Á að taka upp nýtt réttindakerfi?

Undanfarin ár hafa verið miklar umræður um réttindakerfi íslenskra lífeyrissjóða á almennum markaði.

Flestir þeirra búa við réttindakerfi, sem byggir á réttindatöflum, þ.e. hvaða réttindi sjóðfélagi fær til ævilangs lífeyris mv. 10.000 kr. innborgað iðgjald. Réttindin eru mishá eftir aldri og byggja á ávöxtunartíma iðgjaldsins. Því yngri sem sjóðfélaginn er, þeim mun lengra er í að iðgjaldið komi til endurgreiðslu í formi lífeyris og því hærri réttindi veitir það (aldursháð réttindaávinnsla). Réttindataflan byggir á lýðfræðilegum forsendum, þ.e. lífslíkum, örorkulíkum o.s.frv. og á því að 3,5% raunávöxtun náist á eignir sjóðsins. Réttindin eru þannig búin til með fyrirfram ákveðinni reiknireglu.

Samkvæmt lögum ber að ávaxta eignir sjóðanna á markaði. Markaðsverðbréf eru háð sveiflum, sem annað veifið geta verið umtalsverðar. Á þeim tímum getur orðið talsverður munur á verðmæti eigna og verðmæti lífeyrisréttindanna. Fari þessi munur umfram tiltekin mörk ber að jafna hann, með aukningu eða skerðingu réttinda, þar sem enginn bakábyrgðaraðili er fyrir hendi hjá almennu sjóðunum. Þetta gerist sjaldan, en er þó líklegt til að gerast á 5-10 ára fresti. Aukningar eru sjaldnast vandamál, en skerðingar eru hins vegar afar óvinsælar og mælast illa fyrir.

Lagareglan um að ekki megi vera nema ákveðin frávik milli eigna og skuldbindinga gerir það að verkum að eignir og skuldbindingar eru jafnaðar með reglubundnum hætti. Til lengri tíma litið fylgja réttindin því eignunum frekar en reiknireglunni, þótt þau kunni að víkja frá þeim tímabundið.

Auk þessa hefur krafan um 3,5% raunvexti verið mikið til umræðu og margir talið hana óraunhæfa til lengri tíma litið. Þá vilja sumir meina að hún hafi skaðleg áhrif á vaxtastigið í landinu og aðrir að hún auki áhættutöku hjá sjóðunum þegar vextir af áhættulitlum skuldabréfum lækka niður fyrir þessi mörk. Í báðum tilvikum sé um óæskileg áhrif að ræða.

Hjá Stapa lífeyrissjóði hafa hugmyndir um nýtt réttindakerfi verið til skoðunar um nokkurt skeið og hefur Bjarni Guðmundsson tryggingastærðfræðingur komið að því verki. Þar hefur einkum verið unnið með þá hugmynd að í stað þess að réttindaávinnslan byggi á tiltekinni reiknireglu – réttindatöflu – þá ávinnist réttindi í takt við ávöxtun eigna. Þannig verði alltaf samræmi á milli  eigna og skuldbindinga (þ.e. verðmætis lífeyrisréttinda).

Þetta eykur vissulega sveiflur í réttindaávinnslu, þar sem hún mun fylgja þeim sveiflum sem verða í ávöxtun eigna. Á móti ættu miklar breytingar að verða sjaldgæfari en í núverandi kerfi, þar sem mismunur eigna og skuldbindinga byggist upp yfir langan tíma og er svo leiðréttur í stærri skrefum.

Með þessari breytingu er ekki verið að skylda fólk til að greiða inn í sjóð, sem ekki á fyrir skuldbindingum, líkt og nú gerist iðulega.

Sveiflur í réttindum eru e.t.v. ekki svo stórt áhyggjuefni á starfsævinni á meðan réttindi eru að safnast upp. Öðru máli gegnir fyrir lífeyrisþega, eftir að taka lífeyris er hafin og lífeyrisþeginn er farinn að lifa á eftirlaununum. Til að koma til móts við þessi sjónarmið er hugmyndin að lífeyrisþegum verði greiddur verðtryggður lífeyrir, sem tekur mið af vísitölu neysluverðs, en taki ekki mið af þróun eigna. Lífeyrisþegar verða því ekki fyrir skerðingum og fá ekki aukningar vegna breytinga á eignaverði. Þessu þarf að fylgja eftir með sérstöku áhættulitlu eignasafni sem tekur mið af þörfum lífeyrisþega og stendur undir greiðslum til þeirra.

Þær hugmyndir sem hér eru settar fram eru taldar rúmast innan núgildandi löggjafar mv. þá skoðun sem sjóðurinn hefur látið gera á þessu.

Stjórn sjóðsins hefur nú ákveðið að kynna þessar hugmyndir fyrir aðildarfélögum sjóðsins og er nánari kynningu að finna hér á heimasíðunni undir fyrirsögninni - Nýtt kerfi?  Einnig býðst sjóðurinn til að mæta á fundi með félögunum vilji þau fá nánari útskýringar. Ætlunin er að taka þessar hugmyndir fyrir á ársfundi sjóðsins, sem haldinn verður 21. maí næstkomandi. Þá verður ákveðið hvort stefnt verður að þessari breytingu á réttindakerfinu og hvernig hún verður nánar útfærð.