Ársfundur Stapa lífeyrissjóðs var haldinn í Menningarhúsinu Hofi, Akureyri, miðvikudaginn 8. maí. sl. Mæting á fundinn var góð en fundurinn var einnig sendur beint út á vef sjóðsins. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin ársfundarstörf.
Erla Jónsdóttir, stjórnarformaður Stapa, lagði í ávarpi sínu áherslu á mikilvægi þess að bakland lífeyrissjóðanna, ekki síst stéttarfélögin, málsvarar sjóðfélaga, fari í þá vinnu að greina hvernig við viljum sjá lífeyriskerfið þróast til framtíðar. Baklandið þurfi að standa með sínum sjóðfélögum og kanna til hlítar réttmæti skerðinga í almannatryggingakerfinu. Lífeyriskerfið var stofnað sem sparnaðarkerfi fyrir 50 árum. Í dag er það ekki sparnaðarkerfi svo nokkru nemi því ríkið hefur seilst í vasa sjóðfélaga og hirt af þeim sparnaðinn. Þessar miklu skerðingar þurfi að afnema. Í ljósi þungrar örorkubyrði sjóðsins velti formaður stjórnar einnig fyrir sér hversu vel það fari að blanda áfallatryggingum og eftirlaunatryggingum saman í ljósi ólíkrar örorkubyrði sjóða og misjafnra valmöguleika launamanna.
Í máli stjórnarformanns kom einnig fram að sjóðurinn er í örum vexti. Á árinu fengu 9.620 einstaklingar greiddan lífeyri frá sjóðnum, samtals 5,7 milljarða króna en greiðslur til sjóðsins voru 11,5 milljarðar. Ávöxtun sjóðsins var sveiflukennd. Nafnávöxun endaði í 4,8% sem svarar til 1,5% raunávöxtunar. Stjórnarformaður fór einnig yfir breytingar á skipuriti sjóðsins. Nýtt svið var stofnað, réttindasvið, sem tekur við öllum málefnum lífeyris- og tryggingadeildar. Í ávarpinu kom einnig fram að stjórn sjóðsins hefur markað þá stefnu að auka enn við erlendar fjárfestingar til að fjölþætta enn betur eignasafn sjóðsins, með það að markmiði að draga úr áhættu.
Þá fór Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri, yfir ársreikning sjóðsins og áritanir og gerði grein fyrir tryggingafræðilegri stöðu. Var ársreikningur sjóðsins samþykktur samhljóða að yfirferð lokinni.
Brynjar Þór Hreinsson, fjárfestingarstjóri, fór því næst yfir fjárfestingarstefnu Stapa.
Á fundinum voru lagðar fram tillögur að breytingum á einstökum greinum samþykkta sjóðsins og gerði Einar Ingimundarson, lögfræðingur, grein fyrir þeim. Allar breytingatillögur voru samþykktar.
Gert var grein fyrir starfskjarastefnu sjóðsins sem er óbreytt frá fyrra ári og var hún samþykkt samhljóða.
Stjórn Stapa lífeyrissjóðs skipa í dag:
Frá launamönnum:
Huld Aðalbjarnardóttir (stjórnarformaður), Oddný María Gunnarsdóttir, Sverrir Mar Albertsson og Tryggvi Jóhannsson.
Varamenn: Heimir Kristinsson og Sigríður Dóra Sverrisdóttir.
Frá launagreiðendum:
Erla Jónsdóttir (varaformaður), Kristín Halldórsdóttir, Unnar Már Pétursson og Valdimar Halldórsson.
Varamenn: Guðrún Ingólfsdóttir og Páll Snorrason.
Þá var samhljóða samþykkt tillaga að Deloitte ehf. sem löggiltum endurskoðanda sjóðsins og einnig tillaga að breytingu stjórnarlauna frá fyrra ári, í samræmi við hækkun á launavísitölu.
Gögn frá ársfundinum: