Upplýsingar til sjóðfélaga

Í tilefni af því ástandi sem nú er á fjármálamörkuðum hefur Fjármálaeftirlitið sent bréf til lífeyrissjóðanna þar sem eftirfarandi er tilgreint: Núverandi ástand á fjármálamörkuðum hefur gert það að verkum að nær ómögulegt er að verðmeta eignir lífeyrissjóðanna, sem stendur. Allir hefðbundnir mælikvarðar við verðmat eigna eru nú háðir mikilli óvissu. Þetta gildir um gengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum, markaðsvirði verðbréfa í Kauphöll Íslands auk óvissu um innheimtu krafna á hendur íslensku viðskiptabönkunum sem hættir eru rekstri og fleiri óvissuatriða. Þetta gerir það einnig að verkum að ógjörningur er að senda sjóðfélögum yfirlit sem tilgreina trúverðuga réttindastöðu. Af þessum sökum hefur Stapi lífeyrissjóður ákveðið að fresta útsendingu hefðbundinna yfirlita þar til meiri vissa fæst um stöðu sjóðsins. Jafnframt hefur þessi óvissa, og þær miklu sveiflur sem átt hafa sér stað, leitt til þess að óvíst er að sjóðurinn geti staðið við ákvæði laga eða samþykkta fjárfestingarstefnu um samsetningu eigna. Gildir það bæði fyrir tryggingardeild og séreignardeild sjóðsins. Stjórn sjóðsins hefur ákveðið að gera allt sem í hennar valdi stendur til að vernda hagsmuni sjóðfélaga í því gerningaveðri sem nú gengur yfir fjármálamarkaði heimsins jafnvel þótt það þýði að víkja verði frá samþykktri fjárfestingarstefnu.