Nýir sjóðfélagar

  • Hvaða réttindi ávinn ég mér með greiðslum til sjóðsins?

    Með greiðslu iðgjalds til Tryggingadeildar Stapa lífeyrissjóðs, sem sinnir skyldutryggingum, ávinna sjóðfélagar sér rétt til lífeyris. Annars vegar til eftirlauna og hins vegar til áfallalífeyris. Áfallalífeyrir skiptist í endurhæfingar- og örorkulífeyri, makalífeyri og barnalífeyri. Eftirlaun koma til greiðslu að lokinni starfsævi og greiðast til sjóðfélaga á meðan honum endist aldur. Áfallalífeyrir greiðist við áföll. Endurhæfingar- og örorkulífeyrir greiðist þegar sjóðfélagar missa starfsorku og geta ekki stundað launaða vinnu. Maki látins sjóðfélaga á rétt á makalífeyri við fráfall sjóðfélagans. Auk þessa er greiddur barnalífeyrir vegna barna þeirra sem eru á endurhæfingar- og örorkulífeyri og til barna vegna látins sjóðfélaga, enda séu börnin undir 18 ára aldri. Nánari reglur um allar tegundir lífeyris er að finna í samþykktum sjóðsins. Með greiðslu iðgjalds til Séreignardeildar Stapa lífeyrissjóðs ávinna sjóðfélagar sér viðbótarréttindi í formi séreignar, þar sem iðgjaldið er ávaxtað í samræmi við þá ávöxtunarleið sem sjóðfélaginn hefur valið. 

  • Hvernig fylgist ég með að iðgjöldum mínum sé skilað til sjóðsins?

    Stapi lífeyrissjóður sendir virkum sjóðfélögum yfirlit tvisvar á ári, það fyrra yfirleitt á tímabilinu mars til apríl og hið síðara í september eða október. Sjóðfélagi sem óskar eftir að fá yfirlit í bréfapósti getur gert það undir Mínar upplýsingar á sjóðfélagavef eða haft samband við Stapa en meginreglan er rafræn birting.  Til að fá yfirlit áfram í bréfapósti þarf að taka út hakið við Afþakka pappír.

    Ef þú ert í vinnu og færð ekki sent yfirlit er ástæða til að skoða hvers vegna, með því að hafa samband við lífeyrissjóðinn. Sjóðfélagar geta einnig hringt til sjóðsins, sent fyrirspurn til hans í tölvupósti eða fengið aðgang að sjóðfélagavef sjóðsins, þar sem er að finna upplýsingar um iðgjaldaskil og réttindi. 

  • Hvers vegna er skylda að greiða í lífeyrissjóð?

    Eitt mikilvægasta verkefni hvers samfélags er að sjá til þess að börn, sjúklingar og eldri borgarar búi við sómasamleg kjör. Þessu hlutverki hefur verið sinnt á misjafnan hátt í gegnum tíðina, fyrst af stórfjölskyldunni, en síðar af sveitarfélögum og svo ríkisvaldinu eftir að almannatryggingar komu til. Í seinni tíð hafa komið til lífeyrissjóðir til að sinna hluta þessara verkefna. Í mörgum löndum, þ.m.t. á Íslandi, hefur það verið gert að skyldu að starfandi menn tryggi sér lífeyrisréttindi með greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóða. Þetta byggir á því að eðlilegt sé að hver og einn vinnandi maður standi straum af sínum lífeyrisréttindum, a.m.k. að einhverju leyti, þannig að þetta hlutverk leggist ekki alfarið á sameiginlega sjóði samfélagsins, þ.e. ríkissjóð og sjóði sveitarfélaga. Með þessu er reynt að lágmarka fjölda þeirra sem ekki greiða til lífeyristrygginga, en fá engu að síður greiddan lífeyri. Í sumum tilfellum er þetta talið eðlilegt og lífeyrir er þá yfirleitt greiddur af ríkinu. Þetta á til að mynda við þegar fötlun eða sjúkleiki veldur því að einstaklingur hefur enga eða takmarkaða getu til að stunda launaða vinnu. Það þykir hins vegar eðlilegt að þeir sem eru frískir og hafa launaða vinnu leggi sitt af mörkum.

  • Hver er munurinn á skyldutryggingu og viðbótarlífeyrissparnaði?

    Samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda er öllum starfandi mönnum skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi í lífeyrissjóði. Sjóðir sem veita slíkum iðgjöldum viðtöku þurfa að hafa starfsleyfi og þeir mega einir kalla sig lífeyrissjóði. Launagreiðendum er skylt að halda eftir iðgjaldahluta launamanns vegna skyldutryggingar og skila honum til lífeyrissjóðs, ásamt mótframlagi launagreiðandans.

