Endurhæfingar- og örorkulífeyrir

  • Hvað er endurmat á örorku?

    Upphaflegt mat á starfsgetu sjóðfélaga (örorkumat) þegar sótt er um endurhæfingar- eða örorkulífeyri er tímabundið. Þegar sá tími er liðinn skal starfsgeta sjóðfélaga metin að nýju, þar með talið hvaða árangur hefur orðið af starfsendurhæfingu, hafi sjóðfélagi notið endurhæfingarlífeyris. Við endurmat þarf að skila inn heilsufarsupplýsingum, s.s. læknisvottorðum, og sjóðfélagi kann að vera kallaður í sérstaka læknisskoðun vegna þessa. Skili sjóðfélagi ekki inn gögnum tímanlega vegna endurmats, eða mætir ekki í umbeðna læknisskoðun eru greiðslur til hans stöðvaðar þangað til bætt hefur verið úr. 

  • Hvaða upplýsingar þarf ég að veita sjóðnum vegna umsóknar um örorkulífeyri?

    Við umsókn um endurhæfingar- eða örorkulífeyri þarf sjóðfélagi að skila inn nákvæmum upplýsingum um heilsufar sitt. Auk umsóknar þarf að skila eftirtöldum gögnum:

    Berist ekki fullnægjandi gögn og upplýsingar frá sjóðfélaga og hann sinnir ekki tilmælum sjóðsins þar að lútandi skal umsókn hans vísað frá og telst hún þá úr gildi fallin.

    Umsóknarferlið getur tekið nokkurn tíma og ræðst mikið af því hversu hratt umbeðin gögn berast sjóðnum. Ekki er óalgengt að það taki 2-3 mánuði frá því umsókn berst sjóðnum, og öll umbeðin gögn hafa skilað sér, þar til greiðslur fara að berast. 

  • Hvernig er tekjutap metið?

    Tekjutap sjóðfélaga vegna orkutaps telst vera mismunur á heildartekjum sjóðfélagans eftir orkutapið annars vegar og viðmiðunartekjum hans hins vegar. Til að fá raunvirði viðmiðunartekna sjóðfélagans á hverjum tíma eru þær framreiknaðar með vísitölu neysluverðs. Þetta raunvirði viðmiðunartekna er svo borið saman við heildartekjur sjóðfélagans á því tímabili sem er til skoðunar. Tekjuskoðun af þessu tagi er framkvæmd ársfjórðungslega. 

  • Á ég rétt á endurhæfingar- eða örorkulífeyri?

    Þú átt rétt á endurhæfingar- eða örorkulífeyri frá sjóðnum ef þú uppfyllir eftirtalin skilyrði:

    • Þú hefur aflað þér réttinda með greiðslum til sjóðsins
    • Þú hefur orðið fyrir skerðingu á starfsgetu sem metin er 50% eða meira
    • Þú hefur orðið fyrir tekjumissi vegna hinnar skertu starfsorku
    • Skerðing á starfsorku hefur varað í a.m.k. sex mánuði
  • Hvað er framreikningur réttinda?

    Þegar sjóðfélaga er úrskurðaður örorkulífeyrir geta réttindi hans verið af tvennum toga. Annars vegar áunnin réttindi, sem byggja á stöðu réttindasjóðs sjóðfélagans. Því til viðbótar kann sjóðfélaginn að eiga rétt á framreiknuðum rétti. Framreikningnum er ætlað að meta framtíðar tekjutap sjóðfélagans. Framreikningurinn byggir á því að sjóðfélaginn fær viðbótarréttindi, eins og hann hafi greitt iðgjöld til 65 ára aldurs. Reiknuð iðgjaldagreiðsla, til 65 ára aldurs, miðast við að hann hafi haft sömu tekjur og nemur viðmiðunartekjum hans allan þann tíma og greitt af þeim iðgjald. Þessum iðgjöldum er breytt í réttindi skv. töflu IV í samþykktum sjóðsins. Til að eiga rétt á þessu þarf sjóðfélaginn að hafa greitt ákveðið lágmarksiðgjald til sjóðsins í a.m.k. þrjú af síðustu fjórum árum og þar af sex af síðustu tólf mánuðum. Hann þarf að hafa orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum starfsorkutapsins og má ekki eiga sök á starfsorkutapinu sjálfur vegna ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna. Ýmis atriði geta haft áhrif á útreikning framreiknings, eins og sjá má í gr. 19.6 í samþykktum sjóðsins.

  • Hvað eru áfallatryggingar?

    Áfallatryggingar eru tryggingar sem hafa það að markmið að tryggja afkomu sjóðfélaga ef hann eða fjölskylda hans verður fyrir áföllum, við missi á starfsorku eða fráfall. Áfallatryggingar skiptast í örorku-, maka- og barnalífeyri, en sameiginlega eru þessar lífeyristegundir kallaðar áfallalífeyrir. Hluti iðgjaldsins sem greitt er til sjóðsins fer til að standa straum af kostnaði við áfallatryggingar. Kostnaðurinn við þessar tryggingar er misjafn eftir aldri og fer skipting iðgjaldsins eftir töflu I í samþykktum sjóðsins.

  • Hver er réttur minn til endurhæfingar- og örorkulífeyris?

    Réttur þinn til endurhæfingar- og örorkulífeyris tekur mið af nokkrum þáttum, s.s. stöðu réttindasjóðs þíns, hvort þú ert greiðandi til sjóðsins, hve mikil skerðing er á starfsorku, hvert tekjutap þitt er og hvort þú átt rétt á framreikningi eða ekki.

  • Hvað er endurhæfingarlífeyrir og hvað er örorkulífeyrir?

    Endurhæfingar- og örorkulífeyrir er í eðli sínu afkomutrygging fyrir sjóðfélaga, þegar hann missir tekjur vegna starfsorkutaps sem varir í sex mánuði eða lengur. Endurhæfingar- og örorkulífeyri er ætlað að tryggja tekjutap  og greiðist meðan örorka varir. Þegar lífeyrir af þessu tagi er úrskurðaður skal horfa til þess hvernig styðja megi sjóðfélagann til endurhæfingar, þannig að hann öðlist á ný færni til að sinna tekjuskapandi verkefnum í samræmi við starfsgetu sína og hæfni. Trúnaðarlæknir sjóðsins, eða eftir atvikum annar sérfróður þjónustuaðili sem sjóðurinn velur, skal leggja mat á það hvort líklegt sé að skipulögð starfsendurhæfing muni skila árangri þannig að sjóðfélaginn geti náð starfsorku á nýjan leik. Sé það talið líklegt er útbúin endurhæfingaráætlun fyrir sjóðfélagann og er lífeyrir hans þá nefndur endurhæfingarlífeyrir. Greiðslur á endurhæfingarlífeyri til sjóðfélaga kunna að vera háðar því að hann fylgi ráðlagðri endurhæfingu. Heimilt er að greiða sjóðfélaga, sem tekur þátt í endurhæfingu, allt að óbreyttum endurhæfingarlífeyri, þótt hann hafi tekjur af launaðri vinnu á meðan á endurhæfingunni stendur, enda sé atvinnuþátttakan hluti af endurhæfingarferlinu. Sé endurhæfing ekki talin líkleg til að skila árangri er sjóðfélaganum úrskurðaður örorkulífeyrir. Það á einnig við ef endurhæfing hefur ekki skilað árangri og ekki er talið að frekari endurhæfing muni stuðla að aukinni starfsgetu. Þá er endurhæfingarlífeyri breytt í örorkulífeyri. Endurhæfingarlífeyrir er þannig örorkulífeyrir þeirra sem taka þátt í endurhæfingu og flest atriði þar sem eingöngu er vísað til örorkulífeyris eiga jafnt við um þá sem eru á endurhæfingarlífeyri. Fjárhæð endurhæfingar- og örorkulífeyris er sú sama.

     
  • Hvaða reglur gilda um endurhæfingar- og örorkulífeyri?

    Þær reglur sem gilda um endurhæfingar- og örorkulífeyri má finna í samþykktum sjóðsins. Þegar um er að ræða réttindi í fleiri en einum sjóði skiptir samkomulag um samskipti lífeyrissjóða einnig máli.

  • Hvað ákvarðar hvort ég fæ endurhæfingar- eða örorkulífeyri?

    Það fer eftir því hvort aðstæður þínar eru þannig að líklegt sé að endurhæfing skili árangri eða ekki, en í samþykktum sjóðsins segir: „Við mat á umsókn um örorkulífeyri skal horft til þess hvernig styðja megi sjóðfélagann til endurhæfingar, þannig að hann öðlist á ný færni til að sinna tekjuskapandi verkefnum í samræmi við starfsgetu sína og hæfni. Skal trúnaðarlæknir sjóðsins, eða eftir atvikum annar sérfróður þjónustuaðili sem sjóðurinn velur, leggja mat á það hvort líklegt sé að skipulögð starfsendurhæfing muni skila árangri og hvort sjóðfélaginn geti náð starfsorku á ný með réttri endurhæfingu og þá að hve miklu leyti í hundraðshlutum talið. Skal þá gera áætlun um endurhæfinguna og umfang hennar. Skal sjóðurinn þá úrskurða umsækjanda endurhæfingarlífeyri, jafnháan örorkulífeyrisem hann á rétt á.“ Það kann að vera skilyrði fyrir því að fá greiddan endurhæfingarlífeyri að sjóðfélagi fari í ráðlagða endurhæfingu, enda standi honum slík endurhæfing til boða og aðstæður hans leyfi að hann nýti sér hana. Telji sjóðurinn að fengnu áliti trúnaðarlæknis að þess sé ekki að vænta að orkutap sjóðfélaga gangi svo til baka að hann fái öðlast starfsgetu á ný, að hluta eða öllu leyti, skal úrskurða honum örorkulífeyri. Örorkulífeyrir verður þá aðeins úrskurðaður að endurhæfing sé ekki líkleg til að skila aukinni starfsgetu að mati trúnaðarlæknis sjóðsins. Fjárhæð endurhæfingarlífeyris og örorkulífeyris er sú sama. Nánari upplýsingar um reglur og skilyrði vegna endurhæfingar- og örorkulífeyris má finna í samþykktum sjóðsins.

  • Hvað er starfsendurhæfing?

    Starfsendurhæfing hefur verið skilgreind þannig: „Starfsendurhæfing er ferli sem felur í sér stuðning við einstaklinga með skerta starfsgetu í kjölfar veikinda eða slysa í þeim tilgangi að auka starfshæfni eða viðhalda henni og stuðla að endurkomu til vinnu. Í starfsendurhæfingu er unnið með styrkleika einstaklingsins samhliða því að lögð er áhersla á að draga úr áhrifum hindrana sem skerða starfsgetu.“ Starfsendurhæfing er þannig allt sem hjálpar einstaklingi með heilsubrest að vera í vinnu, komast aftur til vinnu og haldast í vinnu. Ýmsir sérhæfðir aðilar eru til sem starfa við endurhæfingu eða leiðbeina um endurhæfingarúrræði, s.s. Virkstarfsendurhæfingarsjóður og svæðisbundnar starfsendurhæfingar, eins og Starfsendurhæfing Norðurlands og Starfsendurhæfing Austurlands. 

  • Hvað er starfsendurhæfingarsjóður?

    Starfsendurhæfingarsjóður er sjóður sem sinnir atvinnutengdri starfsendurhæfingu í samræmi við lög um það efni. Slíkir sjóðir eru reknir með framlögum frá atvinnurekendum, lífeyrissjóðum og ríkinu. Aðeins einn sjóður sem byggir á lögunum er nú starfræktur, þ.e. VIRK, starfsendurhæfingarsjóður. 

  • Hvað gerist ef ég sinni ekki starfsendurhæfingu?

    Synji sjóðfélagi þátttöku í endurhæfingu, sinni henni ekki með fullnægjandi hætti þannig að hún sé í samræmi við endurhæfingaráætlun eða leggi ekki fram tilskilin vottorð er sjóðnum heimilt að skerða eða fella niður lífeyrisgreiðslur til sjóðfélagans framvegis þannig að þær reiknist út frá þeirri forsendu að sjóðfélaginn hefði náð öllum þeim bata sem endurhæfingaráætlunin gerði frekast ráð fyrir.

  • Hvernig er starfsgeta metin?

    Starfsgeta er metin af sérhæfðum tryggingalækni, sem er trúnaðarlæknir sjóðsins. Byggt er á upplýsingum um heilsufarssögu umsækjanda og skal taka mið af þeim breytingum sem orðið hafa á heilsufari sjóðfélaga eftir að hann hóf iðgjaldagreiðslur til sjóðsins. Trúnaðarlæknir leggur mat á það hvort fyrirliggjandi upplýsingar um heilsufar eru nægjanlegar til að byggja matið á eða hvort nauðsynlegt sé að umsækjandi gangist undir sérstaka læknisskoðun til að afla frekari upplýsinga. Skerðing á starfsorku er metin í prósentum. Matið er byggt á læknisfræðilegum forsendum og kallast örorkumat. Skerðing á starfsorku - þ.e. orkutap - þarf að vera a.m.k. 50% til að réttur til lífeyris stofnist. Orkutap er síðan endurmetið reglulega. Skert starfsorka sem til er komin áður en sjóðfélaginn hóf greiðslur til sjóðsins myndar ekki réttindi til endurhæfingar- eða örorkulífeyris frá sjóðnum jafnvel þótt sjóðfélagi hafi ekki notið bóta vegna hennar. 

  • Hvað er örorkuhlutfall?

    Örorkuhlutfall eða örorkuprósenta er það mat á orkutapi sem kemur út úr örorkumati. Hlutfallinu er ætlað að lýsa þeirri skerðingu sem orðið hefur á starfsgetu sjóðfélagans. 

  • Hvað er örorkumat og hvaða forsendur liggja að baki matinu?

    Örorkumat er mat á þeirri skerðingu á starfsgetu sem sjóðfélagi hefur orðið fyrir, vegna áfalls af völdum sjúkdóms eða slyss. Matið er framkvæmt af trúnaðarlækni sjóðsins sem er sérhæfður tryggingalæknir. Matið er miðað við læknisfræðilegar forsendur og skal fylgja reglum sem settar hafa verið um örorkumat. Í matinu skal sérstaklega litið til þess hver starfshæfni og vinnugeta umsækjandans er. Fyrstu þrjú árin eftir orkutapið er örorkumat aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélagans til að gegna því starfi sem tengdist aðild hans að sjóðnum, en metin örorka (þ.e. örorkuhlutfall) til almennra starfa þarf þó alltaf að vera 50% eða meiri. Eftir fyrstu þrjú árin er matið alfarið miðað við vanhæfni til almennra starfa. Skert starfsorka sem til er komin áður en sjóðfélaginn hóf greiðslur til sjóðsins myndar ekki réttindi til endurhæfingar- eða örorkulífeyris frá sjóðnum, jafnvel þótt sjóðfélagi hafi ekki notið bóta vegna hennar. 

  • Er örorkumat endanlegt eða er það endurmetið síðar?

    Í flestum tilvikum er mat á orkutapi (þ.e. örorkumat) tímabundið, sem getur verið frá sex mánuðum upp í ár, þegar um fyrsta mat er að ræða. Í undantekningartilvikum er tíminn lengri, t.d. til tveggja ára. Þegar tími mats er liðinn þarf að fara fram endurmat á örorku lífeyrisþegans. Lífeyrisþeganum er tilkynnt um að hann þurfi að fara í endurmat með þriggja mánaða fyrirvara. Mikilvægt er að fylgjast með þessum tilkynningum, því lífeyrisgreiðslur eru stöðvaðar, hafi lífeyrisþegi ekki sinnt því að fara í mat fyrir tilgreind tímamörk.    

  • Frá hvaða tíma greiðist örorkulífeyrir?

    Endurhæfingar- eða örorkulífeyrir greiðist ekki fyrstu þrjá mánuðina eftir orkutap og ekki er greiddur slíkur lífeyrir ef orkutap varir skemur en sex mánuði. Algengt er að það taki tvo til þrjá mánuði að fá úrskurð eftir að umsókn og öll tilheyrandi gögn hafa borist sjóðnum. Greiðslur hefjast þegar úrskurður liggur fyrir og er þá greitt frá dagsetningu sem er þremur mánuðum eftir orkutap svo framarleg að skilyrði um tekjutap eru uppfyllt.

  • Hvaða áhrif hafa aðrar tekjur á örorkulífeyri minn?

    Réttur til örorkulífeyris stofnast því aðeins að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir skal aldrei vera hærri en nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn varð fyrir vegna orkutapsins. Almennt hafa aðrar tekjur því áhrif á hversu háan endurhæfingar- eða örorkulífeyri viðkomandi lífeyrisþegi fær greiddan. Þannig hafa launatekjur, bætur frá Tryggingastofnun (aðrar en bætur sem ætlað er að mæta kostnaði), tryggingabætur sem koma úr starfstryggingu launagreiðanda, tekjur í fæðingarorlofi o.s.frv. áhrif á örorkulífeyri. Þó eru ýmsar tekjur undanþegnar og hafa ekki áhrif á örorkulífeyri frá sjóðnum, s.s. tekjur frá öðrum lífeyrissjóðum, tryggingabætur úr eigin tryggingu, húsaleigubætur, félagslegir styrkir, fæðingarstyrkir og greiðslur frá björgunarsveitum. Til að meta tekjutap sjóðfélaga eru reiknaðar út viðmiðunartekjur sjóðfélagans fyrir orkutap. Þessar viðmiðunartekjur eru framreiknaðar miðað við vísitölu neysluverðs og eru bornar saman við þær tekjur sem sjóðfélaginn hefur. Séu tekjur sjóðfélaga lægri en viðmiðunartekjur þá hefur hann orðið fyrir tekjutapi. Örorkulífeyrir sjóðfélaga getur orðið allt að þessu tekjutapi, enda eigi hann réttindi til lífeyris sem duga til þess. Ársfjórðungslega fer fram tekjuskoðun, þar sem tekjur lífeyrisþegans eru bornar saman við framreiknaðar viðmiðunartekjur hans. Slík tekjuskoðun getur leitt til lækkunar eða niðurfellingar lífeyris eða til hækkunar lífeyris, eftir því hvernig tekjur lífeyrisþega hafa breyst. Heimilt er að undanþiggja launatekjur lífeyrisþega sem nýtur endurhæfingarlífeyris frá tekjuskoðun, enda séu þær launatekjur liður í endurhæfingu lífeyrisþegans. 

  • Hvað eru viðmiðunartekjur örorkulífeyrisþega?

    Örorkulífeyri er ætlað að bæta upp tekjutap af völdum orkutapsins. Örorkulífeyrir að viðbættum barnalífeyri skal því aldrei vera hærri en nemur tekjutapi sjóðfélagans. Til að meta þetta tap eru reiknaðar út viðmiðunartekjur sjóðfélagans. Viðmiðunartekjurnar byggja á meðaltali tekna sjóðfélagans síðustu fjögur almanaksár fyrir orkutapið. Ef þetta fjögurra ára meðaltal er sjóðfélaganum óhagstætt vegna sjúkdómsforfalla er heimilt að leggja til meðaltal tekna lengra aftur í tímann eða allt að átta árum. Tekjutap sjóðfélagans eru metið í sérstakri tekjuskoðun sem fer fram ársfjórðungslega, þar sem viðmiðunartekjur og heildartekjur lífeyrisþegans eru bornar saman. 

