i) Áunnin réttindi sjóðfélaga Lífeyrissjóðs Norðurlands voru hækkuð um 2,75% með samþykkt stjórnar sjóðsins þann 9. mars 2007. Hækkunin var gerð til að samræma réttindi sjóðfélaga Lífeyrissjóðs Norðurlands og Lífeyrissjóðs Austurlands vegna sameiningar sjóðanna.
ii) Eftir ársfund 2011 voru gerðar eftirfarandi breytingar á réttindum:
Áunnin réttindi voru lækkuð um 6%. Miðað var við réttindi, vegna iðgjalda ársins 2010 og eldri.
Framtíðarréttindi voru lækkuð þannig að framtíðareignir og skuldbindingar stóðust á , sem nam lækkun um 7,9% af framtíðarskuldbindingum. Framtíðar framlag til jöfnunar á örorkubyrði var núvirt, sem hækkaði framtíðareignir um 6%. Sama hækkun var gerð á framtíðarréttindum. Ofangreindar aðgerðir jafngilda 2,5% lækkun framtíðarskuldbindinga mv. stöðuna eins og hún var fyrir aðgerðir.
Ofangreindar breytingar skulu taka gildi frá upphafi næsta mánaðar eftir að samþykktirnar hafa verði staðfestar af Fjármálaráðuneyti.
iii) Eftir ársfund 2012 voru gerðar eftirfarandi breytingar á réttindum:
Áunnin réttindi voru lækkuð um 7,5%. Miðað var við réttindi, vegna iðgjalda ársins 2011 og eldri.
Ofangreindar breytingar skulu taka gildi frá upphafi næsta mánaðar eftir að samþykktirnar hafa verið staðfestar af Fjármálaráðuneyti.
iv) Á ársfundi sjóðsins 2015 var ákveðið að taka upp nýtt réttindakerfi. Nýja kerfið byggir á því, að í stað þess að réttindi myndist miðað við ákveðna réttindatöflu, er iðgjaldi skipt í söfnunarþátt og tryggingarþátt. Söfnunarþáttur iðgjaldsins myndar réttindasjóð viðkomandi sjóðfélaga, sem ávaxtast í samræmi við ávöxtun á eignum sjóðsins. Réttindasjóðnum er breytt í eftirlaun við töku lífeyris, skv. tiltekinni töflu. Tryggingaþáttur iðgjaldsins stendur undir þeirri tryggingavernd sem sjóðurinn veitir í formi áfallatrygginga (örorku-, maka- og barnalífeyris). Óúrskurðuð réttindi skv. eldra kerfi voru umreiknuð í réttindasjóði þeirra sjóðfélaga, sem réttindi áttu í sjóðnum 31.12.2015 á þann hátt að hlutdeild þeirra í eignum sjóðsins (þ.e. réttindasjóður) á þeim tíma er sú sama og hlutdeild þeirra í áföllnum óúrskuðuðum réttindum, miðað við eldra kerfi, var 31.12.2015. Breytingin hefur ekki áhrif á hlutfallslegan rétt sjóðfélaga vegna áfallinnar tryggingafræðilegrar stöðu, en í stað tilgreindra lífeyrisréttinda í krónum kemur réttindasjóður í krónum sem breytt verður í lífeyri við töku lífeyris.
Frá ársfundi sjóðsins 29. apríl 2015 til loka árs 2015 giltu ákvæði eldri samþykkta þ.m.t. um réttindaávinnslu og lífeyrisúrskurði, með þeirri undantekningu að ákvæði 17.2 um verðtryggingu réttinda, giltu ekki á því tímabili. Þannig voru áunnin óúrskurðuð réttindi, bæði þau sem áunnin voru 30. apríl 2015 og fyrr og þau sem áunnust frá 1. maí 2015 til 31.12.2015 ekki verðtryggð og tóku því ekki breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs á þessu tímabili þ.e. frá 1. maí 2015 til 31.desember 2015.