Lækkun dráttarvaxta

Stjórn Stapa lífeyrissjóðs ákvað að lækka dráttarvexti af iðgjaldaskuldum við sjóðinn tímabundið, á fundi sínum 19. desember sl. Voru dráttarvextir lækkaðir í 10% á tímabilinu frá byrjun október 2008 til loka febrúar 2009. Vaxtalækkunin náði þó einungis til krafna sem gerðar voru upp á tímabilinu. Vanskil sem ekki voru gerð upp voru áfram með lögboðna dráttarvexti sem nú eru 25%. Markmið þessarar lækkunar var að koma til móts við skuldara eftir bankahrunið með því að auðvelda og hvetja til uppgjöra. Segjast verður eins og er að viðbrögðin voru mjög góð og voru iðgjaldaskil óvenju góð á þessum tíma. Stjórn sjóðsins ræddi þessa útkoma á fundi sínum 23. febrúar sl. Var þar samþykkt að dráttarvextir yrðu 10% tvo næstu mánuði þ.e. mars og apríl vegna skulda sem gerðar eru upp á þessum tímabili. Rétt er að taka fram að þetta er ekki framlenging á fyrri vaxtalækkun. Þeir sem ekki nýttu sér hana fá lögboðna dráttarvexti á tímabilinu október til febrúar hafi þeir verið í vanskilum á þeim tíma. Eldri skuldir bera  þannig lögboðna dráttarvexti til 1.mars en 10% dráttarvexti frá 1. mars enda séu þær gerðar upp fyrir lok apríl. Er vonast til að þetta létti eitthvað undir með launagreiðendum.