Í öllu því hruni sem nú á sér stað á íslenskum fjármálamarkaði er gott að geta flutt a.m.k. eina góða frétt. Séreignarsöfn Stapa lífeyrissjóðs hafa komið mjög vel út úr þessum hildarleik a.m.k. enn sem komið er. Safn I er alfarið í innlendum ríkisverðbréfum sem hafa hækkað mikið í verði að undanförnu og nam hækkun safnsins í september 8,64%. Safn II er 70% í innlendum ríkisskuldabréfum og 30% í erlendum eignum. Líkt og í Safni I hafa íslensku ríkisverðbréfin hækkað mjög mikið. Erlendu eignirnar hafa lækkað nokkuð í verði, en á móti hefur komið að gengi íslensku krónunnar hefur gefið talsvert eftir. Erlendu eignirnar hafa því einnig hækkað í verði í íslenskum krónum og nam hækkun á Safni II 7,11% í september. Í október hefur verið unnið að því að koma erlendu eignunum í öruggari eignir sem taka minni markaðssveiflum.
Bæði eignasöfnin eru í öruggum eignum. Innlendar og erlendar eignir eru á hinn bóginn háðar markaðssveiflum og sveiflum á gengi krónunnar. Þessar sveiflur voru söfnunum mjög í hag í september og það sem af er október eru bæði söfnin í ágætis málum. Við venjulegar aðstæður ættu þessar eignir ekki að sveiflast mikið í verði. Á hinn bóginn eru aðstæður í dag langt frá því að vera venjulegar og erfitt er að spá fyrir um framtíðina í þessum efnum. Sjóðurinn hefur því ákveðið að bjóða upp á Safn III sem eingöngu verður í innlánum, sem nú eru ríkistryggð. Slík leið tekur ekki markaðssveiflum en á hinn bóginn eru vextir breytilegir og afkoma Safns III mun því ráðast af þeim vöxtum sem verða hjá innlendum lánastofnunum. Eins og áður geta sjóðfélagar flutt sig milli safna að vild. Vinsamlegast hafið samband við sjóðinn, ef áhugi er á því.