Breytingar á samþykktum, slit og samruni
10. |
Breytingar á samþykktum. |
|
10.1 |
Tillögur um breytingar á samþykktum þessum má því aðeins taka fyrir, að þær hafi borist stjórn sjóðsins a.m.k. þremur vikum fyrir ársfund. Stjórn sjóðsins skal minnst tveimur vikum fyrir ársfund senda aðildarfélögum sjóðsins tillögur um breytingar á samþykktum til kynningar. Ennfremur skal birta tillögurnar á heimasíðu sjóðsins minnst tveimur vikum fyrir ársfund. Miði tillaga að aukningu réttinda eða breytingum á fjárfestingarstefnu sem ætla má að haft geti áhrif á getu sjóðsins til greiðslu lífeyris skal fylgja tryggingafræðileg úttekt á afleiðingum breytingarinnar á gjaldhæfi sjóðsins. Breytingartillögu sem skert getur stöðu sjóðsins svo hann fullnægi ekki lágmarkskröfum skv. lögum nr. 129/1997 eða samningi milli ASÍ og VSÍ um lífeyrismál, 12. desember 1995, með síðari breytingum, skal vísað frá ársfundi. Tillögurnar skulu liggja frammi á skrifstofu sjóðsins í tvær vikur fyrir ársfund og það auglýst þannig að sjóðfélögum gefist kostur á að koma að athugasemdum á ársfundi. |
|
10.2 |
Stjórn sjóðsins er heimilt að gera breytingar á samþykktum þessum án þess að bera þær undir ársfund, ef þær leiða af ófrávíkjanlegum ákvæðum laga eða reglugerð. Stjórn er einnig heimilt að breyta ákvæðum 6. greinar um fjárfestingarheimildir sjóðsins ef breytingar verða á 36. grein laga nr. 129/1997. Breytingar sem gerðar eru með heimild í þessari grein skulu kynntar formlega á næsta ársfundi sjóðsins. |
|
10.3 |
Breytingar á samþykktum þessum taka því aðeins gildi að þær hljóti samþykki a.m.k. 2/3 hluta fulltrúa í fulltrúaráði á ársfundi og hafi hlotið staðfestingu fjármálaráðuneytisins. |
11. |
Sameining við annan sjóð, samningar um tryggingavernd og rekstur |
|
11.1 |
Stjórn sjóðsins er heimilt að semja við stjórnir annarra lífeyrissjóða um samruna viðkomandi lífeyrissjóða. Stjórnin skal gæta þess að réttur sjóðfélaga sjóðsins verði ekki skertur við samrunann og jafnframt að hann sé ekki bættur á kostnað sjóðfélaga hinna sjóðanna. Samrunasamningur milli sjóðsins og annarra lífeyrissjóða, skal hljóta samþykki árs- eða aukafundar með sama hætti og breytingar á samþykktum sjóðsins. |
|
11.2 |
Stjórn sjóðsins er heimilt að selja öðrum sjóðum tryggingavernd og hafa samstarf við aðra sjóði um einstaka þætti tryggingaverndar. |
|
11.3 |
Stjórn sjóðsins er heimilt að semja við stjórnir annarra lífeyrissjóða um að sjóðurinn sjái um rekstur þeirra, sjóðirnir hafi sameiginlegt skrifstofuhald eða hafi samstarf um rekstur og ávöxtun fjármuna. Við gerð slíkra samninga skal þess gætt að rekstrarkostnaði sé skipt með eðlilegum og ótvíræðum hætti milli aðila og í samræmi við samkomulag stjórna viðkomandi sjóða. Sama á við um skiptingu á ávinningi eða tapi ef um samstarf um ávöxtun fjármuna er að ræða. |
12. |
Slit á sjóðnum |
|
12.1 |
Við ákvörðun um slit á sjóðnum þarf 75% atkvæða í báðum hlutum fulltrúaráðs á árs- eða aukafundi sjóðsins. Að öðru leyti fer um slit sjóðsins skv. X. kafla laga nr. 129/1997. |
13. |
Gildistaka |
|
13.1 |
Samþykktir þessar gilda frá 1. október 2023 og að fenginni staðfestingu fjármálaráðuneytisins. . Hafi fjármálaráðuneytið ekki staðfest samþykktirnar fyrir 1. október 2023 gilda þær frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir staðfestingu ráðuneytisins. |