Kröfulýsing á Landsbankann

 Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá hefur Stapi lífeyrissjóður lýst 38,5 milljarða króna kröfu á hendur Landsbankanum.  Við kröfulýsinguna hefur sjóðurinn m.a. gert kröfu í alla eignarhlið afleiðusamninga sem gerðir voru við bankann á ákveðnu tímabili. Samningum þessum er rúllað í frá einum tíma til annars og skýrir það þá háu fjárhæð sem lýst er. Ágreiningur ríkir um hvort og hvenær stýringarsamningur bankans við sjóðinn varð ógildur og fer sjóðurinn aðrar leiðir við kröfulýsingu en sambærilegir aðilar. Þá hefur sjóðurinn ennfremur lýst skaðabótakröfu á hendur bankanum vegna athafna eða athafnaleysi bankans sem hann telur að  skaðað hafi sjóðinn. Aðferð sú sem sjóðurinn notar við kröfulýsinguna er til að gæta ítrustu hagsmuna sjóðfélaga ekki síst ef til dómsmála kemur við uppgjör við bankann. Sjóðurinn telur að tap sjóðsins af viðskiptum við bankann verði ekki meira en gert er ráð fyrir í ársuppgjöri 2008.