Fjárfestingarráð sjóðsins tekur ákvarðanir um fjárfestingar hans. Þær verða að vera innan heimilda samkvæmt lögum og fjárfestingarstefnu sjóðsins, sem stjórnin setur. Þá þurfa þær eftir atvikum að fá samþykki framkvæmdastjóra og stjórnar. Þá getur stjórn sjóðsins einnig átt frumkvæði að fjárfestingum.
Starfsemi lífeyrissjóða byggist á lögum um lífeyrissjóði (nr. 129 frá 1997). Heimildir sjóðanna til fjárfestinga eru skilgreindar í 36. gr. laganna. Þar segir að stjórn lífeyrissjóðs skuli móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Þar er og að finna upplýsingar um þá eignaflokka sem þeim er heimilt að fjárfesta í og ýmsar takmarkanir sem settar eru á fjárfestingaheimildir þeirra. Þær taka bæði til tegunda verðbréfa, markaða, félagsforma og hlutfalla af ýmsu tagi. Auk þeirra skilyrða sem lög setja þá ber sjóðunum að móta fjárfestingarstefnu, þar sem stefna er mótuð og heimildir þeirra eru nánar skilgreindar.
Margháttað eftirlit er með fjárfestingum sjóðsins:
Áhættu Stapa lífeyrissjóðs er stýrt með margvíslegum hætti. Eitt af hlutverkum stjórnar er að kynna sér og gera sér grein fyrir þeirri áhættu sem fylgir starfsemi sjóðsins, þ.m.t. að móta stefnu um hvernig áhættu er stýrt og setja henni ásættanleg mörk. Stjórnin mótar áhættustefnu, þar sem helstu áhættur í starfsemi sjóðsins eru skilgreindar og skipulagt er hvernig eftirliti og stýringu er háttað. Hjá sjóðnum starfar áhættustjóri sem heyrir beint undir stjórn. Sjóðurinn setur sér töluleg markmið um áhættu við ávöxtun fjármuna og framkvæmdar eru reglulegar áhættumælingar. Ýmsir áhættuþættir í rekstri sjóðsins eru vaktaðir og hlíting við lög, reglur og tilmæli er könnuð reglulega. Reglubundnar skýrslur eru unnar fyrir stjórn og framkvæmdastjóra um áhættur í starfsemi sjóðsins og þróun þeirra. Þá hefur sjóðurinn sett sér ýmsar reglur um alla þætti starfseminnar og skilgreint verkferla til að tryggja, eins og frekast er kostur, að áhættutaka sé í samræmi við markmið og áhættu sé stýrt með fullnægjandi hætti. Mikilvægt er samt sem áður að hafa í huga að ófyrirsjáanlegir hlutir verða alltaf hluti af tilverunni, þannig að engin áhættustýring er fullkomin, í þeim skilningi að alltaf sé hægt að koma í veg fyrir áföll. Yfirlit yfir regluverk Stapa má sjá hér.
Já, Stapi hefur mótað sér stefnu um ábyrgðar fjárfestingar sem er að finna hér.
Lögum samkvæmt skal stjórn lífeyrissjóðs móta fjárfestingarstefnu fyrir sjóðinn. Fjárfestingarstefna er formlegt skjal, sem lýsir stefnu sjóðsins við fjárfestingar og ávöxtun fjár sjóðfélaga. Fjárfestingarstefna tekur til fjölmargra atriða sem hafa þarf í huga við fjárfestingar: Í hvaða eignaflokkum sjóðurinn fjárfestir og hvernig eignasöfn eru sett saman, m.a. með tilliti til líftíma, seljanleika, áhættudreifingar, mótaðilaháættu og fleiri þátta, innan hvaða vikmarka hann þarf að halda sig í hverjum og einum eignaflokki, hvaða viðmið eru notuð til að mæla árangur, hvaða lausafjárþarfir hann hefur til að mæta útgreiðslum, hvaða viðhorf hann hefur til ríkjandi markaðsaðstæðna og hvaða áhrif það hefur á eignasamsetningu, hver líkleg ávöxtun og áhætta verður miðað við gefnar forsendur og hvernig eftirfylgni og upplýsingagjöf er háttað. Fjárfestingarstefnan tekur bæði til sjóðsins í heild, en einnig til einstakra eignasafna og ávöxtunarleiða.
Markmið sjóðsins er að ávaxta fjármuni sjóðfélaga eins vel og kostur er að teknu tilliti til þeirrar áhættu sem sjóðurinn er tilbúinn að taka. Tilgangur fjárfestingarstefnunnar er að setja traustan ramma utan um þessi markmið, með því að lýsa með ítarlegum hætti ávöxtunar- og áhættumarkmiðum, skipulagi, starfsháttum, framkvæmd og eftirfylgni með fjárfestingum.
Fjárfestingarstefnan er mótuð af stjórn sjóðsins. Stefnan tekur mið af tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins, sem mótar áhættuþol hans. Áhættumarkmið eru skilgreind með tilliti til áhættuþols og fjárfestingarmarkmiðin byggja á þeim áhættumarkmiðum sem skilgreind hafa verið. Fjárfestingarmarkmiðin móta svo þá eignasamsetningu, sem stefnt er að þannig að hámarks ávöxtun náist miðað við vænta ávöxtun í einstökum eignaflokkum og þá áhættu sem tekin er. Stefnan þarf að uppfylla öll skilyrði og takmarkanir sem gilda um fjárfestingar lífeyrissjóða.
Vinna við endurskoðun á fjárfestingarstefnu hefst á haustmánuðum vegna komandi árs og þarf henni að vera lokið í lok nóvember. Við vinnuna eru bæði notuð söguleg gögn um ávöxtun og áhættu en einnig framtíðarhorfur í efnahagsmálum og á eignamörkuðum. Settar eru upp ýmsar sviðsmyndir um mögulegar útkomur miðað við mismunandi forsendur til að kanna hvaða áhrif þær hafa á afkomu sjóðsins og áhættutöku. Við slíka vinnu er þó mikilvægt að gera sér grein fyrir því að fjármálamarkaðir hafa oft reynst óútreiknanlegir og breytingar á þeim ófyrirsjáanlegar og því er nauðsynlegt að í stefnunni sé ákveðinn sveigjanleiki og forsendur hennar séu í sífelldu endurmati.
Fjárfestingarstefnan er endurskoðuð árlega og þarf endurskoðuninni að vera lokið fyrir lok nóvember fyrir komandi ár, en þá ber sjóðnum að skila inn endurskoðaðri stefnu til Fjármálaeftirlitsins. Stefnan kann að vera endurskoðuð oftar kalli aðstæður á mörkuðum eða lagabreytingar á slíka endurskoðun.
Viðhorfi Stapa til fjárfestinga er lýst þannig:
„Sjóðurinn skal ávallt hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi við fjárfestingar. Sjóðurinn telur mikilvægt að beitt sé aga, varkárni og ráðdeildarsemi við fjárfestingar. Í fjárfestingum sínum reynir sjóðurinn að stjórna fjárhagsáhættu í starfsemi sinni með þeim hætti að takmarka tapsáhættu og miklar sveiflur í ávöxtun og forðast þannig stór töp sem langan tíma tekur að vinna upp. Sjóðurinn beitir virkri stýringu og leitast við að finna fjárfestingartækifæri þar sem hagnaðarvon er meiri og stöðugri en væntanlegt tap (ósamhverf afkoma) með það að markmiði að hámarka uppsöfnunaráhrif ávöxtunar til lengri tíma litið. Sjóðurinn er tilbúinn að fórna „mesta mögulega hagnaði“ til skemmri tíma litið, til að verjast stórum töpum. Töluleg viðmið eru skilgreind í fjárfestingarstefnu sjóðsins, en jafnframt er lögð áhersla á að starfsmenn sjóðsins séu meðvitaðir um alla helstu áhættuþætti í rekstri hans.
Í fjárfestingum sínum tekur sjóðurinn mið af breytingum sem verða á þeim mörkuðum þar sem hann fjárfestir. Breytingar í fjárfestingaumhverfi eru, að mati sjóðsins, meginuppspretta áhættu um leið og þær gefa góða möguleika til ávöxtunar. Mikilvægt er að meta hvernig þessar breytingar hafa áhrif á eignaverð og afkomu einstakra eignaflokka, hvað veldur breytingunum og hvernig má nýta þær til að ná góðri ávöxtun til lengritíma litið og um leið verjast óþarfa áhættu. Aðlögun að breyttum aðstæðum og skilningur á breyttum væntingum um ávöxtun og mat á áhættu eru mikilvæg til að ná góðum langtímaárangri.“
Hjá Stapa starfar sérstakt fjárfestingarráð. Ráðið er skipað þremur einstaklingum, sem hafa háskólamenntun á sviði fjármála og mikla reynslu af fjármálamörkuðum og fjárfestingum. Þeir sinna eingöngu fjárfestingum fyrir sjóðinn og eftirliti með þeim. Eignasafni sjóðsins er skipt niður í undirsöfn og er sjóðsstjóri, sem er einn af ráðsmönnum, skipaður yfir hverju safni. Auk fjárfestingarstefnu sjóðsins í heild, er sett sérstök og nákvæm stefna fyrir hvert og eitt undirsafn. Settar eru nákvæmar reglur um þær fjárfestingarheimildir sem fjárfestingarráðsmenn hafa, hvenær þeir þurfa samþykki ráðsins og eftir atvikum framkvæmdastjóra og stjórnar. Heimildirnar eru mjög misjafnar eftir eignaflokkum, hvort um skráðar eða óskráðar eignir er að ræða o.s.frv. Hlutverk fjárfestingarráðs er að taka ákvarðanir um fjárfestingar. Slíkar ákvarðanir fela í sér val um í hvaða tegundum eigna og í hvaða hlutföllum fjármunir sjóðsins eru ávaxtaðir á hverjum tíma. Allar fjárfestingar þurfa að fylgja skilgreindu fjárfestingarferli og vera innan marka laga og stefnu sjóðsins og viðkomandi eignasafns og þeirra áhættuviðmiða sem skilgreind hafa verið. Áhættustjóri hefur eftirlit með því að fjárfestingar séu innan settra marka og heimilda og kemur að mati á áhættu vegna einstakra fjárfestinga og áhættu sjóðsins í heild. Fjárfestingarráð veitir framkvæmdastjóra og stjórn upplýsingar með reglubundnum hætti. Formaður fjárfestingarráðs nefnist fjárfestingastjóri, en aðrir meðlimir ráðsins eru nefndir sjóðsstjórar. Fjárfestingarráð heyrir undir framkvæmdastjóra sjóðsins.
Með eignaflokki er venjulega átt við safn verðbréfa og annarra fjármálagerninga sem hafa svipaða eiginleika, hegða sér með svipuðum hætti á mörkuðum og heyra undir sömu lög og reglur. Eðli undirliggjandi eigna, þ.m.t. sú áhætta sem þeim er samfara, hefur oft mikið að segja um hvernig eignir eru flokkaðar og hvaða reglur gilda um þær. Er þar vísað til atriða eins og hver uppruni þeirra er, hvort og með hvaða hætti þær mynda tekjur, hvaða tryggingar þær veita eigandanum og jafnvel hver seljanleiki þeirra er. Stærstu eignaflokkarnir eru hlutabréf, skuldabréf og lausafé. Þessir meginflokkar skiptast svo í marga undirflokka. Þannig skiptast skuldabréf í ríkisskuldabréf, veðskuldabréf, skuldabréf fyrirtækja o.s.frv. Til viðbótar við þessa meginflokka eru fasteignir og hrávörur yfirleitt taldar til sérstakra eignaflokka. Stundum eru svokallaðar „sérhæfðar fjárfestingar“ (e. alternative investments) taldar sérstakur eignaflokkur. Undir þennan flokk falla ýmsar ólíkar tegundir fjárfestinga, sem eiga það sameiginlegt að nýta sérhæfðar aðferðir við fjárfestingar, fremur en að um sérstakan eignaflokk sé að ræða. Engu að síður eru þær oft flokkaðar sérstaklega í eignasöfnum sjóða. Hér má sjá upplýsingar um eignasamsetningu Stapa lífeyrissjóðs.
Margs konar vísitölur eru reiknaðar út til að mæla verðbreytingar á eignum, svo sem hlutabréfa- og skuldabréfavísitölur. Slíkum vísitölum er yfirleitt ætlað að gefa upplýsingar um verðbreytingar á tilteknum eignaflokki á tilteknum markaði. Mikill fjöldi slíkra vísitalna er til og mæla þær ólíkar tegundir eigna og mismunandi markaði. Þar sem að vísitölur gefa upplýsingar um markaðsávöxtun eru þær oft notaðar til að meta fjárfestingaárangur. Þegar sagt er að eignastýrandi nái betri eða lakari árangri en markaðurinn er verið að bera árangur hans saman við vísitölu sem mælir þann markað sem hann hefur verið að fjárfesta á. Stapi lífeyrissjóður nýtir vísitölur til að meta eigin árangur við fjárfestingar og er viðmiðunarvísitala fyrir sjóðinn ákveðin í fjárfestingarstefnu hans. Þar sem Stapi fjárfestir í mörgum tegundum eigna er viðmiðunarvístalan sem hann notar samsett úr mörgum vísitölum sem mæla þessa mismunandi eignaflokka. Yfirleitt er talsverður munur á undirliggjandi eignum hjá Stapa og þeim eignum sem viðkomandi vísitölur mæla. Því þarf að leggja mat á þetta misræmi og áhrif óskráðra eigna á afkomuna. Engu að síður er viðmiðunarvísitala mikilvæg og árangur sjóðsins er borinn saman við hana. Þótt um sé að ræða gróft viðmið gefur niðurstaðan vísbendingar um árangur, sérstaklega þegar litið er til lengri tíma. Auk viðmiðunarvísitölu fyrir sjóðinn í heild eru einnig skilgreindar sérstakar viðmiðunarvísitölur fyrir einstök eignasöfn, sem mæla árangur hjá hverju og einu safni.
Ávöxtun hefur mikil áhrif á lífeyrisrétt þinn. Sérstök eignavísitala er reiknuð út í hverjum mánuði, sem mælir ávöxtun á eignum sjóðsins. Iðgjaldasjóðurinn þinn er tengdur þessari vísitölu, þannig að eftirlaunaréttindi þín breytast í takt við ávöxtun sjóðsins. Þar sem að réttindi til áfallalífeyris eru reiknuð út frá iðgjaldasjóði, hefur ávöxtunin sjálfkrafa áhrif á áfallalífeyrinn, þótt þar komi fleiri atriði til.
Í ársreikningum sjóðsins er að finna ýmsar kennitölur úr rekstri hans. Þeim er ætlað að gefa lesandanum fljótlegt yfirlit yfir ýmsa þætti sem lúta að afkomu sjóðsins, efnahag og starfsemi. Með samanburði á kennitölum, á milli ára og yfir lengra tímabil, fæst gott yfirlit yfir þróun sjóðsins. Ársreikninga sjóðsins má finna hér.
Hjá Stapa starfar sérstakt fjárfestingaráð. Ráðið er skipað þremur einstaklingum, sem hafa háskólamenntun á svið fjármála og mikla reynslu af fjármálamörkuðum og fjárfestingum. Þeir sinna eingöngu fjárfestingum fyrir sjóðinn og eftirliti með þeim. Eignasafni sjóðsins er skipt niður í undirsöfn og er sjóðsstjóri, sem er einn af ráðsmönnum, skipaður yfir hverju safni. Auk fjárfestingarstefnu sjóðsins í heild er sett sérstök og nákvæm stefna fyrir hvert og eitt undirsafn. Settar eru nákvæmar reglur um þær fjárfestingarheimildir sem fjárfestingarráðsmenn hafa, hvenær þeir þurfa samþykki ráðsins og eftir atvikum framkvæmdastjóra og stjórnar. Heimildirnar eru mjög misjafnar eftir eignaflokkum, hvort um skráðar eða óskráðar eignir er að ræða o.s.frv. Hlutverk fjárfestingarráðs er að taka ákvarðanir um fjárfestingar. Slíkar ákvarðanir fela í sér val um í hvaða tegundum eigna og í hvaða hlutföllum fjármunir sjóðsins eru ávaxtaðir á hverjum tíma. Allar fjárfestingar þurfa að fylgja skilgreindu fjárfestingarferli og vera innan marka laga og stefnu sjóðsins og viðkomandi eignasafns og þeirra áhættuviðmiða sem skilgreind hafa verið. Áhættustjóri hefur eftirlit með því að fjárfestingar séu innan settra marka og heimilda og kemur að mati á áhættu vegna einstakra fjárfestinga og áhættu sjóðsins í heild. Fjárfestingarráð veitir framkvæmdastjóra og stjórn upplýsingar með reglubundnum hætti. Formaður fjárfestingarráðs nefnist fjárfestingarstjóri, en aðrir meðlimir ráðsins eru nefndir sjóðsstjórar. Fjárfestingarráð heyrir undir framkvæmdastjóra sjóðsins.
Í áhættustefnu sjóðsins er áhætta skilgreind sem „hættan á atburði sem eykur marktækt líkurnar á því að sjóðurinn nái ekki markmiðum sínum til lengri eða skemmri tíma“. Þar er átt við atburði sem hafa skaðleg áhrif á afkomuna, til að mynda þegar eignir tapast eða verulegar lækkanir verða á eignaverði, sem geta rýrt réttindi sjóðfélaga.