    Auk þeirra lífeyrisréttinda sem menn afla sér með greiðslu iðgjalds til skyldutryggingar geta menn aflað sér viðbótarlífeyrisréttinda með því að taka þátt í viðbótarlífeyrissparnaði. Viðbótarlífeyrissparnaður er valfrjáls fyrir launamann eða sjálfstætt starfandi einstakling. Um hann þarf að gera sérstakan samning við lífeyrissjóð eða annan vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar. Lífeyrissjóðir sem veita skyldutryggingu eru yfirleitt sameignarsjóðir (stundum kallaðir tryggingasjóðir eða samtryggingarsjóðir) en viðbótarlífeyrissparnaður er yfirleitt í séreignarsjóðum. Stapi lífeyrissjóður veitir bæði þjónustu á sviði skyldutrygginga og viðbótarlífeyrissparnaðar. Sjóðnum er skipt í tvær deildir: Tryggingadeild, sem sinnir skyldutryggingu, og Séreignardeild, sem býður upp á viðbótarlífeyrissparnað. Hægt er að velja þrjár mismunandi ávöxtunarleiðir í viðbótarlífeyrissparnaði hjá Stapa

  • Hvar fæ ég upplýsingar um lífeyrisrétt minn?

    Stapi lífeyrissjóður er með sérstakan vef – vef sjóðfélaga – þar sem hver og einn sjóðfélagi getur á hverjum tíma fengið upplýsingar um lífeyrisrétt sinn. Hægt er hægt að nota rafræn skilríki til innskráningar á vefinn. Á vefnum er bæði að finna upplýsingar um réttindi í skyldutryggingu og viðbótarlífeyrissparnaði. Af sjóðfélagavefnum er einnig hægt að komast inn á svokallaða lífeyrisgátt þar sem þú getur séð réttindin þín í öllum lífeyrissjóðum, sem þú hefur greitt til.

  • Hvað er lífeyrissjóður?

    Lífeyrissjóður er eins konar sérhæft tryggingafélag sem tryggir sjóðfélögum sínum tekjur á þeim tímabilum sem þeir hafa ekki tekjur annars staðar, annað hvort vegna áfalla eða vegna þess að þeir hafa náð tilteknum aldri og eru hættir að stunda launaða vinnu. Tekjur frá lífeyrissjóðum eru kallaðar eftirlaun eða lífeyrir. Eftirlaun eða ellilífeyrir greiðist eftir að starfsævi lýkur og áfallalífeyrir þegar sjóðfélagar verða fyrir áföllum á lífsleiðinni, s.s. vegna fráfalla eða þegar sjúkdómar eða slys gera það að verkum að þeir geta ekki stundað launaða vinnu. Lífeyrissjóður tekur við iðgjöldum frá sjóðfélögum, ávaxtar þau og endurgreiðir í formi lífeyris. Lífeyrissjóðir mega ekki hafa aðra starfsemi með höndum. Lífeyrissjóðir mega ekki starfa nema hafa starfsleyfi, sem fjármálaráðuneytið gefur út og um starfsemi þeirra gilda sérstök lög.

  • Hvað þarf ég að borga mikið í lífeyrissjóð?

    Greiðsla til lífeyrissjóðs er kölluð iðgjald. Lágmarksiðgjald til skyldutryggingar er skv. lögum 12% af launum. Þar af greiðir launamaðurinn 4% af launum og launagreiðandinn 8% í mótframlag. Heimilt er að semja um hærra iðgjald til lífeyrissjóðs í ráðningarsamningi eða kjarasamningi, en skattafrádráttur launamanns miðast við lágmarksiðgjaldið (4%). Sumar starfsstéttir hafa samið um hærra mótframlag en 8% frá launagreiðanda.

    Sjálfstætt starfandi einstaklingar þurfa sjálfir að greiða bæði iðgjaldið og mótframlagið (4%+8%) til lífeyrissjóðs. 

    Vilji fólk tryggja sér frekari lífeyrisréttindi en skyldutryggingin veitir getur það bætt við sig réttindum með því að taka þátt í viðbótarlífeyrissparnaði.

  • Hvers vegna get ég ekki bara sparað sjálf/sjálfur í stað þess að vera í lífeyrissjóði?

    Í sjálfu sér gæti eigin sparnaður komið að sömu notum og skyldusparnaður í lífeyrissjóði. En munu allir spara ef það byggir alfarið á frjálsu vali? Reynslan sýnir að svo er ekki. Ungt fólk hugsar yfirleitt lítið um það hvernig eftirlaunaárin verða og enginn ætlar að lenda í áföllum. Hjá mörgum er þetta eitthvað sem ætlunin er að gera seinna, sem oft og tíðum er þá orðið of seint. Af þessum ástæðum hefur verið talið réttlætanlegt að skylda alla sem hafa launatekjur að spara, bæði til að mæta hugsanlegum áföllum og tryggja sér eftirlaun eftir að starfsævi lýkur. Þannig er dregið úr líkum á því að þeir verði byrði á öðrum einstaklingum eða á sameiginlegum sjóðum ríkis eða sveitarfélaga í slíkum tilfellum. Á Íslandi er lagaleg skylda að greiða til lífeyrissjóðs, en hvort svo á að vera er pólitísk spurning og þetta er mismunandi frá einu landi til annars. Þrátt fyrir þessa skyldu er æskilegt að fólk spari einnig af sjálfsdáðum. Þar er viðbótarlífeyrissparnaður álitlegur kostur. 

  • Hvers vegna er mikilvægt fyrir mig að greiða í lífeyrissjóð?

