Allt gert til að tryggja kröfur sjóðsins

Stapi lífeyrissjóður mun gera allt sem í valdi sjóðsins stendur til að tryggja að krafa sjóðsins á hendur Straumi Burðarási komist að, en eins og áður hefur komið fram urðu Lögmannsstofunni ehf. á mistök við lýsingu kröfunnar, þannig að hún kom of seint fram.

 

Í þessu skyni hefur lífeyrissjóðurinn ráðið Logos lögmannsstofu til að aðstoða við að fá kröfurnar samþykktar af öðrum kröfuhöfum.  Lögmannsstofan Logos, sem einnig er með erlend útibú,  hefur fullvissað sjóðinn um að nægur mannskapur sé til staðar til að vinna af eins miklum krafti og mögulegt er að þessu verkefni. Bréf hafa þegar verið send út til allra kröfuhafa og í framhaldinu verður haft beint samband við hvern og einn kröfuhafa. Verið er að greina kröfuhafahópinn og ganga frá aðgerðaráætlun. Jafnframt verða ráðnar inn erlendar lögmannsstofur eftir þörfum til að vinna að málinu gagnvart erlendum kröfuhöfum. Með þessu móti vill sjóðurinn kappkosta að allt sé gert til að gæta hagsmuna sjóðfélaga eins vel og kostur er. Líklegt er að það muni taka 2-3 vikur áður en niðurstaða fæst í málið.