  • Hvað er tekjuskoðun?

    Þeim sem njóta endurhæfingar- eða örorkulífeyris er skylt að veita sjóðnum upplýsingar um tekjur sínar, þar með talið upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra. Ársfjórðungslega fer fram tekjuskoðun á vegum sjóðsins, en þar eru heildartekjur sjóðfélagans bornar saman við viðmiðunartekjur hans. Þar sem endurhæfingar- og örorkulífeyri er aðeins ætlað að bæta tekjutap sjóðfélagans kunna breytingar á tekjum, sem fram koma í tekjuskoðun að hafa áhrif á greiddan lífeyri, til hækkunar eða lækkunar eða geta jafnvel leitt til þess að lífeyrir fellur alveg niður. Lækki lífeyrir vegna tekjuskoðunar er lífeyrisþeganum send tilkynning þess efnis, sem sýnir á hverju lækkunin er byggð. 

  • Ef ég vinn á meðan örorka varir og borga í lífeyrissjóð, hvað verður um þau viðbótarréttindi sem ég ávinn mér – hækkar örorkulífeyririnn minn þá?

    Nei, ef þú ert að einhverju leyti að vinna á meðan örorka varir heldur þú áfram að bæta í iðgjaldasjóðinn og þar með að auka eftirlaunaréttindi. Slík iðgjöld myndu hins vegar ekki breyta réttindum gagnvart örorku sem búið er að úrskurða. 

  • Getur svört vinna haft áhrif á örorkulífeyrisgreiðslur?

    Lífeyrisþegi sem vinnur svarta vinnu er að taka áhættu af ýmsu tagi, þar með talið gagnvart lífeyristekjum sínum. Veiti sjóðfélagi rangar upplýsingar um tekjur sínar, þ.m.t. vegna tekna sem ekki hafa verið gefnar upp til skatts, er heimilt að skerða eða fella niður lífeyri til viðkomandi sjóðfélaga. 

  • Hvert sný ég mér ef ég sæki um örorkulífeyrir og hef greitt í fleiri en einn lífeyrissjóð?

    Nægjanlegt er að sækja um til þess sjóðs sem þú greiddir til síðast. Sá sjóður mun senda afrit af umsókn til annarra sjóða þar sem þú átt réttindi. Samt sem áður er rétt að fylgjast með því hvort úrskurðað er frá öllum sjóðum. Það getur þú gert með því að fara inn á lífeyrisgáttina og sjá hvar þú átt réttindi og skoða hvort þú hafir ekki fengið úrskurð frá öllum. Í vissum tilfellum geta lítil réttindi flust milli sjóða. Hvað varðar ákvæði um greiðslutíma og þess háttar þá er litið sameiginlega á greiðslur til lífeyrissjóða við úrskurð, eins og nánar er rakið í samkomulagi um samskipti lífeyrissjóða.

  • Hvernig er fjárhæð endurhæfingar- og örorkulífeyris ákveðin?

    Fjárhæðin ræðst af stöðu réttindasjóðs sjóðfélaga við orkutap, hvort hann á rétt á framreikningi, hvert örorkuhlutfallið er og af öðrum tekjum sjóðfélagans. Við lífeyrisúrskurð er réttindasjóði sjóðfélaga breytt í örorkulífeyri í samræmi við Töflu III í samþykktum sjóðsins. Eigi sjóðfélagi rétt á framreiknuðum réttindum bætast þau við þau réttindi sem réttindasjóðurinn gefur. Þá þarf að taka tillit til hversu mikið orkutapið er metið í prósentum talið. Ef orkutap er til að mynda metið 50% á sjóðfélaginn rétt á 50% af reiknuðum lífeyrisréttindum (bæði þeim hluta sem reiknaður er út frá réttindasjóði og þeim sem kemur úr framreikningi, séu slík réttindi til staðar). Loks þarf að skoða hvaða aðrar tekjur sjóðfélagi hefur. Skilyrði fyrir því að fá greiddan endurhæfingar- og örorkulífeyri er að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjutapi vegna örorkunnar. Samanlagður örorku- og barnalífeyrir getur aldrei orðið hærri en nam tekjutapi sjóðfélagans. Tekjutapið er metið með því að bera saman heildartekjur sjóðfélagans eftir orkutap og viðmiðunartekjur hans fyrir orkutapið.

  • Er hámark á greiðslum örorkulífeyris?

    Já – samkvæmt samþykktum sjóðsins getur samanlagður örorku- og barnalífeyrir sem sjóðfélagi fær greiddan aldrei numið hærri fjárhæð en því tekjutapi sem sjóðfélaginn hefur orðið fyrir vegna orkutapsins. Ekki er hámark á þeim réttindum sem sjóðfélagar geta áunnið sér til örorkulífeyris. Þau ráðast alfarið af þeim iðgjöldum sem greidd eru til sjóðsins og þeirri ávöxtun sem sjóðurinn nær. Hins vegar er örorkulífeyrir í eðli sínu afkomutrygging fyrir sjóðfélaga þegar hann missir tekjur vegna orkutaps sem varir lengur en sex mánuði. Örorkulífeyri er ætlað að tryggja tekjutap og greiðist á meðan örorka varir, sem getur verið allt fram að eftirlaunaaldri. Örorkulífeyririnn ræðst því annars vegar af þeim réttindum sem sjóðfélaginn hefur áunnið sér og hins vegar af því tekjutapi sem hann hefur orðið fyrir. 

  • Af hverju hefur örorkulífeyrir minn lækkað?

    Ef örorkulífeyrisgreiðslur þínar hafa lækkað er líklegast að það sé í kjölfarið á tekjuskoðun, sem hefur leitt í ljós að aðrar tekjur þínar hafa hækkað og hefur áhrif á lífeyrisgreiðslur þínar. Samanlagðar örorku- og barnalífeyrisgreiðslur eiga ekki að vera hærri en nemur því tekjutapi sem sjóðfélaginn varð fyrir vegna orkutapsins. Einnig getur örorkuprósenta hafa breyst, t.d. lækkað úr 100% í 75%. Þú átt að hafa fengið sendar skýringar á þessari breytingu. Vinsamlega hafðu samband við starfsfólk sjóðsins ef þig vantar upplýsingar eða frekari skýringar. 

  • Af hverju hefur örorkulífeyrir minn hækkað?

    Ef örorkulífeyrisgreiðslur þínar hafa hækkað er líklegast að það sé í kjölfarið á tekjuskoðun, sem hefur leitt í ljós að aðrar tekjur þínar hafa lækkað og hefur áhrif á lífeyrisgreiðslur þínar. Samanlagðar örorku- og barnalífeyrisgreiðslur eiga ekki að vera hærri en nemur því tekjutapi sem sjóðfélaginn varð fyrir vegna orkutapsins. Hafir þú áður haft tekjur sem lækkuðu lífeyri þinn, en á þessu hefur orðið breyting, kann það að vera skýringin. Þá getur breyting á örorkuprósentu einnig valdið þessu, t.d. að hún hafi hækkað úr 75% í 100%. Vinsamlega hafðu samband við starfsfólk sjóðsins ef þig vantar upplýsingar eða frekari skýringar. 

  • Af hverju hefur örorkulífeyrir minn fallið niður?

    Ef örorkulífeyrisgreiðslur til þín hafa fallið niður geta verið á því nokkrar skýringar:

    • Líklegast er að það sé vegna þess að tekjuskoðun hafi leitt í ljós að aðrar tekjur þínar hafa hækkað, þannig að heildartekjur þínar fyrir utan tekjur frá lífeyrissjóðnum séu nú orðnar hærri en viðmiðunartekjur þínar fyrir orkutap.
    • Örorkulífeyrisgreiðslur geta einnig hafa stöðvast þar sem ekki hefur verið skilað inn gögnum vegna endurmats. Örorkumat er tímabundið og endurmat fer fram reglulega. Sinni lífeyrisþegi ekki óskum um nýjar heilsufarsupplýsingar eða mæti ekki í læknisskoðun ef eftir því hefur verið leitað, eru greiðslur stöðvaðar þar til bætt hefur verið úr.
    • Einnig kunna örorkulífeyrisgreiðslur að hafa fallið niður vegna breytingar á örorkuhlutfalli. Fari örorkuhlutfall niður fyrir 50% fellur réttur til örorkulífeyris niður. 