    Mikilvægt er að hver og einn tryggi sig nægjanlega til að mæta tekjulausum tímabilum á ævinni, hvort sem það er vegna áfalla eða eftir að starfsævi lýkur. Með því að byggja upp réttindi í lífeyrissjóði ertu að tryggja þér betri afkomu á þessum tekjulausu tímabilum. Með greiðslu til lífeyrissjóðs ávinna sjóðfélagar sér rétt til að fá greidd eftirlaun til æviloka, auk örorkulífeyrisgreiðslna ef þeir missa starfsorkuna og maka- og barnalífeyri við fráfall sjóðfélagans.

  • Eru allir skyldugir að greiða í lífeyrissjóð?

    Samkvæmt íslenskum lögum eru allir starfandi menn skyldugir að greiða til lífeyrissjóðs til að tryggja sér lífeyrisréttindi. Þetta er kallað skyldutrygging lífeyrisréttinda. Lögin sem gilda um lífeyrissjóði eru kölluð „Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða“ og eru nr. 129 frá 1997, en þar stendur í 1. gr.: „Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára aldri til 70 ára aldurs.“ Áður en gert var að skyldu að allir starfandi menn skyldu tryggja sér lífeyrisréttindi hjá lífeyrissjóði höfðu margar starfsstéttir samið um það í kjarasamningum. Öflun lífeyrisréttinda hjá lífeyrissjóði er því starfstengd réttindi og hluti kjara á vinnumarkaði, sem samið er um í kjarasamningum.

  • Hvað er mótframlag launagreiðenda?

    Samkvæmt lögum eru launamenn skyldugir að greiða að lágmarki 4% af launum í lífeyrissjóð. Framlag launamanns dregst frá launum hans. Launagreiðandinn (vinnuveitandinn) er jafnframt skyldugur að greiða að lágmarki 8% af launum viðkomandi launamanns (starfsmanns) til lífeyrissjóðsins, í nafni starfsmannsins. Iðgjaldið til lífeyrissjóðsins er því samtals að lágmarki 12% af launum og fer allt til að mynda lífeyrisréttindi launamannsins hjá lífeyrissjóðnum. Iðgjaldahluti launagreiðandans er kallað mótframlag. Sjálfstætt starfandi einstaklingar þurfa sjálfir að greiða bæði iðgjaldið og mótframlagið (4%+8%) til lífeyrissjóðs.

    Sumar starfsstéttir hafa samið um hærra mótframlag en 8% frá launagreiðanda. Starfsmenn sveitarfélaga fá t.d. greitt 11,5% mótframlag, sem tryggir viðbótar lífeyrisréttindi. Í kjarasamningi ASÍ og SA frá janúar 2016 var einnig samið um að framlag launagreiðanda skyldi hækkað í áföngum úr því að vera 8% árið 2015 í það að vera 11,5% árið 2018. 

  • Hvað er maður gamall þegar maður byrjar að greiða í lífeyrissjóð?

    Launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur skal hefja greiðslur til lífeyrissjóðs frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að hún eða hann hefur náð 16 ára aldri.

  • Hvað þarf ég að gera til að byrja að greiða í lífeyrissjóð?

    Vegna skyldutryggingarinnar þarf launamaður yfirleitt ekki að aðhafast neitt sérstaklega. Ein af skyldum launagreiðanda, vegna starfsmanna sinna, er að halda eftir iðgjaldi þeirra til lífeyrissjóðs og skila því til viðkomandi sjóðs ásamt mótframlagi launagreiðandans. Ef einstaklingur vill vera með viðbótarlífeyrissparnað þarf hins vegar að gera um það sérstakan samning við lífeyrissjóðinn, eða þann sem samið er um viðbótarlífeyrissparnað við. 

  • Af hvaða launum er greitt í lífeyrissjóð?

    Samkvæmt lögum skal greiða í lífeyrissjóð af öllum tegundum launa og þóknana fyrir störf sem eru skattskyld, þar með talið öllum kaupaukum, bónusum og afkastahvetjandi greiðslum. Ekki er þó greitt í lífeyrissjóð af hlunnindum sem ekki eru greidd í peningum, svo sem fatnaði, fæði og húsnæði eða greiðslum sem ætlaðar eru til endurgreiðslu á kostnaði, t.d. ökutækjastyrkjum, dagpeningum eða fæðispeningum. Þær tekjur sem iðgjöld eru reiknuð af kallast iðgjaldsstofn.

  • Er líka borgað í lífeyrissjóð af atvinnuleysisbótum eða sjúkradagpeningum?

    Lögin tiltaka að greitt skuli í lífeyrissjóð af atvinnuleysisbótum, en ekki af bótum frá Tryggingastofnun ríkisins eða sjúkradagpeningum frá stéttarfélögum eða tryggingafélögum. 

  • Greiði ég skatt af iðgjöldum í lífeyrissjóð?

    Iðgjald til lífeyrissjóðs vegna skyldutryggingar lífeyrisréttinda er undanþegið tekjuskatti, þó að hámarki 4% af iðgjaldastofni (þ.e. þeim tekjum sem iðgjald er reiknað af). Iðgjaldið er því dregið frá tekjum áður en skattar eru reiknaðir. Sama á við um iðgjald til viðbótarlífeyrissparnaðar, allt að 4% af iðgjaldastofni. Hér er þó aðeins um frestun á skattgreiðslum að ræða, en ekki endanlega undanþágu, þar sem tekjuskattur er greiddur af lífeyri þegar iðgjöldin og ávöxtun þeirra eru greidd til baka í formi lífeyris.  

