Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá urðu mistök við kröfulýsingu á kröfum sjóðsins vegna nauðasamninga Straums-Burðaráss, þannig að kröfunni var lýst of seint. Um er að ræða mannleg mistök hjá Lögmannsstofunni ehf., sem fer með málið fyrir hönd sjóðsins, vegna misskilnings á auglýsingu um kröfulýsingarfrestinn. Lögmannsstofan hefur mikla reynslu af þessum málum og nýtur virðingar fyrir störf sín og hefur margoft áður lýst kröfum fyrir sjóðinn án nokkurra vandkvæða. Hafin er vinna við að koma kröfunum að í samræmi við ákvæði gjaldþrotalaga og er vonast til að hún skili jákvæðri niðurstöðu þannig að umrædd mistök valdi sjóðnum ekki tjóni. Hefð er fyrir því hér á landi að taka tillit til atvika sem þessara sem augljóslega eru til komin vegna mannlegra mistaka, en samþykkt kröfunnar mun hafa mjög óveruleg áhrif á hag annarra kröfuhafa. Tímarnir eru hins vegar óvenjulegir og því ekki á vísan að róa í þessu efni. Ljóst er að tjónið getur orðið umtalsvert fyrir sjóðinn fari málið á versta veg og rýrt ávöxtun hans um 2-4%. Ekki verður ljóst hver niðurstaða málsins verður fyrr en að nokkrum vikum liðum. Þangað til mun sjóðurinn ekki tjá sig frekar um málið. Rétt er að árétta að ekkert tjón hefur enn orðið vegna þessa atviks og vangaveltur um það efni því ótímabærar. Tekið skal sérstaklega fram að niðurstaða þessa máls mun ekki hafa nein áhrif á Séreignardeild sjóðsins þar sem að söfn Séreignardeildar eiga ekki aðild að umræddum kröfum.