Áhætta felst í því að jafnan ríkir umtalsverð óvissa um framtíðina. Þetta á við um fjármálamarkaði og því er mikilvægt að gera sér grein fyrir að öllum fjárfestingum fylgir áhætta. Til að sjóðurinn nái ávöxtunarmarkmiðum sínum þarf hann að taka áhættu. Áhættustýring felst í því að takmarka og stýra áhættunni þannig að hún verði innan þeirra marka sem stefnt er að. Þannig eru sjóðnum sett áhættumarkmið og skilgreindar eru heimildir og eftirlitsaðgerðir sem ætlað er að tryggja, eins og kostur er, að áhættan í rekstri sjóðsins sé innan samþykktra marka og farið sé að réttum lögum og reglum. Þetta er m.a. gert með því að hafa fjölbreytt eignasafn, þar sem áhættunni er dreift á marga eignaflokka. Eignaflokkar eru mis áhættusamir, en vænt ávöxtun þeirra er einnig mismunandi.
Rétt er að hafa í huga að áhættu verður aldrei stýrt með fullkomnum hætti. Efnahagsþróun, þ.m.t. þróun eignaverðs á fjármálamörkuðum og breytingar á umhverfi, t.d. laga- og stjórnmálaumhverfi, er alltaf að talsverðu leyti óútreiknanleg og ófyrirsjáanleg.
Áhættustýring felst í því að hafa til staðar skipulag og verkferla þar sem reynt er að bera kennsl á áhættu eins fljótt og kostur er, meta hana, hafa eftirlit með henni og eftir atvikum að takamarka hana og verja eftir því sem það er talið skynsamlegt og svara kostnaði. Markmið áhættustýringar er að hámarka líkurnar á því að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar, stuðla að árangri og skilvirkni í starfsemi hans, tryggja áreiðanleika fjárhagsupplýsinga og hlítingu við lög og reglur.
Samband er á milli áhættu og ávöxtunar og ef of lítil áhætta er tekin, er líklegt að ávöxtunin verði einnig lítil, sem eykur hættuna á að sjóðurinn nái ekki ávöxtunarmarkmiðum sínum og lífeyrir verði lægri en stefnt er að. Því er áhættustýring ákveðin jafnvægislist milli þess að nýta áhugaverð fjárfestingartækifæri þar sem vænt ávöxtun er góð og þess að meta áhættuna og dreifa henni nægjanlega til að óvæntir og skaðlegir atburðir hafi ekki of mikil áhrif á afkomuna í heild.
Í áhættustefnu er að finna yfirlit yfir helstu áhættuþætti í rekstri sjóðsins. Fjallað er um skipulag og framkvæmd áhættustýringar. Sett er fram áhættuskrá þar sem mikilvægi áhættuþátta er metið ásamt því að tilgreint er hvernig fylgst er með tilteknum áhættuþáttum, með könnunum og skýrslum sem skila ber um það efni. Þar er að finna áhættudagskrá sem tilgreinir hvenær og hversu oft tilteknir eftirlitsþættir eru framkvæmdir. Úrdrátt um helstu atriði áhættustefnu má finna hér.
Áhættuáætlun eða áhættumarkmið er hluti fjárfestingarstefnu. Í henni eru sett fram töluleg markmið um áhættu og hvernig heimiluð áhættutaka er nýtt við samsetningu eigna. Áhættumarkmiðið setur þannig mögulegri eignasamsetningu takmörk.
Áhættumarkmiðið tekur mið af því hversu mikið áhættuþol sjóðurinn er talinn hafa. Áhættuþolið tekur mið af tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins og byggir á því að líkurnar á því að til réttindaskerðingar komi séu innan ásættanlegra marka.
