Hvað er tap?

Í nýlegri skýrslu úttektarnefndar um starfsemi lífeyrissjóðanna er megin áherslan lögð á að reikna út tap sjóðanna af hruni fjármálakerfisins á Íslandi. Þetta er gert með því að líta eingöngu til þeirra lækkana og afskrifta sem urðu á tilteknum verðbréfum í eigu sjóðanna. Í nýlegri skýrslu úttektarnefndar um starfsemi lífeyrissjóðanna er megin áherslan lögð á að reikna út tap sjóðanna af hruni fjármálakerfisins á Íslandi. Þetta er gert með því að líta eingöngu til þeirra lækkana og afskrifta sem urðu á tilteknum verðbréfum í eigu sjóðanna. „Tapið“ er svo lagt saman og út koma mjög stórar tölur. Á sama tíma er ekki litið til tekna af þessum sömu verðbréfum, hvorki af þeim sem síðar voru lækkuð eða afskrifuð né af hinum sem hækkuðu m.a. vegna hrunsins. Lífeyrissjóðum er ætlað að dreifa áhættu á margar tegundir eigna og því þarf að horfa á myndina í heild.  Annars fæst ekki raunsönn mynd af afkomunni.

Á hrunárinu 2008 var höfuðstóll Stapa lífeyrissjóðs örlítið hærri í lok árs, en í byrjun árs, þegar búið er að taka tillit til iðgjalda, lífeyris og kostnaðar. (Höfuðstóll í byrjun – iðgjöld + lífeyrir + rekstur samanborið við höfuðstól í lok). Þetta er eðlilegt þar sem fjármagnstekjur voru lítið eitt jákvæðar á árinu, þótt plúsinn væri ekki mikill.

Það hefur reynst erfitt að útskýra það fyrir sjóðfélögum að sjóðurinn hafi verið jafn stór í lok árs og hann var í byrjun árs á sama tíma og úttektarnefndin heldur því fram að nærri 30% af sjóðnum hafi tapast.

Við höfum reynt að útskýra þetta með einföldu dæmi. Dæmið er tilbúið en getur skýrt það hvers vegna tap á einstökum verðbréfum í lífeyrissjóði þarf ekki að þýða sambærilegt tap á réttindum fyrir sjóðfélagana í sjóðnum.

Dæmi: Nonni greiðir 200 kr. til sjóðsins. Sjóðurinn tekur við iðgjaldinu og setur það í ávöxtun. Til að dreifa áhættu kaupir sjóðurinn tvö verðbréf A og B á 100 kr. hvert. Sjóðurinn sem Nonni á í er því 100+100 = 200 kr. að verðmæti. Í kjölfarið verða miklar sveiflur á fjármálamörkuðum sem hefur þau áhrif að verðbréf A lækkar um 50 kr. þ.e. úr 100 kr. í 50 kr. Á hinn bóginn hækkar verðbréf B um 50 kr. þ.e. úr 100 kr. í 150 kr. Eftir þessar sveiflur er stærð sjóðsins 50+150 = 200 kr. eða jafn stór og í byrjun.

Hefur sjóðurinn tapað? Svarið er nei, miðað við hefðbundinn skilning á tapi – sjóðurinn er jafnstór eftir og hann var áður.

Hefur Nonni tapað? Svarið er nei – réttindi Nonna eru hin sömu og áður.

Hefur orðið tap á einhverjum verðbréfum? Já það varð tap upp á 50 kr. á verðbréfi A. 50 kr. eru 25% af höfuðstóli sjóðsins.

Er í þessu samhengi rétt að tala um að sjóðurinn hafi tapað 25% af eignum sínum? Það er e.t.v. ekki ósatt, en gefur það raunsanna mynd af því sem gerðist? Svari hver fyrir sig.