Stapi lífeyrissjóður og Glitnir ganga frá samkomulagi um afleiðusamninga og skuldajöfnuð

Stapi lífeyrissjóður og Glitnir hafa gengið frá samkomulagi um kröfur Glitnis á hendur sjóðnum vegna afleiðusamninga, sem verið hafa fyrir dómstólum. Er niðurstaðan sú að allir samningarnir eru gerðir upp með fullum skuldajöfnuði á móti kröfum sem sjóðurinn á á Glitni og kemur þannig ekki til neinna greiðslna vegna þessa. Uppgjörið er í samræmi við það mat sem lagt var til grundvallar í bókhaldi sjóðsins og hefur það því ekki áhrif á afkomu hans.

„Það er út af fyrir sig ánægjulegt að þessu langdregna máli sé lokið“ sagði Kári Arnór Kárason, framkvæmdastjóri Stapa.  „Þetta hefur staðið lengi yfir og dregist og dregist að klára hjá dómstólum landsins. Við hefðum gjarnan viljað fá dómsúrskurð, þar sem mörg álitamál eru þarna uppi. Dráttur málsins er hins vegar orðinn slíkur að óvissa vegna mögulegra dráttarvaxta er veruleg. Með þessu uppgjöri er öllu skuldjafnað á móti kröfum sjóðsins á bankann og við erum því ekki að greiða neina peninga og enga dráttarvexti. Uppgjörið er sambærilegt við uppgjör annarra lífeyrissjóða við bankann. Með hliðsjón af þessu var það mat stjórnar sjóðsins að réttlætanlegt væri að ljúka málinu með þessu samkomulagi. Þetta er fullnaðaruppgjör og málsóknin sem nú er fyrir hæstarétti er því felld niður“  sagði Kári Arnór.