Breytingar á lögum

Alþingi samþykkti þann 15. júní 2022 breytingar á lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Breytingarnar tóku gildi 1. janúar 2023.

Hér að neðan eru tíundaðar helstu breytingar og áhrif þeirra á sjóðfélaga hjá Stapa:

  • Lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð hækkar úr 12% í 15,5%
    Flestir sjóðfélagar hjá Stapa greiða nú þegar 15,5% þar sem samið var um þá hækkun fyrir aðildarfélög kjarasamnings SA og ASÍ árið 2017. Fyrst um sinn snertir þetta því beint sjálfstæða atvinnurekendur sem greiða til Stapa, þar sem lágmarksgjald þeirra verður 15,5% frá áramótum. Ef kveðið er á um aðra hlutfallstölu í í kjarasamningum þá gildir hún þar til samkomulag hefur náðst um annað.

  • Lífeyrissjóðum er heimilt að bjóða sjóðfélögum að ráðstafa allt að 3,5% af lágmarksiðgjaldi í tilgreinda séreign.
    Heimild til að greiða allt að 3,5% af lágmarksiðgjaldi í tilgreinda séreign í stað tryggingadeildar Stapa var sett inn í kjarasamning SA og ASÍ árið 2017. Tilgreind séreign er með þrengri útborgunarheimildir en hefðbundinn séreignarsparnaður.

  • Séreign af lágmarksiðgjaldi verður ekki lengur undanþegin skerðingu greiðslna frá TR eða þátttöku í dvalarkostnaði á stofnun fyrir aldraða og fleira.

    Viðbótarlífeyrissparnaður, þ.e. séreign sem hefur myndast af viðbótariðgjaldi (2-4% framlag launþega + 2% mótframlagi launagreiðanda), hefur almennt ekki áhrif á greiðslur almannatrygginga. Greiðslur úr annarri séreign, t.d. tilgreindri séreign, mun skerða ellilífeyri almannatrygginga frá og með 1. janúar 2023.

    Sjóðfélagar sem eru þegar byrjaðir að taka út lífeyri hjá almannatryggingum verða þó undanþegnir, þ.e. útborganir þeirra úr séreignarsjóði munu almennt ekki skerða greiðslur frá almannatryggingum.

  • Heimilt verður að ráðstafa tilgreindri séreign skattfrjálst til kaupa á fyrstu fasteign að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

  • Rétthafa séreignarsparnaðar, sem ekki hefur verið eigandi að íbúðarhúsnæði síðastliðin fimm ár áður en sótt er um ráðstöfun séreignarsparnaðar, er einnig heimilt að nýta sér úrræði laga nr. 111/2016 að uppfylltum öðrum skilyrðum þeirra. 

 

Nánari upplýsingar um lagabreytinguna má finna á vef Alþingis og tr.is

Sjóðfélagar eru hvattir til að hafa samband í s. 460-4500 eða stapi@stapi.is varðandi frekari fyrirspurnir um lagabreytinguna.