Lánamöguleikar

Stapi lífeyrissjóður býður upp á verðtryggð lán með veði í íbúðarhúsnæði í eigu lántaka. Húsnæðið verður að vera staðsett á Íslandi.

  • Hámarkslánshlutfall er 70% af kaupverði eða nýjasta fasteignamati íbúðarhúsnæðis. Meta þarf greiðslugetu og lánshæfi umsækjenda.
  • Fjárhæð láns getur aldrei orðið hærri en 75.000.000 kr.
  • Lánstími sjóðfélagalána er 5-40 ár.
  • Gjalddagar sjóðfélagalána eru 12 á ári.
  • Hægt er að velja um lán með föstum eða breytilegum vöxtum. 
  • Lántaki getur valið á milli láns með jöfnum afborgunum og láns með jöfnum greiðslum (annuitetsláns). 

Lánshlutfall

  • Við kaup fasteignar skal miðað við kaupverð.
  • Við endurfjármögnun er miðað við nýjasta fasteignamat eignarinnar frá Þjóðskrá. Þó er sjóðnum heimilt að taka mið af kaupverði samkvæmt kaupsamningi ef kaupverð var lægra en fasteignamat, ef kaupsamningur er yngri en 24 mánaða þegar lánsumsókn berst.
  • Lánsfjárhæð getur þó aldrei verið hærri en samtala brunabótamats og lóðamats eignarinnar, samkvæmt lánareglum Stapa.

Lán með breytilegum vöxtum

Breytilegir vextir taka breytingum á lánstímanum samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins hverju sinni. Við ákvörðun vaxta horfir stjórn einkum til eftirfarandi þátta: vaxta sem Seðlabanki Íslands ákvarðar og birtir, ávöxtunarkröfu á verðtryggðum og óverðtryggðum ríkisskuldabréfum á markaði, markaðsaðstæðna á hverjum tíma, opinberra álaga, sögulegrar verðbólgu og verðbólguspár, rekstrarkostnaðar lífeyrissjóðsins vegna vinnu við umsýslu lána, álagningar vegna útlánaáhættu og áhættumats Stapa. Allar breytingar á vöxtum eru tilkynntar á heimasíðu sjóðsins a.m.k. 30 dögum áður en þær taka gildi. Gildandi vextir eru birtir á heimasíðu sjóðsins.

Lán með föstum vöxtum

Vextir lána með föstum vöxtum haldast óbreyttir út lánstímann. Stjórn Stapa tekur ákvörðum um fasta vexti nýrra lána á hverjum tíma. Ákvörðun stjórnar Stapa um breytingu á föstum vöxtum gildir aðeins um ný lán frá þeim tíma sem ákvörðun er tekin. Vextir eldri fastvaxtalána breytast ekki við slíka ákvörðun.

Jafnar greiðslur (annuitet)

Mánaðarleg greiðsla af láni er sú sama út lánstímann en breytist þó í takt við verðbólgu. Hlutfall á milli afborgunar höfuðstóls og vaxta breytist þegar líður á lánstímann. Til að byrja með er hlutfallið sem fer í afborgun höfuðstóls lágt og vaxtagreiðslu hátt. Þetta breytist þegar líður á lánstímann og hækkar afborgun höfuðstóls  og vaxtagreiðslan lækkar í samræmi við lægri höfuðstól. Mánaðarleg greiðsla af jafngreiðsluláni er lægri en af láni með jöfnum afborgunum til að byrja með.

Jafnar afborganir

Þegar lán er með jöfnum afborgunum er afborgun höfuðstóls sú sama út lánstímann en breytist þó í takt við verðbólgu. Greiðslubyrði af láni með jöfnum afborgunum er hærri til að byrja með en lækkar þegar líður á lánstímann þar sem greiðsla vaxta lækkar í takt við lægri höfuðstól. 

Lánareiknivél

Með lánareiknivél Stapa er hægt að áætla hver greiðslubyrði verður af lánum. Hægt er að velja verðbólguforsendur í samræmi við lög um neytendalán eða slá inn eigin gildi.