  • Hver er munurinn á sameignarsjóði og séreignarsjóði?

    Sameignarsjóðir eru tryggingasjóðir. Þetta merkir að sjóðfélagar, sem greiða til sameignarsjóða, tryggja sig saman og ávinna sér réttindi í sjóðnum en ekki eign eða eignarhluta. Réttindin eru í formi trygginga, annars vegar eftirlauna og hins vegar áfallalífeyris. Réttindi sjóðfélaga í sameignarsjóði ráðast alfarið af því iðgjaldi sem greitt er til sjóðsins. Útgreiðslur til sjóðfélaga geta þó verið mjög mismiklar eftir því hvernig lífshlaup sjóðfélagans er. Þær geta þannig verið bæði meiri og minni en nemur greiðslum hans til sjóðsins. Þannig er líklegt að þeir sem verða fyrir því áfalli að missa starfsgetuna og fá greiddan örorkulífeyri fái mun meira greitt úr lífeyrissjóði en þeir greiddu til hans. Sama á við um þá sem verða mjög gamlir (mun eldri en meðalmaðurinn), þar sem eftirlaun úr slíkum sjóðum eru greidd á meðan sjóðfélaganum endist aldur. Þeir sem standa undir þessum „viðbótar“ greiðslum er þeir sjóðfélagar sem taka minna til sín en þeir greiddu inn. Þeir sem ekki verða öryrkjar eða verða skammlífari en meðalmaðurinn. Að þessu leyti virkar lífeyrissjóður eins og hverjar aðrar tryggingar. Réttindi í sameignarsjóði erfast ekki við fráfall sjóðfélagans.

    Í séreignarsjóði mynda iðgjöld sjóðfélagans (og mótframlag launagreiðandans) innistæðu sjóðfélagans hjá sjóðnum. Þessi innistæða og sú ávöxtun sem sjóðurinn nær á hana eru séreign sjóðfélagans og endurgreiðist til hans við úttekt. Sjóðfélaginn fær því hvorki meira né minna. Þegar inneignin er búin eru engar frekari greiðslur. Séreignin erfist við fráfall sjóðfélaga. Sjóðfélagar í séreignarsjóðum eru kallaðir rétthafar. 

  • Hver á lífeyrissjóðinn?

    Sameignarsjóður er eins og nafnið bendir til í sameiginlegri eigu sjóðfélaganna. Sameignar-lífeyrissjóður hefur enga aðra eigendur en sjóðfélagana og öll ávöxtun sjóðsins að frádregnum rekstrarkostnaði rennur til sjóðfélaganna. Sjóðfélagar eiga eignir sjóðsins sameiginlega og þær standa á bak við réttindi þeirra í sjóðnum og allar eignir sjóðsins eru endurgreiddar í formi lífeyris. Engar tekjur fara því í að greiða til „annarra“ eigenda líkt og arður sem greiddur er til hluthafa í hlutafélögum. Séreignarsjóður er líka í eigu sjóðfélaganna (rétthafanna) en þar eru eignirnar aðgreindar á sérreikningum hvers og eins sjóðfélaga, en ekki í sameiginlegri eigu. 

  • Get ég valið mér lífeyrissjóð?

    Ávinnsla réttinda í lífeyrissjóði er starfstengd réttindi sem samið er um í kjarasamningum. Til hvaða lífeyrissjóðs menn greiða fer því í flestum tilfellum eftir því á hvaða starfssviði þeir vinna og skal geta um lífeyrissjóð í skriflegum ráðningarsamningi. Í lögunum um lífeyrissjóði segir: „Um aðild að lífeyrissjóði, greiðslu lífeyrisiðgjalds og skiptingu iðgjaldsins milli launamanns og launagreiðanda fer eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í viðkomandi starfsgrein eða sérlögum ef við á.“ Sumir geta þó valið um lífeyrissjóð eða eins og segir í lögunum: „Taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs, eða ef kjör eru ekki að neinu leyti byggð á kjarasamningi velur viðkomandi lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa.“ Þetta á til að mynda við um alla sem stunda sjálfstæða starfsemi. 

  • Hverjir eiga aðild að Stapa lífeyrissjóði?

    Þeir sem starfa á samningssviði aðildarfélaga Stapa lífeyrissjóðs fá aðild að sjóðnum um leið og þeir hefja störf. Með samningssviði er átt við störf þar sem kjarasamningar sem þessi félög gera eru lágmarkskjör í þeim störfum. Þá eiga fjölmargir einstaklingar, sem geta valið um lífeyrissjóð, svo sem sjálfstætt starfandi einstaklingar, aðild að Stapa. 

  • Hvernig ávinnast lífeyrisréttindi í skyldutryggingu?

