Mikil fjölmiðlaumræða hefur spunnist um boðsferðir lífeyrissjóða á síðustu árum. Ljóst er að íslensku bankarnir voru mjög umsvifamiklir í íslensku þjóðlífi og kostuðu boð og ýmsar uppákomur sem margir voru þátttakendur í, þar með talið lífeyrissjóðir. Það gildismat sem þá ríkti hefur verið harðlega gagnrýnt og vissulega er bæði sjálfsagt og eðlilegt að yfir þessi mál sé farið með gagnrýnum hætti þannig að menn læri af mistökum sem gerð hafa verið og reyni að koma í veg fyrir þau í framtíðinni. Mikilvægt er að allir aðilar skoði þessi mál í eigin ranni – ekki síst fjölmiðlar sem farið hafa mikinn um þessi mál að undanförnu. Þeir voru ríkir þátttakendur í að skapa það andrúmsloft sem hér var með fréttaflutningi og beinni þátttöku í þeirri jörvagleði sem ríkti í íslensku samfélagi m.a. í boðsferðum á vegum íslenskra banka og fyrirtækja. Það er eðlilegt að þeir geri sömu kröfur til sjálfrar sín og gert er til annarra. Við höfum óskað eftir því að þeir gefi þessar upplýsingar án þess að við því hafi verið orðið.
Stjórn Stapa lífeyrissjóðs hefur nú til umfjöllunar nýjar siðareglur sem ætlað er að setja strangari reglur um þessa þætti. Jafnframt vill sjóðurinn gefa upplýsingar um utanlandsferðir á vegum sjóðsins á undanförnum árum.
Á árinu 2005 fóru starfsmenn sjóðsins 7 sinnum erlendis. Tvisvar sinnum á ráðstefnur sem tengdust fjárfestingum og eru fyrst og fremst ætlaðar lífeyrissjóðum. Fjórum sinnum heimsóttu þeir eignastýrendur sem stýra eignum fyrir sjóðinn. Ferðirnar voru greiddar af sjóðnum. Einu sinni þáði sjóðurinn boðsferð á vegum íslensks banka þar sem erlend starfsemi var kynnt.
Á árinu 2006 fóru starfsmenn sjóðsins 7 sinnum erlendis. Þrisvar á ráðstefnur, tvær tengdust fjárfestingum og ein réttindakerfi lífeyrissjóða m.t.t. breytinga á aldurssamsetningu. 3 ferðir voru farnar til að heimsækja eignastýrendur sem stýra eignum fyrir sjóðinn. Þessar ferðir voru greiddar af sjóðnum. 1 boðsferð var farin á vegum íslensks banka þar sem erlend starfsemi var kynnt.
Á árinu 2007 sóttu starfsmenn sjóðsins 4 ráðstefnur erlendis sem tengdust fjárfestingum, þar af tvær sem eingöngu voru fyrir lífeyrissjóði. Þrisvar sinnum heimsóttu þeir eignastýrendur sem stýra eignum fyrir sjóðinn. Ferðirnar voru greiddar af sjóðnum og í tveimur tilfellum var ferð á ráðstefnu og heimsókn til eignastýrenda tengdar saman. Þrisvar sinnum þáði sjóðurinn boð í ferðir á vegum íslenskra banka vegna kynningar á starfsemi þeirra erlendis.
Á árinu 2008 sóttu starfsmenn sjóðsins 3 ráðstefnur erlendis sem tengdust fjárfestingum, þar af eina sem eingöngu var ætluð lífeyrissjóðum og tvær ferðir voru farnar til að hitta eignastýrendur sem stýra eignum fyrir sjóðinn. Ferðirnar voru greiddar af sjóðnum. Sjóðurinn þáði tvær boðsferðir, aðra á vegum íslensk banka og hin á vegum íslensks fyrirtækis, í bæði skiptin var verið að kynna starfsemi þessara aðila erlendis.
Á árinu 2009 hafa starfsmenn sjóðsins sótt eina ráðstefnu um efnahagsmál og fjárfestingar og farið eina ferð til að hitta eignastýrendur sem stýra eignum fyrir sjóðinn.
Í flestum tilfellum er um hreinar vinnuferðir að ræða, sem eru eðlilegur hluti af starfsemi sjóðsins, en um 35-40% af eignum sjóðsins eru ávaxtaðar erlendis. Vissulega má gagnrýna að sjóðurinn hafi þegið boðsferðir frá viðskiptaaðilum sínum. Það lýsir því gildismati sem ríkti í íslensku samfélagi og er nú til endurskoðunar. Nýjar siðareglur fyrir sjóðinn eru nú til umfjöllunar hjá stjórn þar sem ætlunin er að setja nánari reglur um samskipti við fjármálastofnanir og aðra aðila, þ.m.t. talið um boðsferðir.
Tekið skal fram að stjórnarmenn í sjóðnum tóku ekki þátt í neinum ferðum sem lýst er hér að ofan. Stapi lífeyrissjóður tekur til sín þá gagnrýni sem verðið hefur í þjóðfélaginu að undanförnu í þessum efnum og vill bregðast við þeim á málefnalegan og jákvæðan hátt. Umræður um siðræn efni eru vissulega mikilvægar og eiga alltaf rétt á sér. Þó verður að hafa í huga að árangur sjóðsins og rekstur skipta mestu fyrir sjóðfélaga og aðalatriðin mega ekki týnast í þessari umræðu.