Með þessu nýja skipulagi er sjóðurinn að skerpa áherslur í rekstri sínum, styrkja eigna- og áhættustýringu og uppfylla auknar kröfur um innra eftirlit með frekari aðgreiningu starfa.
Skipulag sjóðsins hefur verði til umræðu í stjórn hans allt frá hruni bankanna. Hefur í því efni verið tekið mið af þeirri gagnrýni sem fram hefur komið og áherslu á að bæta og efla áhættu- og eignastýringu sjóðsins. Einnig hefur verið tekið mið af auknum kröfum um æskilega aðgreiningu starfa til að tryggja betur gæði og virkni innra eftirlits.
Ákveðið var að fjárfestingarráð sjóðsins yrði framvegis skipað einstaklingum sem eingöngu sinntu eignastýringu, en almenn stjórnun, áhættustýring og uppgjör viðskipta væri á hendi annarra starfsmanna. Fjárfestingarráð starfar sjálfstætt en heyrir undir framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri er ekki meðlimur í ráðinu, en í vissm tilfellum s.s. þegar um meiriháttar eða óvenjulegar fjárfestingar er að ræða þarf staðfestingar framkvæmdastjóra við.
Jafnframt var ákveðið að ráða sérstakan áhættustjóra, sem er ráðinn af stjórn sjóðsins og heyrir beint undir hana. Áhættustjóri mun hafa umsjón og eftirlit með allri áhættustýringu hjá sjóðnum og mun starfa náið með endurskoðunarnefnd sjóðsins og innri endurskoðanda.
Þá ákvað stjórnin að ráða sérstakan regluvörð, til að hafa eftirlit með verklagsreglum sjóðsins um verðbréfaviðskipti og verður því verkefni úthýst til utanaðkomandi lögmanns.
Hér má sjá nýtt skipurit Stapa: