Stjórn Stapa lífeyrissjóðs samþykkti á fundi sínum þann 6. nóvember sl. að setja sjóðnum stefnu um ábyrgt fyrirsvar og félagslega ábyrgð við fjárfestingar. Stefnan á að vera til leiðbeiningar fyrir starfsmenn sjóðsins við fjárfestingar og skilgreinir þau faglegu sjónarmið í stjórnarháttum og umhverfismálum sem sjóðurinn ætlast til að fyrirtæki sem hann fjárfestir í fylgi í starfsemi sinni. Sjóðurinn hefur trú á því að fyrirtæki, sem fylgja góðum stjórnarháttum, sýna samfélagslega ábyrgð og vilja almennt vera góðir þegnar í því samfélagi þar sem þau starfa, séu líklegri til að ná góðum árangri í rekstri og stuðla að auknum verðmætum fyrir eigendur, starfsmenn og samfélagið allt. Sjóðurinn mun fylgjast með því hversu vel fyrirtæki ná að uppfylla þau stefnumið, sem sjóðurinn hefur sett fram og áskilur sér rétt til að koma á framfæri ábendingum og athugasemdum ef þörf krefur. Sjóðurinn telur mikilvægt að vinna með fyrirtækjum á jákvæðan hátt við að bæta stjórnarhætti, umhverfismál og samfélagslega ábyrgð. Reglur sjóðsins má finna hér.