Tilgreind séreign varð til í kjölfar kjarasamnings ASÍ og SA þar sem m.a. var samið um 3,5% þrepaskipta hækkun á mótframlag launagreiðanda í lífeyrissjóð. Frá 1.7.2017 geta sjóðfélagar ákveðið hvort þessi hækkun fer í tilgreinda séreignadeild í stað tryggingadeildar.
Nafnið, tilgreind séreign, er tilkomið vegna þess að sjóðfélagi verður að tilgreina ef hann vill að hækkun á mótframlagi atvinnurekanda, allt að 3,5%, verð sett í tilgreinda séreign. Ef sjóðfélagi tilkynnir ekkert til sjóðsins þá rennur hækkunin í tryggingadeild.
Framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð skv. samningum breyttist á eftirfarandi hátt:
Hægt er að sjá samninginn hér.
Framlagi launþega er áfram 4%.
Hægt að ráðstafa allt að 3,5% í tilgreinda séreign.
Tilgreind séreign er hluti af skylduiðgjaldi í lífeyrissjóð á meðan séreignarsparnaður er viðbótariðgjald í lífeyrissjóð. Einnig gilda aðrar reglur um útgreiðslur tilgreindrar séreignar en séreignarsparnað.
Hægt er að hefja ráðstöfum í tilgreinda séreign frá 1. júlí 2017. Eftir að tilkynningin hefur móttekin af lífeyrissjóðnum geta liðið allt að 2 mánuðir þar til ráðstöfun iðgjalds er framkvæmd.
Val um það hvort iðgjald skuli renna í tilgreinda séreignardeild í stað tryggingadeildar er undir ákvörðun sjóðfélaga komið.
Vilji sjóðfélagi ráðstafa iðgjaldi umfram 12% í tilgreinda séreign, þarf hann að fylla út tilkynningu og skila inn til sjóðsins. Ef ekki er skilað inn rafrænt þarf frumrit að berast sjóðnum. Á tilkynningunni er að finna ítarlegar upplýsingar um tilgreinda séreign og hvaða þætti sjóðfélagi þarf að skoða áður en tekin er ákvörðun um hvernig iðgjaldinu er ráðstafað. Með tilkynningunni staðfestir sjóðfélagi að hann hafi kynnt sér þær reglur sem gilda um tryggingavernd í tryggingadeild sjóðsins annars vegar og þær reglur sem gilda um tilgreinda séreignardeild hins vegar.
Með ráðstöfun iðgjalds í tilgreinda séreign ávinnst ekki, hvað þau iðgjöld snertir, réttur til ævilangs lífeyris, örorkulífeyris, þ.m.t. framreiknings né makalífeyris. Þannig er eðlismunur á þeim réttindum sem ávinnast í samtryggingu annars vegar og í tilgreindri séreign hins vegar samkvæmt ákvæðum samþykkta sjóðsins eins og þau eru á hverjum tíma.
Réttindi í tryggingadeild geta verið verðmæt tryggingaréttindi. Eðli málsins samkvæmt geta greiðslur á grundvelli þeirra numið hærri eða lægri fjárhæð en sem nemur uppsöfnuðum iðgjöldum sem greidd hafa verið til sjóðsins. Samhengi er milli fjárhæðar greiddra iðgjalda og þeirra réttinda sem sjóðfélagi ávinnur sér í tryggingadeild. Af því leiðir að ef sjóðfélagi ákveður að ráðstafa hluta af iðgjaldi í tilgreinda séreignardeild í stað tryggingadeildar ávinnur hann sér minni tryggingaréttindi í samtryggingu en að sama skapi meiri réttindi í tilgreindri séreign.
Iðgjöld í tilgreinda séreign eru séreign sjóðfélaga. Falli hann frá greiðist hún til erfingja og skiptist skv. reglum erfðalaga.
Þú þarft að upplýsa lífeyrissjóðinn um það með því að fylla út tilkynningu.
Með tilkynningunni staðfestir sjóðfélagi að hann hafi kynnt sér þær reglur sem gilda um tryggingavernd í tryggingadeild sjóðsins annars vegar og þær reglur sem gilda um tilgreinda séreignardeild hins vegar.
Sjóðfélaga er heimilt að hefja úttekt úr tilgreindri séreignardeild frá 62 ára aldri og skulu greiðslur þá dreifast að lágmarki á þann tíma sem hann á eftir fram að 67 ára aldri. Heimilt er að víkja frá fyrrgreindum endurgreiðslutíma ef innstæðan er undir 500.000 kr. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig. Fjárhæðin er kr. 1.595.100 miðað við vísitölu í september 2022 (553,5).
Verði rétthafi öryrki og orkutap metið 100% af trúnaðarlækni sjóðsins á hann rétt á að fá inneign sína í tilgreindri séreignardeild greidda út með jöfnum árlegum greiðslum á sjö árum. Heimilt er að víkja frá fyrrgreindum endurgreiðslutíma ef innstæðan er undir 500.000 kr. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig. Fjárhæðin er kr. 1.595.100 miðað við vísitölu í september 2022 (553,5).
Ef örorka er metin lægri en 100% lækkar þá árleg útborgun í hlutfalli við lækkun örorkuprósentunnar og úttektartíminn lengist samsvarandi.
Við andlát rétthafa greiðist inneign í tilgreindri séreignardeild til erfingja og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga um lögerfðir.
Láti rétthafi ekki eftir sig maka eða barn rennur innstæðan til dánarbúsins og gildir þá ekki takmörkunin í 2. málsl. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997 með síðari breytingum.
Já, sömu reglur gilda um skattgreiðslur af útborgun tilgreindrar séreignar og af launagreiðslum. Ekki var greiddur skattur af iðgjöldum þegar þau voru greidd til sjóðsins. Það þýðir í raun að skattgreiðslum var frestað við greiðslu iðgjaldsins til þess tíma er iðgjöldin koma til útgreiðslu.
