Í samræmi við fyrirhugaðar breytingar á skipulagi sjóðsins og eflingu á eigna- og áhættustýringu hefur Stapi lífeyrissjóður ráðið til sín tvo nýja starfsmenn á sviði eignastýringar. Þetta eru þeir Óðinn Árnason og Jóhann Steinar Jóhannsson.
Óðinn er fæddur 1979. Hann lauk BSc prófi í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 2007 og mastersnámi í verkfræði með áherslu á fjármála- og fasteignamarkaði frá Konungulega Tækniháskólanum í Stokkhólmi í Svíþjóð sl. vor. Óðinn hefur áður starfað hjá Hafrannsóknarstofnun, Sparisjóðabankanum, Íslenskum verðbréfum og Kaupþingi í Svíþjóð.
Jóhann Steinar lauk BSc námi í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík 2005 og mastersnámi frá Háskólanum í Lundi sl. vor. Jóhann hefur áður starfað hjá Straumi Fjárfestingarbanka, Háskólanum í Reykjavík, Stoðum hf. og Tryggingamiðstöðinni.