    Réttindakerfi Stapa lífeyrissjóðs byggir á því sem kallað hefur verið eignatengd réttindaávinnsla. Iðgjöld eru greidd til sjóðsins, þar sem þau eru ávöxtuð og mynda þá eign sem er í sjóðnum á hverjum tíma. Réttindin í sjóðnum byggja alfarið á þessum eignum. Þegar iðgjald er greitt til sjóðsins er því skipt, þannig að hluti þess fer til að tryggja eftirlaunaréttindi og hluti til áfallatrygginga. Skiptingin er háð aldri sjóðfélaga. Þeim hluta sem fer til eftirlauna er safnað í það sem kallað er iðgjaldasjóður, sem er sá sjóður sem stendur á bak við loforðið um greiðslu eftirlauna til sjóðfélagans á hverjum tíma. Iðgjaldasjóður hvers sjóðfélaga er ekki séreign, heldur reiknaður hluti af þeim eignum sem sameiginlega tryggja eftirlaun allra sjóðfélaga í sjóðnum. Iðgjaldasjóður erfist ekki við fráfall. Iðgjaldasjóðurinn byggist upp yfir starfsævina með greiðslu iðgjalda og ávöxtun. Ávöxtun sveiflast og er yfirleitt mismunandi frá ári til árs og breytast eftirlaunaréttindin í takti við breytingar á ávöxtun. Þegar sjóðfélagi hefur náð tilteknum aldri getur hann hafið töku eftirlauna. Hefðbundinn eftirlaunaaldur er 67 ára, en hægt er að hefja tökuna hvenær sem er eftir að sjóðfélagi er orðinn 60 ára eða fresta henni til allt að 75 ára aldurs, að vali sjóðfélagans. Eftirlaunin ráðast af stöðu iðgjaldasjóðs og aldri sjóðfélagans þegar hann ákveður að hefja töku eftirlauna. Þá er iðgjaldasjóði hans breytt í eftirlaun skv. ákveðinni töflu. Eftir að taka eftirlauna er hafin, eru þau greidd til sjóðfélaga á meðan honum endist aldur. Eftirlaun eru verðtryggð með vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Auk eftirlauna ávinnur sjóðfélagi sér einnig rétt til áfallalífeyris, sem skiptist í endurhæfingar- og örorkulífeyri, makalífeyri og barnalífeyri. Eins og áður sagði fer hluti iðgjaldsins til að tryggja þessi réttindi. Skilyrði fyrir því að sjóðfélaginn eigi rétt á endurhæfingar- og örorkulífeyri er að hann hafi orðið fyrir áfalli sem skert hefur starfsgetu hans og hann orðið fyrir tekjutapi þess vegna. Endurhæfingar- og örorkulífeyrir er reiknaður út frá stöðu iðgjaldasjóðs sjóðfélagans á hverjum tíma. Auk þess getur sjóðfélaginn átt rétt til framreiknings sem veitir honum viðbótarréttindi. Maki látins sjóðfélaga á rétt á makalífeyri frá sjóðnum. Makalífeyrir er 50% af eftirlauna- eða örorkulífeyrisréttindum sjóðfélaga, eftir því hvort er hærra. Makalífeyrir er tímabundinn lífeyrir. Nánari reglur og skilyrði fyrir greiðslu einstakra lífeyristegunda er að finna í samþykktum sjóðsins.

  • Hver ber ábyrgð á að iðgjöldunum mínum sé skilað?

    Launagreiðanda er samkvæmt lögum skylt að halda eftir iðgjaldahluta launamanns og skila honum, ásamt mótframlagi launagreiðandans, til lífeyrissjóðsins. Launagreiðandi ber því ábyrgð á iðgjaldaskilum, en ekki launamaður. Sjálfstætt starfandi einstaklingar bera sjálfir ábyrgð á skilum á lífeyrisiðgjöldum, bæði vegna hluta launamanns (4%) og mótframlagi (11,5%). 

  • Hver hefur eftirlit með að iðgjöldum sé skilað?

    Lífeyrissjóðurinn hefur eftirlit með því að iðgjöldum sé skilað og ber ábyrgð á innheimtu þeirra. Þessi ábyrgð takmarkast þó við að sjóðnum sé kunnugt um hvaða iðgjöldum launagreiðanda bar að skila. Sjóðfélaginn hefur því sjálfur ákveðnar eftirlitsskyldur og á að gera sjóðnum viðvart ef iðgjaldaskil hafa ekki átt sér stað eða eru ekki með réttum hætti. Í þessu skyni sendir sjóðurinn yfirlit til sjóðfélaga tvisvar á ári, þar sem upplýst er hvaða iðgjöldum hefur verið skilað til sjóðsins hans vegna. Mikilvægt er að sjóðfélagi yfirfari þessar upplýsingar og geri sjóðnum viðvart, ef þær eru ekki réttar, að öðrum kosti getur hann misst réttindi. Hafi sjóðfélagi ekki gert athugasemdir við iðgjaldaskilin innan 60 daga frá dagsetningu yfirlits og sjóðnum ekki verið kunnugt um iðgjaldakröfuna, er sjóðurinn einungis ábyrgur fyrir réttindum sem iðgjöldin skapa að því marki sem þau fást greidd. Auk eftirlits sjóðsins með iðgjaldaskilum launagreiðenda hefur ríkisskattstjóri, lögum samkvæmt, einnig eftirlit með iðgjaldaskilum. Bæði launagreiðendum og einstaklingum er skylt að veita upplýsingar um iðgjaldaskil á skattframtölum. Þessar upplýsingar eru bornar saman við upplýsingar frá lífeyrissjóðum og ef fram kemur að iðgjöldum hefur ekki verið skilað, eða þau hafa verið minni en reglur segja til um, er mismunurinn innheimtur. 

  • Hvað gerist ef iðgjaldi er ekki skilað?