Hægt er að gera breytingar á ráðstöfun iðgjalda með nýrri tilkynningu. Breytingin gildir gagnvart nýjum iðgjöldum en breytir ekki ráðstöfun áður greiddra iðgjalda. Ef ekki er skilað inn rafrænt þarf frumrit tilkynningar að berast sjóðnum.
Ef greitt er áfram í sama lífeyrissjóð þarf ekki að fylla út nýja tilkynningu en ef greitt er í annan lífeyrissjóð þá þarf að fylla út aðra tilkynningu hjá nýja lífeyrissjóðnum.
Þú getur fylgst með tilgreindu séreigninni þinni með því að fá aðgang að sjóðfélagavef Stapa. Einnig getur þú haft samband við sjóðinn og fengið sent yfirlit.
Sjóðfélagayfirlit eru send út tvisvar á ári til virkra sjóðfélaga.
Já, hún er séreign rétthafans og erfist við fráfall. Tilgreinda séreignin er þá greidd út til lögerfingja í samræmi við ákvæði erfðalaga.
Sjóðfélagi getur greitt í tilgreinda séreign ef heimild er til slíkrar ráðstöfunar samkvæmt kjara- eða ráðningarsamningi hans.
Allar upplýsingar um greiðslu lífeyris úr tryggingadeild, eftirlaun, endurhæfingar- og örorkulífeyir, makalífeyri og barnalífeyri, má finna á lífeyrishluta vefsíðunnar.
Já, velja þarf eina af þremur ávöxtunarleiðum:
Fyrst um sinn verður þó aðeins ein leið í boði, tilgreinda varfærna safnið. Inneign verður færð í þá leið sem sjóðfélagi velur þegar búið er að stofna allar þrjár leiðirnar
Eign er ávöxtuð samkvæmt fjárfestingarstefnu eins og hún er á hverjum tíma. Stefnan er endurskoðuð að jafnaði einu sinni á ári.
Reiknivél Stapa er að finna á vef sjóðfélaga en hér að neðan eru þrjú dæmi.
Í dæmunum er gert ráð fyrir að sjóðfélagi sé með 400.000 krónur í mánaðarlaun alla starfsævina, hann hefur inngreiðslu í lífeyrissjóð 25 ára gamall og greiðir til 67 ára aldurs og fer þá á eftirlaun. Í dæmunum er gert ráð fyrir að árleg hrein raunávöxtun bæði samtryggingar og tilgreindrar séreignar sé 3,5%. Dæmi eru tekin af 25 ára, 40 ára og 60 ára sjóðfélögum sem standa nú fyrir þessum valkosti. Reynt er að meta áhrif af ákvörðuninni á áætluð eftirlaun sjóðfélagans, ef þau yrðu tekin við 67 ára aldur en hafa ber í huga að aukin tryggingavernd er alltaf fólgin í því að leggja iðgjöldin í samtryggingu.
Dæmi fyrir 25 ára
Sjóðfélagi er að byrja að greiða inn í lífeyrissjóðinn og á engin fyrri réttindi. Ef hann greiðir alla sína starfsævi 15,5% í samtryggingu þá eru áætluð eftirlaun hans um 330.000 kr. á mánuði. Ef hann greiðir hins vegar 12% í samtryggingu en 3,5% í tilgreinda séreign þá eru áætluð eftirlaun hans rúmlega 250.000 kr. og áætlaður tilgreindur séreignarsjóður tæpar 16 milljónir kr.
Dæmi fyrir 40 ára
Sjóðfélagi hefur nú þegar áunnið sér um 120.000 í ævilöng eftirlaun. Ef hann greiðir hér eftir 15,5% í samtryggingu þá eru áætluð eftirlaun hans rúmlega 290.000 kr. á mánuði. Ef hann greiðir hins vegar 12% í samtryggingu en 3,5% í tilgreinda séreign þá eru áætluð eftirlaun hans rúmlega 250.000 kr. og áætlaður tilgreindur séreignarsjóður um 7,5 milljónir kr.
Dæmi fyrir 60 ára
Sjóðfélaginn hefur nú þegar áunnið sér tæp 226.000 í ævilöng eftirlaun. Ef hann greiðir hér eftir 15,5% í samtryggingu þá eru áætluð eftirlaun hans 262.000 kr. á mánuði. Ef hann greiðir hins vegar 12% í samtryggingu en 3,5% í tilgreinda séreign þá eru áætluð eftirlaun hans rúmlega 254.000 kr. og áætlaður tilgreindur séreignarsjóður um 1,3 milljónir kr.
Fyrirvari
Réttindi sjóðfélaga grundvallast á gildandi samþykktum Stapa eins og þær eru á hverjum tíma. Athygli er vakin á því að dæmin hér að framan um réttindi í samtryggingardeild og eign í tilgreindri séreign eru einungis sett fram til skýringar og einföldunar. Þeim er ætlað að hjálpa sjóðfélögum að átta sig áhrifum ákvörðunar sinnar varðandi skiptingu 3,5% kjarasamningsbundins viðbótariðgjalds milli samtryggingar og tilgreindrar séreignar. Dæmin fela ekki í sér úrskurð um lífeyri eða fyrirheit um efni slíks úrskurðar. Gerður er fyrirvari um mögulegar villur eða ónákvæmni. Ef þessum upplýsingum ber ekki saman við ákvæði samþykkta sjóðsins gilda ákvæði samþykktanna. Því er mikilvægt fyrir sjóðfélaga að kynna sér vel efni samþykkta sjóðsins. Þá er rétt að árétta að réttindi samkvæmt samþykktum geta breyst frá einum tíma til annars.