Ísland aftur efst í alþjóðlegum samanburði

Annað árið í röð er Ísland efst í alþjóðlegum samanburði lífeyriskerfa. Íslenska lífeyriskerfið fær A í einkunn, hlaut 84,7 stig af 100 mögulegum en niðurstöður voru kynntar í dag. Heildareinkunn Íslands hækkar á milli ára. Holland og Danmörk koma fast á hæla okkar, einnig með A í einkunn, en alls tóku 44 ríki þátt í samanburðinum. 

Lífeyrisvísitalan, sem ráðgjafafyrirtækið Mercen og samtökin CFA Institude standa að, metur heildarlífeyriskerfi mismunandi landa út frá þremur meginþáttum; sjálfbærni, nægjanleika og trausti. Ísland er í efsta sæti bæði í nægjanleika og sjálfbærni, sem vega þyngst í vísitölunni, en í sjöunda sæti þegar kemur að trausti til kerfisins. 

Þeir þættir sem m.a. eru nefndir í skýrslunni sem styrkleikar íslenska lífeyriskerfisins:

  • Tiltölulega ríflegur lífeyrir almannatrygginga.
  • Skyldusparnaður alls launafólks með tiltölulega hárri iðgjaldaprósentu sem leiðir til þess að verulegar eignir eru lagðar til hliðar.
  • Góðir stjórnarhættir og regluverk lífeyrissjóða.

Einnig er bent á hvernig hægt væri að hækka heildareinkunn Íslands enn frekar:

  • Minnka skuldir heimila sem hluta af vergri landsframleiðslu.
  • Huga betur að jöfnun lífeyrisréttinda við skilnað.
  • Minnka skuldir ríkisins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Ítarefni:

Frétt á vef Stjórnarráðs Íslands
Frétt á vef Landssamtaka lífeyrissjóða
Mercer-CFA skýrsla ársins 2022
Samantekt Mercer á helstu atriðum skýrslunnar