Fjármálaeftirlitið hefur tilkynnt Stapa lífeyrissjóði að það muni una niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Stapa gegn Fjármálaeftirlitinu (dómur nr. E-2985/2012) og muni því ekki áfrýja til Hæstaréttar. Frétt af niðurstöðu dómsmálsins birtist hér á heimasíðu sjóðsins þann 26. mars sl. Í stuttu máli snérist ágreiningsefnið um hvort Fjármálaeftirlitinu væri heimilt að rukka sérstaklega fyrir það hæfismat sem stjórnarmenn lífeyrissjóða eru teknir í. Mat eftirlitsins var að um væri að ræða sértæka eftirlitsaðgerð og því væri eftirlitinu heimilt að rukka sérstakt viðbótareftirlitsgjald vegna þessa. Sjónarmið sjóðsins var að hér væri um almenna eftirlitsaðgerð að ræða sem ekki væri heimilt að rukka sérstaklega heldur ætti hið almenna eftirlitsgjald að standa undir kostnaði vegna þessa. Sjóðurinn ákvað að fá dómstóla til að skera úr um ágreiningsefnið. Héraðsdómur dæmdi Stapa í vil og Fjármálaeftirlitið hefur nú ákveðið að una þeirra niðurstöðu.