Eignir Stapa rúmir 143 milljarðar króna

Stjórn Stapa lífeyrissjóðs hefur staðfest ársreikning sjóðsins fyrir árið 2013. Um síðustu áramót var hrein eign til greiðslu lífeyris rúmir 143 milljarðar króna og hækkaði um 11,8 milljarða frá fyrra ári eða um 9%. 

Nafnávöxtun Tryggingadeildar sjóðsins var 6,8% á árinu sem svarar til 3,0% raunávöxtunar. Séreignardeild sjóðsins býður upp á þrjár ávöxtunarleiðir með mismunandi áhættu. Safn I skilaði 8,1% nafnávöxtun sem svarar til 4,3% raunávöxtunar. Safn II skilaði 7,9% nafnávöxtun sem svarar til 4,1% raunávöxtunar. Safn III sem alfarið er ávaxtað í innlánum skilaði 6,6% nafnávöxtun sem svarar til 2,8% raunávöxtunar.

Rúmlega 7 þúsund lífeyrisþegar fengu um 3,7 milljarða króna í lífeyri úr Tryggingadeild sjóðsins á árinu 2013.  Voru þetta um 7,3% hærri greiðslur en árið á undan en á sama tíma fjölgaði lífeyrisþegum um 5,2%. Alls greiddu 18.705 sjóðfélagar hjá 2.668 launagreiðendum iðgjöld til deildarinnar á árinu en iðgjöld námu 6,3 milljörðum króna og hækkuðu um 6,6% milli ára.

Nánari grein verður gerð fyrir uppgjörinu síðar.