Lífeyrissjóðir fá heimild til að fjárfesta á First North markaðinum

Alþingi samþykkti þann 1. júlí sl. breytingar á lögum um starfsemi lífeyrissjóða, sem heimila þeim að fjárfesta í verðbréfum, sem verslað er með á svokölluðu markaðstorgi fjármálagerninga (MTF) og teljast slík verðbréf, allt að 5% af heildareignum sjóðanna, til skráðra bréfa í eignasöfnum þeirra. Markaðstorg fjármálagerninga eru viðskiptakerfi, sem starfrækt geta verið af fjármálafyrirtækjum eða kauphöllum. Reglur þar eru yfirleitt einfaldari og kröfur um upplýsingar minni en er á aðallistum kauphalla. Einn skipulagður markaður af þessu tagi - First North - er starfræktur hér á landi af Kauphöll Íslands. Mörkuðum af þessu tagi er ætlað að vera vettvangur minni og vaxandi fyritækja. Erlendis hafa mörg stór fyrirtæki byrjað á slíkum mörkuðum áður en þau hafa verið skráð á aðallista kauphalla. Aðeins þrjú félög eru skráð á First North markaðinn á Íslandi eins og stendur, þ.e. Hampiðjan, Century Aluminium og Sláturfélag Suðurlands. Gera má ráð fyrir að þeim fjölgi með þessari lagabreytingu, en markmið hennar er að auðvelda minni og meðalstórum fyrirtækjum að laða til sín fjárfesta og um leið að auka fjölbreytni í fjárfestingakostum lífeyrissjóða.