fastra og breytilegra vaxta.
2.5. Stjórn sjóðsins tekur ákvörðun um fasta verðtryggða vexti. Fastir vextir miðast við útgáfudag skuldabréfs og taka ekki breytingum á lánstíma lánsins. Gildandi vextir eru birtir á heimasíðu sjóðsins.
2.6. Breytilegir vextir taka breytingum yfir lánstímann samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins. Við ákvörðun vaxta horfir stjórn einkum til eftirfarandi þátta: Vaxta sem Seðlabanki Íslands ákvarðar og birtir, ávöxtunarkröfu á verðtryggðum og óverðtryggðum ríkisskuldabréfum á markaði, markaðsaðstæðna á hverjum tíma, opinberra álaga, sögulegrar verðbólgu og verðbólguspár, rekstrarkostnaðar lífeyrissjóðsins vegna vinnu við umsýslu lána, álagningar vegna útlánaáhættu og áhættumats Stapa. Allar breytingar á vöxtum eru tilkynntar á heimasíðu sjóðsins a.m.k. 30 dögum áður en þær taka gildi. Gildandi vextir eru birtir á heimasíðu sjóðsins.
2.7. Sjóðfélagalán eru verðtryggð samkvæmt vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.
2.8. Gjalddagar sjóðfélagalána eru 12 á ári.
2.9. Lántaki getur valið á milli láns með jöfnum afborgunum höfuðstóls og láns með jöfnum greiðslum vaxta og afborgana (annuitetsláns).

3. Veðtrygging

3.1. Lánað er gegn fasteignaveði í íbúðarhúsnæði í eigu umsækjanda/lántaka. Ef íbúðarhúsnæðið sem setja á til veðtryggingar láni er jafnframt að hluta eða að öllu leyti í eigu maka sjóðfélaga, sambúðarmaka eða einstaklings, sem umsækjandi er í staðfestri samvist með, er áskilið að viðkomandi eigandi verði meðlántaki (samskuldari) að umbeðnu láni.
3.2. Áhvílandi uppreiknaðar veðskuldir að viðbættu láni sjóðsins, mega við lánveitingu ekki vera umfram 70% af kaupverði eða nýjasta fasteignamati eignarinnar og ekki umfram 100% af samtölu brunabótamats og lóðarmats.
3.3. Ef veðsetning vegna lántöku eða veðflutnings lána hjá sjóðnum er umfram 60% af markaðsverði er almennt gerður áskilnaður um að lán Stapa sé á 1. veðrétti. Þó er heimilt að víkja frá kröfu um 1. veðrétt ef fjárhæð lána framar í veðröð er innan við 10% af verðmæti veðsins.
3.4. Ef boðið er veð í jörð er hámark láns miðað við fasteignamat íbúðarhúsnæðis á jörðinni sbr. greinar 3.2 og 3.5.
3.5. Skerða má lánsfjárhæð eða hafna lánveitingu ef eign er mjög gömul, ef hún er á markaðssvæði þar sem hús eru ill- eða óseljanleg eða ef vafi er talinn leika á um verðmæti hins framboðna veðs að mati Stapa.

4. Mat á greiðslugetu og lánshæfi

4.1. Áður en lán er veitt er lánshæfi umsækjanda metið í samræmi við lög um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 og reglugerð um sama efni.
4.2. Greiðslu- og lánshæfismat skal framkvæmt af sjóðnum í samræmi við ofangreind lög og reglugerð.
4.3. Sjóðnum er heimilt að hafna umsókn um lán eða takmarka lánsfjárhæð ef niðurstaða lánshæfis- og/eða greiðslumats leiðir í ljós að umsækjandi hafi ekki fjárhagslega burði til lántökunnar. Ef veðsetning fasteignar fer yfir 50% áskilur sjóðurinn sér ávallt rétt til að gera ríkari kröfur um gæði veðs, niðurstöðu lánshæfismats og forsendna og niðurstöðu greiðslumats. Á grundvelli þess getur komið til þess að hámarkslánsfjárhæð verði lækkuð. Sama gildir, jafnvel þó veðsetningarhlutfall sé lægra, ef önnur atriði sem lúta að hagsmunum sjóðsins sem lánveitanda mæla með því að lánsfjárhæð sé lækkuð.

5. Uppgreiðsla

5.1. Lántaka er heimilt að greiða lán sitt upp að hluta eða öllu leyti hvenær sem er á lánstímanum og án sérstakrar þóknunar.

6. Kostnaður lántaka

6.1. Lántakandi greiðir lántökugjald sem er nú 55.000 kr. óháð lánsfjárhæð. Miðast gjaldið við hverja lánsumsókn. Er gjaldið dregið frá andvirði láns við útborgun þess. Lán sem tekin eru til uppgreiðslu/endurfjármögnunar á sjóðfélagalánum sem veitt voru fyrir 1. maí 2017 bera ekki lántökugjald.
6.2. Lántaka ber að greiða kostnað vegna veðbókarvottorðs og þinglýsingargjald.
6.3. Kostnaður vegna lánshæfis- og greiðslumat skv. gjaldskrá.

7. Lánsumsókn

7.1. Lánsumsókn skal skilað á þar til gerðu eyðublaði eða með rafrænum hætti. Rafrænar umsóknir þarf að staðfesta/undirrita með rafrænum skilríkjum. Í lánsumsókn kemur fram hvaða gögn þurfa að fylgja umsókn svo hún teljist fullgild. Með undirskrift sinni veitir umsækjandi sjóðnum heimild til þess að leita upplýsinga sem varða greiðslugetu og lánshæfi. Sjóðurinn áskilur sér rétt til að kalla eftir frekari gögnum telji hann það nauðsynlegt.

8. Upplýsingar til umsækjanda/lántaka

8.1. Sjóðnum ber að afhenda umsækjanda/lántaka staðlaðar upplýsingar á þar til gerðu formi svo hann geti tekið upplýsta ákvörðum um lántökuna, sbr. 13. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda.
8.2. Jafnframt ber að afhenda umsækjanda/lántaka upplýsingar um sögulega þróun verðlags og vaxta og áhrif þeirra á höfuðstól og greiðslubyrði lána, sbr. 14. gr. sömu laga.
8.3. Lántaka ber að kynna sér og undirrita eyðublað sjóðsins „Staðlaðar upplýsingar um neytendalán“.

9. Gildistaka

9.1. Reglur þessar voru samþykktar af stjórn Stapa þann 13. desember 2023 og taka gildi frá og með þeim degi.