Þessi mikil munur á ávöxtun þessara leiða og Tryggingadeildar vekur athygli. „Við erum auðvitað kát með þessa niðurstöðu. Ávöxtunarleiðir Séreignardeildarinnar áttu engin skuldabréf á bankana eða íslensk atvinnufyrirtæki. Skuldabréf leiðanna voru alfarið ríkisskuldabréf. Þá voru þær ekki með gjaldeyrisvarnir. Munurinn liggur í þessu.“ Sagði Kári Arnór „Við höfðum reyndar velt því fyrir okkur að kaupa gjaldeyrisvarnir á þessar ávöxtunarleiðir þegar krónan fór að veikjast verulega, en sem betur fer varð ekki af því! Þetta er því bland af heppni og betri gæðum eigna“. Safn II er sett saman með nokkuð líkum hætti og safn Tryggingadeildarinnar, nema að skuldabréfin í Safni II eru ríkisskuldabréf, en ríflega helmingur innlendra skuldabréfa í Tryggingadeild voru á banka, fyrirtæki og sveitarfélög. Ávöxtun á Safni II og Tryggingadeildinni var sú sama eftir fyrstu 9 mánuði ársins.
Í október hrundi ávöxtun Tryggingadeildarinnar við bankahrunið vegna mikilla niðurfærslu á skuldabréfum banka og fyrirtækja. Ávöxtun á Safni II batnaði hins vegar á sama tíma. „Þetta kennir manni að gæði eigna skiptir mjög miklu máli á erfiðum tímum. Skuldabréf sem gefa hærri vexti munu ekki endilega leiða til hærri ávöxtunar, ef afskriftir verða miklar. Við þurfum að læra af þessum atburðum og víst er að þeir munu hafa mikil áhrif á alla eignstýringu á Íslandi á næstu árum“ sagði Kári Arnór að lokum.