Með dómi Hæstaréttar þann 3. mars sl. var staðfest niðurstaða héraðsdóms um skyldu gamla Landsbankans til að afhenda tiltekin gögn. Stapi höfðaði mál gegn gamla Landsbankanum þar sem þess var krafist að sjóðurinn fengi aðgang að tilteknum göngum sem lögð höfðu verið fram í máli sem Landsbankinn höfðaði fyrir héraðsdómi á hendur sjö fyrrum stjórnar- og starfsmönnum sínum svo og gegn 25 erlendum vátryggjendum. Niðurstaða Hæstaréttar er sú að eftir að bú hlutafélags hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta þá veiti gjaldþrotalöggjöfin kröfuhöfum og hluthöfum heimild til aðgangs að gögnum þess, eftir atvikum til að kanna hvort aðrir hluthafar, stjórnendur, starfsmenn eða endurskoðendur hafi gerst brotlegir við lög í aðdraganda gjaldþrotaskipta. Eftir að þessi niðurstaða er fengin liggur fyrir að greina hin afhentu gögn og kanna hvort fyrir hendi séu atvik sem leitt geta til skaðabótaskyldu, en sérstaklega verður skoðað hvort ætla má að tilteknir hluthafar hafi tekið þátt í blekkingarleik til að fela umfang lánveitinga til sín. Eftir slíka greiningu verður ákveðið hvort gripið verður til frekari aðgerða í framhaldinu.