Samkvæmt íslenskum lögum er skylda að greiða í lífeyrissjóð frá 16 ára aldri.
Launþegi greiðir 4% af launum sínum í hverjum mánuði og launagreiðandi greiðir mótframlag, sem er oftast 11,5% af launum. Með greiðslum til sjóðsins ávinnur þú þér rétt til lífeyris og býrð í haginn fyrir efri árin.
Nýir sjóðfélagar fá sendar helstu upplýsingar um starfsemi sjóðsins. Bréfið er einnig aðgengilegt hér að neðan.
Upplýsingablað til nýrra sjóðfélaga
Hjá Stapa eru þrjár deildir: Tryggingadeild, Séreignardeild og Tilgreind séreignardeild.
Tryggingadeild
Réttindi sjóðfélaga eru tengd beint við ávöxtun sjóðsins með svokallaðri eignavísitölu. Í hverjum mánuði eru eignir sjóðsins metnar og réttindi uppfærð í samræmi við ávöxtun.
Eftirlaun
Þegar sjóðfélagi ákveður að hefja töku eftirlauna er réttindasjóðnum skipt í mánaðarlegar ævilangar greiðslur. Hægt að sækja um eftirlaun frá 60 ára aldri.
Örorkulífeyrir
Ef starfsorka skerðist um 50% eða meira og veldur tekjutapi er greiddur endurhæfingar- eða örorkulífeyrir.
Makalífeyrir
Greiðist til maka við andlát sjóðfélaga.
Barnalífeyrir
Er greiddur til barna látins sjóðfélaga og þeirra sem fá örorkulífeyri.
Á vefnum finnur þú einnig allt um lífeyri undir Sjóðfélagar - Lífeyrir.
Séreignardeild
Þú hefur val um að greiða 2-4% af launum í séreign. Launagreiðandi leggur þá fram 2% framlag að auki sem jafngildir hækkun launa.
Það er einfalt að hefja séreignarsparnað. Á umsóknarvef Stapa er hægt að fylla út rafræna umsókn. Stapi sér um að senda upplýsingar áfram til launagreiðanda.
Á vefnum finnur þú einnig allt um séreign undir Sjóðfélagar - Séreign.
Tilgeind séreignardeild
Margir kjara- eða ráðningarsamningar heimila ráðstöfun allt að 3,5% af skylduiðgjaldi í tilgreinda séreign. Sá hluti kemur þá til lækkunar á ávinnslu hvað varðar réttindasjóð til eftirlauna og áfallatrygginga.
Sjóðfélagi sem kýs þennan valkost þarf að fylla út tilkynningu á umsóknarvef sjóðsins. Ef ekkert er aðhafst þá fer þessi hluti sjálfkrafa í Tryggingadeild.
Á vefnum finnur þú einnig allt um séreign undir Sjóðfélagar - Tilgreind séreign.
Það er mikilvægt að vanda valið þegar kemur að vörsluaðila séreignarsparnaðar. Lífeyrissjóðir, bankar og erlendir aðilar bjóða upp á margvíslegar fjárfestingarleiðir en kostnaður þeirra getur verið mismunandi.
Stapi innheimtir ekki kostnað af iðgjöldum þegar þau eru greidd til sjóðsins en árlegur rekstrarkostnaður er 0,2-0,5% eftir því hvaða ávöxtunarleið er valin.
Ef nýta á séreign inn á lán eða til íbúðarkaupa þarf að vera öruggt að vörsluaðilinn heimili slíkt.
Réttindi þín hjá Stapa byggjast á greiðslum sem berast frá launagreiðanda. Þess vegna er mjög mikilvægt að fylgjast með að iðgjöld samkvæmt launaseðli skili sér til sjóðsins þannig að réttindi þín glatist ekki.
Tvisvar á ári gefur Stapi út yfirlit um greiðslur sem birt er á vef sjóðfélaga og í rafrænu pósthólfi á Ísland.is. Þar koma m.a. fram upplýsingar hvernig framlagið skiptist, framlag þitt og mótframlag launagreiðanda en einnig áætluð lífeyrisréttindi. Ef þú hefur athugasemdir eða heldur að iðgjöld hafi ekki skilað sér skaltu hafa samband við okkur.
Vefur sjóðfélaga er aðgengilegur frá vef Stapa. Þar finnur þú allar upplýsingar sem varða greiðslur launagreiðanda þíns til sjóðsins. Mjög mikilvægt er að þú berir saman hvort rétt upphæð hafi borist sjóðnum miðað við launaseðilinn þinn. Á sjóðfélagavefnum getur þú líka fundið upplýsingar um réttindi þín hjá sjóðnum. Mundu að skrá netfangið þitt í reitinn undir Mínar upplýsingar.
Stapi veitir sjóðfélögum lán til íbúðakaupa eða endurfjármögnunar íbúðarlána. Upplýsingar um lánamöguleika eru á vefsíðu sjóðsins.
Eignastýring Stapa mótast af fjárfestingarstefnu sjóðsins sem er ákvörðuð árlega af stjórn. Markmið sjóðsins er að ná sem bestri ávöxtun að teknu tilliti til ásættanlegrar áhættutöku á hverjum tíma. Sjóðurinn hefur sett sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar og hluthafastefnu. Undir Fjárfestingar á stapi.is er hægt að nálgast upplýsingar um ávöxtun allra deilda og þær stefnur sem sjóðurinn hefur sett sér.
Svör við þessum og fleiri spurningum má finna á síðunni Spurt og svarað á stapi.is
Stapi lífeyrissjóður varð til við sameiningu Lífeyrissjóðs Norðurlands og Lífeyrissjóðs Austurlands árið 2007. Aðildarfélög sjóðsins eru: Afl starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Eining-Iðja, Byggiðn - Félag byggingamanna, Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri, Framsýn, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðsfélag Þórshafnar, Verslunarmannafélag Skagfirðinga, Þingiðn og Samtök atvinnulífsins.
Lífeyrissjóðir eru eftirlitsskyldir aðilar sem starfa skv. lögum nr. 129/1997 en fylgja auk þess ýmsum öðrum lögum, reglugerðum og leiðbeinandi viðmiðum. Starfsemi sjóðsins byggir auk þess á samþykktum sem er t.a.m. grunnur að réttindakerfinu og umgjörð um starfsemi sjóðsins. Breytingar á samþykktum þarf að gera á ársfundum.
Sérstakt fulltrúaráð fer með atkvæðisrétt á fundum. Aðildarfélögin kjósa fulltrúa í ráðið, sem er að jöfnu skipað fulltrúum launþega og atvinnurekenda. Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í mótun stefnu sjóðsins skaltu ekki hika við að hafa samband við aðildarfélagið þitt.
Við hvetjum þig til að hafa samband við okkur ef spurningar vakna eða frekari upplýsinga er óskað. Skrifstofur Stapa eru tvær, að Strandgötu 3 á Akureyri og Bakkavegi 5 í Neskaupstað en einnig er hægt að hafa samband í síma 460-4500 eða senda fyrirspurn á stapi@stapi.is.