    Skili launagreiðandi ekki iðgjöldum á réttum tíma hefur sjóðurinn innheimtuaðgerðir til að fá iðgjöldin greidd. Í fyrstu er um viðvörunar- og ítrekunarbréf frá sjóðnum að ræða, en ef það dugar ekki til þá eru iðgjöldin send til lögfræðilegrar innheimtu. Lögfræðiinnheimtu getur lokið með aðför að fyrirtækinu og uppboði á eignum þess. Verði fyrirtækið gjaldþrota og getur ekki greitt, greiðir Ábyrgðarsjóður launa iðgjöldin, enda hafi innheimtunni verið sinnt með eðlilegum hætti. Við eðlilegar aðstæður á sjóðfélagi því ekki að tapa réttindum jafnvel þótt launagreiðandinn verði gjaldþrota. Ábyrgðarsjóður launa ber þó ekki ábyrgð á iðgjöldum framkvæmdastjóra og stjórnarmanna í gjaldþrota fyrirtækjum. Sama gildir, í vissum tilvikum, um iðgjöld nákominna skyldmenna þeirra. Lífeyrissjóðurinn ber ekki ábyrgð á iðgjöldum sem Ábyrgðarsjóður ábyrgist ekki og fáist þau ekki greidd falla öll réttindi vegna þeirra niður.

    Rétt er þó að hafa í huga að langflestir launagreiðendur sem greiða iðgjöld til sjóðsins gera það á réttum tíma og vanskil iðgjalda eru yfirleitt óveruleg. Venjulega lenda aðeins um 1-2% iðgjalda í vanskilum. Sömu reglur gilda um innheimtu iðgjalda í skyldutryggingu og viðbótarlífeyrissparnað hjá sjóðnum. 

  • Hafa iðgjöldin skilað sér?

    Sjóðfélagayfirlit eru send út tvisvar á ári til virkra sjóðfélaga, þar sem gerð er grein fyrir iðgjaldaskilum. Sjóðfélagar geta óskað eftir aðgangi að sjóðfélagavef þar sem bæði er yfirlit yfir iðgjaldagreiðslur og áunnin réttindi. Hafi þeir aðgang að sjóðfélagavef geta þeir einnig fengið aðgang að lífeyrisgáttinni, sem er góð leið til að fylgjast með réttindum. Mikilvægt er að sjóðfélagar beri saman iðgjöld samkvæmt launaseðlum og yfirlit iðgjaldagreiðslna hjá Stapa svo að iðgjöld tapist ekki.

    Til þess að iðgjöld launamanns njóti ábyrgðar Ábyrgðarsjóðs launa við gjaldþrot launagreiðanda, skal launamaðurinn innan 60 daga frá dagsetningu útsendra yfirlita ganga úr skugga um skil vinnuveitanda til lífeyrissjóðsins. Ef upplýsingar um iðgjöld vantar á yfirlitið er mikilvægt að launamaður tilkynni það til lífeyrissjóðsins, með framlagningu launaseðla. Komi ekki fram athugasemd frá launamanni, er lífeyrissjóðurinn einungis ábyrgur fyrir réttindum sem þessi iðgjöld skapa, að því marki sem þau fást greidd.

    Vinsamlegast hafið samband við sjóðinn ef frekari upplýsinga er óskað.

  • Hvar fæ ég upplýsingar um til hvaða lífeyrissjóða ég hef greitt?

    Með innskráningu á sjóðfélagavef getur sjóðfélagi einnig fengið aðgang að lífeyrisgáttinni, þar sem hann fær upplýsingar um alla sjóði sem hann hefur greitt til sem og áunnin réttindi í hverjum þeirra.

  • Hvað er sjóðfélagavefur?

    Vefur sjóðfélaga er sérstakt lokað vefsvæði með upplýsingum um iðgjaldaskil og lífeyrisréttindi sjóðfélaga. Hægt er að sækja inn á vefinn með rafrænum skilríkjum í síma eða íslykli. Á sjóðfélagavefnum fær viðkomandi sjóðfélagi upplýsingar um réttindi sín og iðgjaldaskil. Af sjóðfélagavefnum er síðan hægt að fara inn á lífeyrisgáttina, en þar eru upplýsingar um alla lífeyrissjóði sem viðkomandi hefur greitt til sem og upplýsingar um áunnin réttindi á hjá hverjum sjóði. 

  • Hvað er lífeyrisgátt?

    Lífeyrisgáttin er sameiginlegur vefur lífeyrissjóðanna á Íslandi, þar sem sérhver sjóðfélagi getur fengið upplýsingar um öll þau lífeyrisréttindi sem viðkomandi á í íslenskum lífeyrissjóðum. Lífeyrisgáttin veitir aðeins upplýsingar um réttindi í skyldutryggingu. Til að fá aðgang að lífeyrisgáttinni þurfa sjóðfélagar að fá aðgang að sjóðfélagavef hjá einhverjum þeirra sjóða sem þeir eiga réttindi hjá og þaðan geta þeir komist inn á lífeyrisgáttina. Lífeyrisgáttin er mjög mikilvægt tæki til að fylgjast með lífeyrisréttindum og til að koma í veg fyrir að lífeyrisréttindi glatist í kerfinu vegna vanþekkingar á því hvar menn eiga réttindi. Allir sjóðfélagar eru hvattir til að nýta sér lífeyrisgáttina til að fylgjast með réttindum sínum. Leiðbeiningar varðandi innskráningu má finna hér.

