Hæstiréttur dæmir Stapa í vil í máli gegn Fjármálaeftirlitinu

Þann 27. febrúar sl. felldi Hæstiréttur dóm í máli Stapa lífeyrissjóðs gegn Fjármálaeftirlitinu vegna dagsekta sem eftirlitið setti á sjóðinn. Þar með snéri Hæstiréttur við dómi héraðsdóms frá 8.júlí 2013, sem staðfest hafði  réttmæti dagsektarákvörðunar eftirlitsins.  Málsástæður sjóðsins voru þær að dagsektarákvörðun eftirlitsins byggðist ekki á réttri lagatúlkun. Heimildir eftirlitsins þyrftu að byggja á lögum. Eftirlitið gæti ekki breytt eftirlitsheimildum sínum með því að setja auknar heimildir inn í leiðbeinandi tilmæli, sem það reyndi síðan að knýja fram með beitingu dagsekta. Ef slíkt væri hægt væri ekki lengur um leiðbeinandi tilmæli að ræða heldur skuldbindandi fyrirmæli. Það jafngilti því að eftirlitið hafi fengið nánast lagasetningarvald um eigin heimildir. Slíkt vald ætti að liggja hjá löggjafanum en ekki eftirlitsstofnuninni sjálfri. Auk þessara efnislegu sjónarmiða hélt sjóðurinn því fram að ekki hafi verið rétt að ákvörðuninni staðið, þ.e. að hún hafi ekki verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga. Úrskurður Hæstaréttar tekur undir að ákvörðunin hafi ekki verið í samræmi við lög og fellir hana þar með úr gildi. Fjármálaeftirlitinu er gert að endurgreiða sjóðnum álagðar dagsektir með dráttarvöxtum. „Það er alltaf gott að vinna dómsmál og vonandi verður þetta til þess að vanda stjórnsýsluna í framtíðinni. Það er mikilvægt að stjórnvöld og ekki síst starfsmenn eftirlitsstofnana vandi embættisfærslu sína og fari að lögum og að þeim sé veitt aðhald í því efni. Á hinn bóginn er það áhyggjuefni að dómurinn skuli ekki reyfa hið eiginlega ágreiningsmál, þ.e. um gildi leiðbeinandi tilmæla og eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins. Það hefði verið mikilvægt fyrir báða aðila að fá úr því skorið, en úrskurður um það mál verður einfaldlega að bíða betri tíma“ sagði Kári Arnór Kárason framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs.