Á síðustu árum hefur Fjármálaeftirlitið tekið stjórnarmenn lífeyrissjóða í hæfismat, þar sem þeir hafa verið kallaðir fyrir sérstaka nefnd til að meta hæfi þeirra. Áður hafði hæfismat verið framkvæmt á grundvelli skriflegra gagna einvörðungu. Í samræmi við þessa nýju tilhögun hafa stjórnarmenn í Stapa lífeyrissjóði verið kallaðir fyrir nefndina. Fjármálaeftirlitið ákvað að líta á störf nefndarinnar sem sértæka eftirlitsaðgerð, sem það gæti rukkað sérstaklega fyrir, en væri ekki innifalið í hinu almenna eftirlitsgjaldi sem sjóðurinn greiðir. Sjóðurinn taldi á hinn bóginn að hér væri um almenna eftirlitsaðgerð að ræða sem ekki væri heimilt að rukka sérstaklega og sendi eftirlitinu rökstuðning þess efnis. Þar var m.a. tiltekið að mat á hæfi stjórnarmanna væri eitt af föstum verkefnum stofnunarinnar og beindist að hópi aðila. Viðbótareftirlitsgjald væri einungis heimilt að innheimta vegna verulegs viðbótarkostnaðar sem hlytist af eftirliti með einstökum aðila, sem ekki væri raunin í þessu tilfelli. Aðgerðin væri þannig almenn en ekki sértæk. Innheimta viðbótareftirlitsgjalds væri því ekki í samræmi við lög. Eftirlitið hafnaði rökum sjóðsins og ákvað stjórn hans þá að láta reyna á þennan ágreining fyrir dómstólum enda hefur sjóðurinn rétt til þess skv. lögum um eftirlit með fjármálastarfsemi. Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í gær 25. mars 2013 dóm þess efnis að fallist var á sjónarmið Stapa lífeyrissjóðs að ekki sé lagastoð fyrir innheimtunni. Var álagt viðbótareftirlitsgjald fellt niður, auk þess sem sjóðnum var dæmdur málskostnaður. Hér er um Héraðsdóm að ræða og hefur Fjármálaeftirlitið þrjá mánuði til að ákveða hvort honum verður áfrýjað til Hæstaréttar.