Engin fjárfesting er áhættulaus. Bankar og jafnvel ríkissjóðir geta farið í þrot. Því er í raun ekkert til sem heitir áhættulaus fjárfesting. Áhættan felst í því að framtíðin er óviss. Mismunandi eignaflokkar bera hins vegar með sér mis mikla áhættu. Það er samband á milli ávöxtunar og áhættu. Þetta samband er bæði flókið og síbreytilegt. Almennt aukast líkurnar á góðri ávöxtun ef áhættutaka er aukin. Hér skiptir þó miklu máli til hvaða tíma er horft. Þannig eru hlutabréf að jafnaði talin gefa betri ávöxtun en skuldabréf. Áhætta hlutabréfa er líka mun meiri. Þar geta verðlækkanir orðið mjög miklar á skömmum tíma og sagan geymir dæmi um meira en áratugar löng tímabil þar sem ávöxtun hlutabréfa hefur verið slök og skuldabréf hafa gefið mun betur af sér. Því eru hlutabréf mjög áhættusöm þegar horft er til skamms tíma. Einnig er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að aukin áhættutaka er aðeins verðlaunuð upp að vissu marki. Of mikil áhættutaka skilar aðeins óhóflegu tapi. Flestir vilja því taka „hæfilega“ áhættu og ekki meiri en þarf til að ná settu ávöxtunarmarkmiði. Vegna þess að framtíðin er óviss er aldrei hægt að segja nákvæmlega til um hvað „hæfileg áhætta“ er, en með skipulagðri áhættustýringu er hægt að auka líkurnar á að sjóðurinn nái markmiðum sínum. Ef of lítil áhætta er tekin, er líklegt að ávöxtunin verði einnig lítil, sem eykur hættuna á að sjóðurinn nái ekki ávöxtunarmarkmiðum sínum og lífeyririnn í framtíðinni verði minni en að var stefnt.
Eignir og eignaflokkar bera með sér mismikla áhættu. Þeir sveiflast mis mikið í verði og sumar eignir hafa tilhneigingu til að hækka þegar aðrar eignir lækka o.s.frv. Til eru greinargóðar upplýsingar um fylgni milli einstakra eignaflokka. Hafa þarf í huga að mælingar á fylgni eru byggðar á sögulegum tölum. Hún er sjaldnast stöðug og er auk þess breytileg eftir markaðsaðstæðum. Þrátt fyrir þetta er það staðreynd að ná má fram lægri áhættu í eignasafni, með því að blanda saman ólíkum eignaflokkum. Eignasafnið í heild sveiflast þá minna en hver eignaflokkur fyrir sig. Það er þessi áhættuminnkun, sem næst með því að blanda ólíkum eignaflokkum eða verðbréfum saman í eignasafn, sem kallað er áhættudreifing.
Skipta má áhættunni sem felst í rekstri lífeyrissjóðs niður í marga þætti. Almennur lífeyrissjóður, eins og Stapi, er ekki með ábyrgðaraðila sem tryggir þau lífeyrisréttindi sem eru í sjóðnum. Lífeyrisréttindi í Stapa eru eingöngu tryggð með þeim eignum sem eru í sjóðnum á hverjum tíma og allar eignirnar fara til greiðslu lífeyris. Lífeyrissjóðurinn „sjálfur“ á því engar eignir heldur eru þær allar sameiginleg eign sjóðfélaga. Þegar talað er um áhættu lífeyrissjóðsins, er því verið að tala um áhættu sjóðfélaganna, sem eiga lífeyrisréttindi hjá sjóðnum. Flokka má stærstu áhættur í rekstri lífeyrissjóðs á eftirfarandi hátt:
Hjá sjóðnum starfar áhættustjóri, sem heyrir beint undir framkvæmdastjóra og hefur milliliðalausan aðgang að stjórn.
Helstu verkefni áhættustjóra eru:
Ef Stapi á þess kost að tilnefna stjórnarmann í félagi eða mann í fjárfestingarráð hjá sjóði, eða falast er eftir manni frá Stapa vegna slíkra starfa, er það stjórn sjóðsins sem ákveður hvort og hvaða aðili er tilnefndur fyrir sjóðinn. Starfsmenn Stapa, sem sitja í stjórnum eða ráðum, fá ekki greidd stjórnar- eða ráðslaun fyrir setuna, heldur renna slík laun, séu þau greidd, til Stapa.
Samkvæmt lögum um ársreikninga skal starfa endurskoðunarnefnd við það sem kallað er einingar sem tengdar eru almannahagsmunum. Lífeyrissjóðir teljast til slíkra eininga. Meðlimir í endurskoðunarnefnd skulu vera óháðir endurskoðendum sjóðsins, þeir skulu hafa þekkingu og reynslu sem nýtast við störf nefndarinnar og a.m.k. einn þeirra skal hafa staðgóða þekkingu á sviði reikningsskila eða endurskoðunar. Hlutverk nefndarinnar er:
Endurskoðunarnefnd er skipuð af stjórn sjóðsins.