Stapi lífeyrissjóður stefndi Landsbanka Íslands (gamla Landsbankanum) til að fá úr því skorið hvort heimilt væri að nýta skuldabréf, sem sjóðurinn keypti á bankann í gegnum vörslukerfið í Bandaríkjunum til skuldajöfnunar á móti kröfum bankans á hendur sjóðnum. Skuldabréf sem gefin eru út í Bandaríkjunum eru varðveitt í svokölluðu vörslukerfi þar sem skipaður er sérstakur vörsluaðili sem varðveitir hið útgefna skuldabréf, auk umsjónaraðila sem sér um samskipti milli fjárfesta og útgefanda.
Fjárfestar kaupa einingar í viðkomandi skuldabréfi og eru hinir eiginlegu eigendur (e. beneficial owners). Rök Stapa voru þau að öll réttindi samkvæmt skuldabréfinu þ.m.t. rétturinn til skuldajöfnunar væri hjá eiginlegum eigendum, jafnvel þótt hið útgefna skuldabréf væri varslað hjá vörsluaðila og eitt af hlutverkum þjónustuaðilans sé að lýsa kröfunni í bú útgefanda. Landsbankinn hélt því á hinn bóginn fram að ekki væri beint skuldarasamband milli Stapa og Landsbankans. Sjóðurinn ætti því ekki beina kröfu á bankann, heldur á vörsluaðilann. Þar sem hann ætti ekki beina kröfu á bankann gæti hann ekki skuldajafnað á móti kröfu bankans. Héraðsdómur Reykjavíkur felldi úrskurð í dag þar sem hann fellst á rök Landsbankans að sjóðurinn eigi ekki beina kröfu á bankann og geti því ekki nýtt eign sína í téðu skuldabréfi til skuldajöfnunar.
Dómurinn hefur ekki áhrif á afkomu sjóðsins, þar sem gert hafði verið ráð fyrir þessum möguleika í uppgjöri hans strax á árinu 2009. Stjórn sjóðsins mun yfirfara dóminn og taka ákvörðun um hvort honum verður áfrýjað.