Íslenska lífeyriskerfið er í öðru sæti, á eftir Hollandi í alþjóðlegri lífeyrisvísitölu sem ráðgjafarfyrirtækið Mercer og samtökin CFA Institute standa.
Ísland tók nú í fjórða sinn þátt í vísitölunni þar sem gerður er samanburður á lífeyriskerfum 48 ríkja. Ísland fékk A einkunn ásamt Hollandi, Danmörku og Ísrael. Í skýrslu Mercer gefur A-einkunn til kynna "fyrsta flokks og öflugt lífeyriskerfi sem tryggir góð réttindi, er sjálfbært og sem traust ríkir um".
Lífeyrisvísitalan metur heildarlífeyriskerfi mismunandi landa út frá þremur meginþáttum; sjálfbærni, nægjanleika og trausti og var Ísland með A einkunn í öllum þremur meginflokkum.
Heildareinkunn Íslands í vísitölunni í ár var 83,4 stig. Um er að ræða óverulega lækkun frá fyrra ári en þá fékk Ísland einkunnina 83,5. Ástæður lækkunarinnar er einkum fyrir liðinn nægjanleika lífeyris frá fyrra ári (úr 85,5 í 82,0). Má það rekja til lægra hlutfalls lífeyris af meðalævitekjum samkvæmt útreikningum OECD en á móti kemur nokkur hækkun vegna minni skuldsetningar heimila. Einkunn fyrir liðinn sjálfbærni hækkar lítilega úr 83,8 í 84,3 sem rekja má til hagvaxtar á Íslandi en á móti kemur nokkur lækkun vegna vaxandi lífeyrisbyrði, þ.e. fjölgunar aldraðra og lengri meðalævi á meðan fæðingartíðni fer lækkandi.
Nánari upplýsingar eru á lifeyrismal.is