Í kjarasamnings ASÍ og SA frá janúar 2016 var m.a. samið um 3,5% þrepaskipta hækkun á mótframlagi launagreiðanda í lífeyrissjóð. Þann 1. júlí sl. kom síðasta hækkunin til framkvæmda. Mótframlagið er eftir hækkunina 11,5% en engar breytingar voru gerðar á framlagi launþega, sem er áfram 4%.
Töluverð umræða hefur verið í fjölmiðlum undanfarið um hækkun mótframlagsins. Sjóðfélagar sem falla undir kjarasamninginn hafa frá júlí 2017 getað ráðstafað allt að 3,5% af mótframlaginu í tilgreinda séreign. Vilji sjóðfélagi ráðstafa allri eða hluta af hækkuninni í tilgreinda séreign, þarf hann að fylla út tilkynningu og skila inn til sjóðsins. Ef sjóðfélagi skilar ekki tilkynningu rennur iðgjaldið í tryggingadeild. Sjóðfélagi þarf ekki að upplýsa launagreiðanda um ákvörðunina.
Þeir sem skiluðu inn umsókn fyrir lokahækkunina og óskuðu eftir að hærra en 2% iðgjald renni í tilgreinda séreign þurfa ekki að skila inn nýrri umsókn.
Val um það hvort iðgjald skuli renna í tilgreinda séreignardeild í stað tryggingadeildar er undir ákvörðun sjóðfélaga komið. Með ráðstöfun iðgjalds í tilgreinda séreign ávinnst ekki, hvað þau iðgjöld snertir, réttur til ævilangs lífeyris, örorkulífeyris, þ.m.t. framreiknings né makalífeyris. Þannig er eðlismunur á þeim réttindum sem ávinnast í samtryggingu annars vegar og í tilgreindri séreign hins vegar. Það er mikilvægt að sjóðfélagar kynni sér í hverju munurinn felst áður en ákvörðun er tekin því hún hefur áhrif á þau réttindi sem iðgjöld þeirra mynda hjá lífeyrissjóðnum.
Mikilvægt er að sjóðfélagar fylgist með því á launaseðlum að framangreind hækkunin skili sér. Á sjóðfélagavefnum er einnig auðvelt að fylgjast með réttindum og iðgjöldum.
Þar sem hækkun nær ekki til allra geta sjóðfélagar haft samband við stéttarfélög til að fá upplýsingar um rétt hlutfall mótframlags.
Vinsamlega hafið samband við sjóðinn ef frekari upplýsinga er óskað. Hægt er að senda beiðni á stapi@stapi.is eða hafa samband við okkur í síma 460-4500 til að fá aðstoð. Gagnlegar upplýsingar er einnig að finna í Spurt og svarað á heimasíðu sjóðsins.