Villandi fréttaflutningur á Bloomberg

Í frétt sem birtist á fréttavef Bloomberg í gær 4. júní 2013 var vitnað til samtals blaðamannsins Ómars Valdimarssonar við framkvæmdastjóra Stapa lífeyrissjóðs.

Í frétt sem birtist á fréttavef Bloomberg í gær 4. júní 2013 var vitnað til samtals blaðamannsins Ómars Valdimarssonar við framkvæmdastjóra Stapa lífeyrissjóðs um málefni Íbúðalánasjóðs. Í fréttinni, sem tekin hefur verið upp af íslenskum fréttamiðlum, er  því haldið fram að undirritaður eigi von á aðgerðum í málefnum Íbúðalánasjóðs í sumar. Jafnframt er látið að því liggja að undirritaður eigi von á aðgerðum þar sem skilmálum útgefinna skuldabréfa sjóðsins verði breytt og þá væntanlega með tilheyrandi kostnaði fyrir skuldabréfaeigendur. Það skal tekið fram að hér er alfarið um vangaveltur viðkomandi blaðamannsins að ræða. Hið rétta er að téður blaðamaður hafði samband við undirritaðan og skýrði frá því að samkvæmt hans heimildum stæði eitthvað í þessa veru til nú í sumar. Ég tjáði honum að við hefðum engar upplýsingar um þetta og ég vissi ekki til þess að nein samtöl hefðu átt sér stað um þetta efni.  Að okkar mati væri Íbúðalánasjóður með fulla og ótakmarkaða ábyrgð ríkisins. Greiðslufall hjá Íbúðalánasjóði  þýddi greiðslufall á öllum skuldum ríkisins og engar heimildir væru til einhliða breytinga á skilmálum. Ríkið yrði einfaldlega að standa við sínar skuldbindingar. Þá væri erfitt að sjá ávinninginn af slíkum breytingum ef tilgangurinn væri að velta kostnaði við endurskipulagningu Íbúðalánasjóðs yfir á skuldabréfaeigendur. Þeir væru, í gegnum lífeyrissjóðina, að stærstum hluta sömu einstaklingar og standa á bak við ríkissjóð, þ.e. almennir skattgreiðendur. Það eina sem hefðist upp úr slíkum aðgerðum væri að láta fólk á almennum vinnumarkaði taka á sig högg á meðan opinberum starfsmönnum væri hlíft. Það gætu varla verið góð skilaboð inn í komandi kjaraviðræður. 

Kári Arnór Kárason, framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs.