Lífeyrissjóðir fá heimildir til að fjárfesta erlendis á nýjan leik

Frá því að gjaldeyrishöft voru sett á, á Íslandi, í nóvember 2008 hafa íslenskir lífeyrissjóðir ekki haft heimildir til fjárfestinga erlendis. Sjóðirnir hafa haft heimildir til að viðhalda þeim erlendu eignum sem þeir höfðu fyrir setningu haftanna, en nýjar fjárfestingar voru óheimilar. Nú hefur Seðlabanki Íslands ákveðið að heimila sjóðunum að fjárfesta á ný í erlendum verðbréfum. Heimildin er liður í áætlun um afléttingu gjaldeyrishafa og er takmörkuð við 10 milljarða króna á árinu 2015, sem skiptist á milli sjóðanna. Við skiptingu heimildarinnar mun stærð sjóðanna ráða 70% en hreint innstreymi til þeirra 30%. Þetta er mikilvægur áfangi, þar sem sjóðirnir hafa verið að vaxa undanfarin ár og erlendar eignir því farið minnkandi sem hlutfall af heildareignum. Bann við erlendum nýfjárfestingum hefur dregið úr áhættudreifingu í eignasafni sjóðanna og fækkað verulega þeim fjárfestingavalkostum sem þeim hefur staðið til boða. Lífeyrissjóðirnir vænta þess að þetta sé aðeins fyrsta skrefið í að létta öllum hömlum af fjárfestingum þeirra erlendis.