    Hver svo sem ástæðan er fyrir því að örorkulífeyrisgreiðslur til þín hafa fallið niður ættir þú að hafa fengið tilkynningu um það. Vinsamlega hafðu samband við starfsfólk sjóðsins ef þig vantar upplýsingar eða frekari skýringar. 

  • Hvenær klárast örorkulífeyrisgreiðslurnar til mín?

    Örorkulífeyrir er í eðli sínu afkomutrygging fyrir sjóðfélaga, þegar hann missir tekjur vegna orkutaps sem varir í sex mánuði eða lengur. Örorkulífeyri er ætlað að tryggja tekjutap og greiðist meðan örorka varir og tekjutap er til staðar. Örorkulífeyrisgreiðslur geta hins vegar fallið niður, svo sem ef aðrar tekjur sjóðfélaga eru það háar að ekki er lengur um tekjutap að ræða. Þetta er metið reglulega með tekjuskoðunum. Þá geta örorkulífeyrisgreiðslur fallið niður nái sjóðfélaginn starfsorku á nýjan leik þannig að örorkuhlutfall fari niður fyrir 50%. Einnig eru örorkulífeyrisgreiðslur stöðvaðar, sinni lífeyrisþegi ekki óskum um nýjar heilsufarsupplýsingar við endurmat. Þá falla örorkulífeyrisgreiðslur niður þegar sjóðfélagi nær 67 ára aldri og færist yfir á eftirlaun. 

  • Hvað gerist þegar örorkulífeyrisþegi nær eftirlaunaaldri?

    Þegar örorkulífeyrisþegi nær 67 ára aldri falla örorkulífeyrisgreiðslur til hans niður, en hann fær þess í stað greidd eftirlaun. Ekki þarf að sækja sérstaklega um þessa breytingu. Það á einnig við vegna örorkulífeyrisþega, sem greiðslur hafa verið stöðvaðar til vegna of hárra tekna eftir tekjuskoðun. 

  • Hvernig eru eftirlaun örorkulífeyrisþega ákveðin?

    Þegar örorkulífeyrisþegi nær 67 ára aldri falla örorkulífeyrisgreiðslur til hans niður, en þess í stað fær hann greidd eftirlaun. Eftirlaun til örorkulífeyrisþega eru ákvörðuð með sama hætti og eftirlaun til annarra sjóðfélaga, þ.e. að réttindasjóði lífeyrisþegans er breytt í eftirlaun í samræmi við töflu II í samþykktum sjóðsins. Eftirlaunin byggja því á fjárhæð réttindasjóðsins og geta verið hærri eða lægri en sá örorkulífeyrir sem sjóðfélaginn naut, enda hafa bæði iðgjöld og ávöxtun sjóðsins áhrif á réttindasjóðinn. 

  • Hvernig breytist réttindasjóður öryrkja á meðan hann er á örorkulífeyri?

    Réttindasjóður sjóðfélaga sem er á örorkulífeyri er tengdur eignavísitölu sjóðsins og ávaxtast þannig í samræmi við ávöxtun sjóðsins á hverjum tíma, líkt og hjá öðrum sjóðfélögum.

    Ef örorkulífeyrisþeginn er með framreikning í úrskurði sínum, þá bætist við réttindasjóð hans framreikningsiðgjald, samhliða greiðslum örorkulífeyris, líkt og hans sé virkur greiðandi í sjóðinn.

Sjá fleiri spurningar Sjá færri spurningar