Stjórn og starfsmenn Stapa lífeyrissjóðs eru vörsluaðilar lífeyrissparnaðar sjóðfélaga og ber sem slíkum að standa vörð um hagsmuni þeirra og hafa þá að leiðarljósi í störfum sínum. Í því er m.a. fólgin sú krafa að sjóðurinn stuðli að því að bestu faglegu viðmið um stjórnarhætti fyrirtækja séu í heiðri höfð hjá þeim fyrirtækjum þar sem sjóðurinn fjárfestir eða felur eignastýringu fyrir hönd sjóðsins. Það er trú okkar að góðir stjórnarhættir stuðli að góðum og hagfelldum rekstri og þjóni þannig hagsmunum eigenda og annarra hagsmunaaðila til lengri tíma litið.
Árið 2015 samþykkti stjórn sjóðsins Leiðbeiningar og stefnumið um stjórnarhætti, fyrirsvar og félagslega ábyrgar fjárfestingar sem aðgengilegar eru á heimasíðu sjóðsins. Leiðbeiningunum er ætlað að gera grein fyrir áherslum sjóðsins sem hluthafi í innlendum hlutafélögum, þ.m.t. framkvæmd starfskjarastefnu.
Undanfarið hefur nokkur umræða skapast um framkvæmd starfskjarastefnu innlendra hlutafélaga sem skráð eru á aðallista Nasdaq OMX Iceland. Í áðurnefndum leiðbeiningum Stapa segir meðal annars um starfskjör stjórnenda:
Við skoðun á framkvæmd starfskjarastefna nokkra skráðra innlendra hlutafélaga þar sem sjóðurinn er hluthafi má sjá að hún stangast á við ofangreint. Í tveimur tilvikum, hjá N1 hf. og Eimskipafélagi Íslands hf., hefur sjóðurinn sent stjórn félags erindi í aðdraganda aðalfundar og óskað eftir skýringum og rökstuðningi fyrir framkvæmd starfskjarastefnu. Í báðum tilvikum hefur sjóðurinn hafnað fyrirlagðri starfskjarastefnu á aðalfundi enda samræmist framkvæmd hennar ekki framangreindum leiðbeiningum Stapa.
Framangreind erindi má finna hér að neðan:
Eimskipafélag Íslands hf., dags. 21. mars 2018
Stapi mun óska eftir því við stjórnir þeirra skráðu innlendu félaga þar sem sjóðurinn er hluthafi að gerð verði ítarleg grein fyrir fyrirkomulagi starfskjara stjórnenda félagsins og árangurstenging útskýrð og rökstudd, sé hún til staðar.
Í samræmi við áðurnefndar leiðbeiningar Stapa birtir sjóðurinn nú yfirlit yfir ráðstafanir atkvæðamagns sjóðsins á þeim hluthafafundum sem fulltrúar sjóðsins mæta á. Yfirlitið má finna á heimasíðu sjóðsins og verður uppfært eftir því sem fram vindur.
Þá hefur stjórn sjóðsins samþykkt að endurskoða Leiðbeiningar og stefnumið um stjórnarhætti, fyrirsvar og félagslega ábyrgar fjárfestingar í ljósi nýlegrar framkvæmdar starfskjarastefnu innlendra hlutafélaga og skerpa á þeim áherslum sem þar koma fram.