Stjórnvöld hafa nú kynnt tillögur sínar um aðgerðir í skuldamálum heimilanna. Ein af aðgerðunum er heimild til að nýta viðbótarlífeyrissparnað til að greiða niður húsnæðislán. Greiðendur í viðbótarlífeyrissparnað verður heimilt að láta eigið iðgjald, allt að 4% af launum, auk 2% mótframlags launagreiðands ganga til greiðslu á húsnæðislánum. Greiðslurnar eru skattlausar og geta að hámarki numið 500 þúsund krónum á ári á fjölskyldu í þrjú ár eða 1,5 milljón krónum. Heimildin nær til allra þeirra, sem skulduðu húsnæðislán fyrir 1. desember 2013. Gert er ráð fyrir að heimild til þessarar ráðstöfunar taki gildi 1. júlí 2014, en framkvæmd hennar hefur ekki verið nákvæmlega útfærð enn. Um leið verður frádráttarbært iðgjald launamanna til viðbótarlífeyrissparnaðar hækkað á ný úr 2% í 4%.