Í gær voru samþykktar á Alþingi breytingar á lögum er snúa að séreignarsparnaði. Vörsluaðilum séreignarsparnaðar er nú heimilit að greiða rétthöfum allt að 1 milljón króna samanlagt óháð því hvort séreignarsparnaðurinn er í vörslu hjá fleiri en einum vörsluaðila. Heimilt er því á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. október 2010 að hefja útborgun innstæðu séreignarsparnaðar rétthafa, ásamt vöxtum, að fjárhæð allt að kr. 1.000.000. Útgreiðsla dreifist á 9 mánuði, ef heildarúttekt er 1 milljón króna sem þýðir tæplega 70.000 krónur á mánuði eftir staðgreiðslu skatta. Ef úttektin er lægri styttist útgreiðslutíminn hlutfallslega. Útgreiðslan skerðir ekki barnabætur, vaxtabætur né atvinnuleysisbætur.
Í lögunum eru ekki sett sérstök skilyrði fyrir úttektarheimildinni. "Hins vegar má gera ráð fyrir að þessi kostur höfði fyrst og fremst til þeirra sem eiga í einhverjum fjárhagsvandræðum, í ljósi þess hversu verðmætt sparnaðarform séreignarsparnaðurinn er fyrir velflesta" segir m.a. í athugasemdum með frumvarpi þessara nýju laga.
Til hvatningar þeim er hafa svigrúm til áframhaldandi sparnaðar er nú hægt að draga allt að 6% framlag í séreignarsparnað frá tekjuskattsstofni á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. október 2010, en hámarkið hefur verið 4%. Í þessu samhengi er vert að vekja athygli á kostum séreignarsparnaðar umfram önnur sparnaðarform, m.a. vegna mótframlags atvinnurekanda og hagstæðrar skattlagningar.
Óski rétthafi eftir útgreiðslu skal hann leggja fram umsókn og er umsóknareyðublað að finna hér að neðan og undir flipanum eyðublöð.
Stapi mun ekki innheimta þóknun vegna þessarar útgreiðslu.
Umsóknareyðublað
Lög um breytingu á lögum nr. 129/1997