Í síðustu viku lauk endanlega vinnu við að tryggja heildarfjármögnun á kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík. Öll leyfi eru komin fyrir framkvæmdinni, sem nú er komin í fullan gang. Stapi lífeyrissjóður hefur tekið þátt í verkefninu með öðrum lífeyrissjóðum í gegnum félagið Bakkastakk.
Þetta hefur verið flókið verkefni og langt ferli, enda er flækjustig þess talsvert, bæði hvað varðar fjármögnun, en einnig í samningum um ýmsa verkþætti við byggingu verksmiðjunnar og tryggingu á aðföngum og sölu á afurðum verksmiðjunnar. Allt er þetta nauðsynlegt til að allir aðilar, sem að verkinu koma, geti gert sínar áreiðanleikakannanir og lagt mat á hagkvæmni verkefnisins. Þá olli aðkoma ESA að málinu nokkrum töfum, en allar hindranir eru að baki og verkefnið er komið af stað.
Ég fullyrði að vel og faglega hefur verið unnið að þessu verkefni og vandað til alls undirbúnings. Við vonumst til að framkvæmdirnar og reksturinn í framhaldinu gangi vel. Stapi lífeyrissjóður á mikið undir. Sjóðurinn fjárfesti fyrir um 1.650 milljónir króna í verkefninu. Þetta er langstærsta einstaka fjárfesting okkar á félagssvæði sjóðsins fram til þessa og nemur um 15 ára iðgjöldum Húsvíkinga til sjóðsins.
Það er ánægjulegt að geta stutt við verkefni á okkar félagssvæði og stuðlað þannig að því að skapa störf og auka umsvif. Um það var góð samstaða í stjórn sjóðsins. Það er líka mikilvægt að verkefnið gangi vel og skili okkur góðri arðsemi sem nýtist til að greiða félagsmönnum okkar lífeyri í framtíðinni sagði Kári Arnór Kárason framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs og stjórnarmaður í Bakkastakki.