  • Get ég verið áfram í lífeyrissjóði ef ég er í fæðingarorlofi?

    Samkvæmt lögum (l. 55/1980) á félagi í lífeyrissjóði sem á rétt til töku fæðingarorlofs og hverfur þess vegna tímabundið úr starfi að hluta eða öllu leyti rétt á því að greiða áfram til lífeyrissjóðs, enda greiði hann þá sjálfur bæði eigin iðgjaldahluta og mótframlag launagreiðanda. Fái sjóðfélagi greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði á meðan á töku fæðingarorlofs stendur heldur Fæðingarorlofssjóður eftir iðgjaldahluta launamanns og skilar honum ásamt mótframlagi. Ef óskað er eftir því, skilar Fæðingarorlofssjóður framlagi launamanns til viðbótarlífeyrissparnaðar en greiðir ekki mótframlag. 

  • Hvaða áhrif hefur það á lífeyrisrétt minn ef ég skipti um sjóð?

    Það að skipta um sjóð hefur ekki áhrif á áunnin lífeyrisréttindi. Þau eru geymd með óbreyttum hætti í þeim lífeyrissjóði sem þú greiddir áður til. Þó ber að hafa í huga að ákveðin réttindi, svo sem réttindi til framreiknings, eru háð því að sjóðfélagi sé greiðandi til lífeyrissjóðs og hafi verið greiðandi í einhvern tíma. Slík skilyrði eru þó ekki vandamál þegar skipt er um lífeyrissjóði, þar sem sjóðum ber að líta til greiðslna til annarra lífeyrissjóða í slíkum tilfellum, samkvæmt samkomulagi um samskipti lífeyrissjóða. Þessi réttindi falla þó niður ef ekki er greitt í neinn lífeyrissjóð í sex mánuði eða lengur.

  • Má flytja réttindi milli sjóða?

    Ekki er heimilt að flytja réttindi vegna skyldutryggingar á milli lífeyrissjóða. Þegar sjóðfélagi hættir að greiða til tiltekins lífeyrissjóðs og fer að greiða í annan sjóð, eru réttindin í fyrri sjóði geymd þar áfram og breytast ekki þótt sjóðfélaginn yfirgefi sjóðinn. Þegar sótt er um lífeyri, er eðlilegast að sótt sé um hjá þeim sjóði, sem viðkomandi sjóðfélagi greiddi síðast til. Sá sjóður sendir afrit af umsókninni til annarra sjóða sem viðkomandi hefur greitt til. Þannig eiga engin réttindi að tapast í lífeyrissjóðakerfinu þótt menn hafi greitt til margra sjóða. Mikilvægt er samt sem áður að brýna fyrir sjóðfélögum að fylgjast með þessu, en það er hægt að skoða í lífeyrisgáttinni, þar sem er að finna upplýsingar um alla lífeyrissjóði sem viðkomandi hefur greitt til og hvaða réttindi hann á hjá hverjum og einum. Lífeyrisgáttin er aðgengileg á sjóðfélagavef Stapa.

  • Erfist réttur minn til ævilangra eftirlauna?

    Eftirlaun eru greidd meðan sjóðfélaganum endist aldur. Þessi réttur erfist ekki. Hins vegar á maki sjóðfélaga rétt á makalífeyrisgreiðslum frá sjóðnum við fráfall sjóðfélagans. Eigi sjóðfélagi börn innan 18 ára aldurs við fráfallið er einnig greiddur barnalífeyrir vegna þeirra. 

  • Getur maki fengið hluta réttinda minna?

    Heimilt er að skipta réttindum til eftirlauna á milli sjóðfélagans og maka eins og tilgreint er í lögum og samþykktum sjóðsins. Þetta getur gerst með þrennum hætti:

    1. Að eftirlaunagreiðslum sem renna eiga til sjóðfélaga séu að hálfu látnar renna til maka. Falli sjóðfélagi frá fellur greiðsla eftirlauna niður, bæði til sjóðfélagans og maka. Falli maki frá renna allar eftirlaunagreiðslurnar eftir það til sjóðfélaga.
    2. Hægt er að skipta áunnum réttindum. Slíka skiptingu verður þó að ákveða eigi síðar en fyrir 65 ára aldur sjóðfélaga. Einnig er það skilyrði að ekki sé vitað til að sjúkdómar eða heilsufar hafi dregið úr lífslíkum sjóðfélaga. Hjón þurfa því að óska eftir yfirlýsingu heimilislæknis um heilsufar áður en skipting af þessu tagi er samþykkt.
    3. Einnig er hægt að skipta framtíðarréttindum þannig að þau eftirlaunaréttindi sem iðgjald sjóðfélagans skapa skuli að hálfu renna til maka.

    Skiptingin tekur eingöngu til eftirlaunaréttinda og myndar ekki réttindi til áfallalífeyris hjá maka. Á sama hátt breytast réttindi sjóðfélagans til áfallalífeyris ekki við þessa skiptingu. Skipting réttindanna er því aðeins heimil að hún feli í sér gangkvæma skiptingu á réttindum beggja aðila. Ekki er hægt að skipta aðeins réttindum annars aðilans. Hægt er að nálgast eyðublöð vegna skiptingar réttinda hér.

    Mikilvægt er að hjón geri sér grein fyrir því í hverju skipting af þessu tagi er fólgin, áður en hún er ákveðin, og hverjir eru helstu kostir hennar og gallar. Um það má lesa hér.

  • Borgar sig að láta skipta réttindum milli mín og maka?

    Heimilt er að skipta eftirlaunaréttindum milli hjóna. Hægt er að líta á skiptingu eftirlaunaréttinda með ýmsum hætti. Það má líta á hana út frá því sjónarmiði að eðlilegt sé að makar ávinni sér jafnan rétt til eftirlauna burtséð frá því hvernig þeir ákveða að skipta með sér verkum, t.d. vegna umönnunar barna og tekjuöflunar til heimilisins. Öflun eftirlauna sé þannig jafnréttis- eða sanngirnismál. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að skipting réttindanna er endanleg og hefur því áhrif á eftirlaunaréttindi hjóna til frambúðar. Ef eingöngu er litið á málið út frá fjárhagslegu sjónarmiði má segja að fjárhagslegur ávinningur sé af skiptingunni ef sá maki sem hefur lægri réttindi lifir maka sinn, en tap ef sá sem lakari réttindin hefur deyr á undan. 

  • Hvað er viðbótarlífeyrissparnaður?

    Samkvæmt lögum er launamönnum og þeim sem stunda sjálfstæða starfsemi heimilt að leggja allt að 4% iðgjald af heildarlaunum sínum í viðbótarlífeyrissparnað. Iðgjaldið er dregið frá launum áður en tekjuskattur er greiddur, þannig að ekki greiðist af því tekjuskattur. Ákveði launamaður að greiða 2% eða meira af launum sínum í viðbótarlífeyrissparnað er launagreiðanda skylt að greiða 2% mótframlag inn á viðbótarlífeyrissparnað launamannsins. Viðbótarlífeyrissparnaður er þannig mjög hagstætt sparnaðarform, sem bæði felur í sér skattahagræði og viðbótarfjármuni frá launagreiðanda sem launamaður fær annars ekki. Viðbótarlífeyrissparnaður er yfirleitt í formi séreignar. Fræðast má nánar um hagkvæmni viðbótarlífeyrissparnaðar vefsíðu Stapa.

  • Hvernig get ég tekið þátt í starfsemi lífeyrissjóðsins?

    Ársfundir sjóðsins eru opnir öllum sjóðfélögum með málfrelsi og tillögurétti. Þú getur einnig átt kost á að komast í fulltrúaráð sjóðsins í gegnum stéttarfélagið þitt og fengið þannig fullan atkvæðisrétt.

  • Get ég boðið mig fram í stjórn lífeyrissjóðsins?

    Stjórn sjóðsins er kjörin á ársfundi hans. Allir geta boðið sig fram til stjórnar, sem uppfylla skilyrði laga (31. gr.). Auk þess að uppfylla skilyrði laga þurfa stjórnarmenn að standast hæfismat Fjármálaeftirlitsins. 

  • Fá erlendir ríkisborgarar endurgreidd iðgjöld sín til lífeyrissjóða?

    Lífeyrissjóðir hafa heimild til endurgreiðslu iðgjalda til erlendra ríkisborgara sem hafa verið í vinnu á Íslandi og greitt til íslenskra lífeyrissjóða, þegar þeir flytjast aftur af landi brott. Þessi heimild gildir ekki um ríkisborgara á Evrópska efnahagssvæðinu (EES), Sviss, Kanada og Bandaríkjanna.*

    Þau lönd sem tilheyra Evrópska efnahagssvæðinu eru EFTA-löndin: Ísland, Liechtenstein og Noregur, og Evrópusambandslöndin: Austurríki, Belgía, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Írland, Króatía, Kýpur (gríski hlutinn), Lúxemborg, Lettland, Litháen, Malta, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland og Þýskaland.

    Þeir erlendu ríkisborgarar sem eiga ríkisfang innan EES-svæðisins, Sviss, Bandaríkjanna og Bretlands eiga ekki rétt á endurgreiðslu iðgjalda.

    Stapi endurgreiðir iðgjöld sem uppfylla skilyrði um endurgreiðslu. Sækja þarf um endurgreiðsluna og sýna staðfestingu á flutningi frá Íslandi og að vinnusambandi hafi verið slitið ásamt vegabréfi. Ekki er endurgreitt ef viðkomandi fer aðeins tímabundið úr landi, en hyggst koma aftur til vinnu á Íslandi. 

    Ísland hefur gert milliríkjasamninga um almannatryggingar við mörg erlend ríki og tryggingastofnanir. Upplýsingar um réttindi við flutning á milli landa er að finna á vefsíðu Tryggingastofnunar.

    * Samningur um almannatryggingar milli Íslands og Bandaríkjanna tók gildi 1. mars 2019.
    * Breskir ríkisborgarar geta eingöngu fengið endurgreidd iðgjöld vegna janúar 2021 og síðar. Endurgreiðsla iðgjalda sem greidd voru fyrir janúar 2021 þegar Bretland var partur af Evrópusambandinu er ekki heimil.

Sjá fleiri spurningar Sjá færri spurningar