Hæstiréttur staðfestir dóm héraðsdóms

Þann 4. október sl. féll hæstaréttardómur í máli Stapa gegn Landsbanka Íslands (gamla bankanum) um rétt til skuldajöfnuðar. Ágreiningur stóð um hvort Stapi hefði rétt til að nýta skuldabréf, sem hann keypti á bankann til skuldajöfnunar, en um er að ræða skuldabréf sem gefið var út í Bandaríkjunum og varðveitt í svokölluðu óbeinu vörslukerfi þar í landi. Í því kerfi er gefið út eitt allsherjar skuldabréf (á pappír), sem sérstakur vörsluaðili, sem til þess er skipaður, varðveitir. Auk þess er skipaður svokallaður umsjónaraðili með skuldabréfinu, sem sér um samskipti milli útgefandans og fjárfesta. Eitt af hlutverkum umsjónaraðilans er að lýsa kröfu í bú útgefanda, fyrir hönd eiginlegra eigenda,  fari útgefandinn í þrot. Fjárfestar kaupa rafrænar einingar í slíku skuldabréfi og eru hinir eiginlegu eigendur (e. beneficial owners). Þetta fyrirkomulag er viðhaft um öll skráð skulda- og hlutabréf í Bandaríkjunum. Hinir eiginlegu (e. beneficial owners) eiga öll réttindi sem fylgja skuldabréfinu. Að mati Stapa er rétturinn til skuldajöfnunar slík réttindi. Bankinn hefur hins vegar haldið því fram að þar sem allsherjarskuldabréfið sé gefið út á vörsluaðilann sé ekki um beint skuldarasamband milli bankans sem útgefanda og eiginlegra eigenda skuldabréfsins. Þeir eigi aðeins kröfu á vörsluaðilann (sem þó er ekki útgefandi og greiðir ekki af bréfinu). Því geti eiginlegir eigendur ekki nýtt slíkar kröfur til skuldajöfnunar. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á sjónarmið bankans og nú hefur Hæstiréttur staðfest þann úrskurð. "Þessi úrskurður kemur okkur á óvart. Það kemur einnig á óvart að Hæstiréttur skuli ekki fjalla efnislega um okkar kröfu og rauninni er enn óljóst hver á þessi réttindi, ef það eru ekki hinir eiginlegu eigendur. Að okkar mati er niðurstaðan hvorki í samræmi við eðlilega túlkun réttarreglna né efni máls. Að okkar mati er augljóst að beint skuldarasamband er milli þessara aðila og öll réttindi eiga að vera hjá hinum eiginlegu eigendum. Það gildir í Bandaríkjunum og ætti að gilda hér einnig. Fyrirkomulaginu, sem felst í hinu óbeina vörslukerfi í Bandaríkjunum, er ekki ætlað að breyta þessu Það virðist þó hafa gert það í íslenska dómskerfinu. Við munum fá nánari greiningu á dómnum frá okkar lögmönnum innan tíðar og skoða í framhaldi af því hvort við látum hér staðar numið eða reynum frekar að sækja okkar rétt" sagði Kári Arnór framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs. Niðurstaða dómsins hefur óveruleg áhrif á afkomu Stapa lífeyrissjóðs.